1.gr. 

Félagið heitir Málfrelsi – Samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi.

2. gr. 

Tilgangur samtakanna er að standa vörð um opna og frjálsa umræðu og ákvörðunarvald hins hugsandi einstaklings sem efast; undirstöðu frjáls lýðræðissamfélags.

3. gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að efna til málfunda, standa fyrir ráðstefnum, taka þátt í umræðu á samfélagsmiðlum, starfrækja vefsíðu og standa að útgáfu. Félagið stundar engan atvinnurekstur og er einvörðungu um félagasamtök að ræða þar sem félagsmenn njóta ekki fjárhagslegs ávinnings af starfsemi félagsins.

 4. gr. 

Félagsaðild er opin öllum sem vilja styðja málfrelsið.

Félagaskrá, sem haldin er af stjórn, ræður kjörgengi og atkvæðisrétti félagsmanna. Aðeins skráðir félagsmenn, sem greitt hafa árgjald félagsins eigi síðar en 30 dögum fyrir aðalfund eiga atkvæðisrétt um einstök mál, kosningarétt og kjörgengi til hvers konar trúnaðarstarfa innan félagsins. Félagaskrá skal liggja fyrir á skrifstofu félagsins 30 dögum fyrir aðalfund. 

5. gr. 

Stjórn félagsins skipa 7 aðalmenn að formanni meðtöldum. Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Heimilt er að kjósa einn varamann fyrir hvern aðalmann í stjórn. Formaður skal kosinn sérstaklega, til tveggja ára í senn. Að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum og kýs varaformann, gjaldkera og ritara úr sínum hópi á sínum fyrsta fundi. 

Á aðalfundi skal jafnframt kjósa skoðunarmann reikningsskila. 

Firmaritun er í höndum formanns. 

Stjórnin heldur fundi eins oft og þurfa þykir. Óski þrír stjórnarmenn eða fleiri eftir fundi og sendi um það skriflega ósk til formanns félagsins, er skylt að halda stjórnarfund.

6. gr. 

Aðalfundur hefur æðsta vald um málefni félagsins og geta allir fullgildir félagsmenn setið fundinn. Aðalfund skal halda árlega fyrir lok febrúar ár hvert. Aðalfund skal boða með tölvupósti með minnst sjö daga fyrirvara. 

Tilkynna skal framboð til stjórnarsetu í félaginu þrem dögum fyrir aðalfund. 

Á aðalfundi skal skipa sérstakan fundarstjóra og fundarritara.

Á dagskrá skal vera:

  1. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.
  2. Reikningsskil.
  3. Skýrslur nefnda.
  4. Kjör stjórnar og skoðunarmanna.
  5. Tillögur um lagabreytingar.
  6. Tillaga um félagsgjald komandi árs.
  7. Önnur mál. 

Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti viðstaddra félagsmanna ræður úrslitum mála.  

7.gr.

Félagsfundir skulu haldnir svo oft sem unnt er og skal stjórn félagsins kappkosta að rækja að öðru leyti hvers konar starfsemi sem líkleg er til að efla félagið og styrkja málstað þess.

8.gr.

Ákvörðun um félagsgjald, kr. 5.900 á ári, var tekin á aðalfundi 1. apríl 2024. Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi fyrir næsta starfsár.

9. gr. 

Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til að auka við starfsemi félagsins.

10. gr. 

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og skal þess getið í fundarboði að lagabreytingar verði á dagskrá fundarins. 

11. gr. 

Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en þrem vikum fyrir aðalfund. 

Lagabreyting telst samþykkt ef 2/3 þeirra sem atkvæði greiða samþykkja hana; annars telst hún felld.

12. gr.

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til þeirra góðgerðarmála sem ákveðin verða á slitafundi.   

Þannig samþykkt í Kópavogi 26. apríl 2022.