Vísindin og vísindin

Algeng leið til að reyna þagga niður í gagnrýni málefnalegra andstæðinga er að vísa í vísindin, eða öllu heldur Vísindin. Þetta tvennt, vísindin og Vísindin, er ekki það sama. Til að örva umræðu og kalla á andstæð sjónarmið og gagnrýni er hægt að styðjast við vísindin. Til að reyna þagga niður í öðrum er stuðst við Vísindin. 

Vísindin með litlu vaffi eru leitin að sannleikanum, eða a.m.k. að lausnum og skýringum sem virka. Vísindamenn skiptast á kenningum og rýna vinnu hvers annars. Þeir endurtaka tilraunir eða bæta þær og prófa þannig kenningar sínar og annarra. Engin skömm er í því að hafna eigin kenningu ef hún gengur ekki upp rökfræðilega eða er í trássi við gögnin.

Vísindin með stóru vaffi er málflutningur með yfirbragði vísindanna en þar sem kenningarnar standast öll áhlaup rannsókna og gagnaöflunar. Það er sama hvað vísindamenn, sem starfa við vísindarannsóknir, segja: Aldrei haggast Vísindin. 

Það hefur borið nokkuð á því að vísindin og Vísindin hafi fundið sameiginlegan vettvang. Mikill peningur er í Vísindunum og það laðar að sér vísindamenn sem fá bæði vel borgað og mikla athygli fyrir að starfa fyrir þau. Þetta blasir við í tilviki lyfjafyrirtækjanna sem borga vísindamönnum til að starfa í anda Vísindanna. Loftslagsrannsóknir eru einnig mjög mengaðar af starfsanda Vísindanna þar sem því er sífellt haldið fram að allir vísindamenn séu hreinlega sammála. Væri það mögulega í fyrsta skipti sem það gerist síðan menn héldu að eðlisfræðin væri fullkomnuð og þar til Einstein kenndi vísindamönnum lexíu aldanna.

Enda sagði Einstein sem þekkt er að það þyrfti ekki 100 vísindamenn til að halda því fram með undirskriftalista að kenningar hans væru rangar. Væru þær rangar væri nóg að einn vísindamaður gæti sannað það. Slíkir talnaleikir með undirskriftalistum eru því miður venjan frekar en undantekningin í dag.

Það er full ástæða til að vera vakandi fyrir því hvort verið sé að segja okkur frá niðurstöðum vísindanna eða Vísindanna. Meira að segja ráðleggingar yfirvalda um hvað telst til góðs og heilnæms mataræðis eru vafa undirorpnar og hafa að baki sér vafasama sögu hagsmunabaráttu stórfyrirtækja og í dag umhverfisverndarsinna sem halda að nautakjöt sé að tortíma loftslaginu.

Leiðarvísirinn er samt frekar einfaldur: Þegar því er haldið fram að allir eigi að vera sammála um eitthvað, þá er eitthvað að. Gildir þetta jafnvel í þjóðfélagsumræðunni líka. Mætti kannski tala um málfrelsið og Málfrelsið í því samhengi, en það er efni í aðra grein.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *