Veislurnar í garði Höss

Margir höfðu dásamað kvikmyndina The Zone of Interest áður en ég lét til leiðast að sjá hana en hún fjallar um Rudolph Höss, útrýmingarstjóra Auschwitz og hans fjölskyldu sem bjó við góðan kost, svo að segja utan í ógeðslegustu og afkastamestu dauðaverksmiðju helfararinnar. Ástæðan fyrir tregðu minni til að sjá hana var ekki sinnuleysi gagnvart útrýmingu gyðinga í Seinni heimstyrjöldinni heldur viss mettun á viðfangsefninu. Ég hef heimsótt útrýmingarbúðir, lesið ótal bækur sem byggja á þessum viðbjóðslega kafla í sögu okkar heims og séð allar merkustu kvikmyndir sem hafa verið byggðar á þessum atburðum. Þeir eiga vissulega að vera greyptir í minni og aldrei gleymast, því nauðsynlegt er að endurtekning verði aldrei á atburðum af þessum toga.

En myndina sá ég og vakti hún hughrif sem líklegast var ekki til ætlast af þeim sem að henni stóðu. Í myndinni er óhugnaður útrýmingarbúðana aldrei sýndur beint en er samt alltaf nálægur með óbeinum hætti, reykurinn stendur upp úr skorsteinum og við vitum hvað hann þýðir, bólstrar stíga upp af lestunum sem eru sífellt að koma og fara og við vitum nákvæmlega hvað þær hafa að geyma. Öskrin, hundgáin og byssuskotin sem heyrast stöðugt í bakgrunni gera það að verkum að óhugnaður útrýmingarinnar er alltaf nálægur handan við vegginn þó að börnin séu að leika sér eða busla í lauginni í fögrum lystigarði Höss hjónanna, þar sem frúin er iðinn í að skapa fegurð með blómarækt og nostursemi.

Þetta er í raun ekki mynd um helförna heldur það hugarástand sem verður ríkjandi hjá þeim sem framkvæma hana og þeim sem láta sig hana engu varða. Þetta er stúdía í ómennskunni, firringunni og sinnuleysinu og samsekt þeirra sem létu lágkúru illskunnar (banality of evil, samanber Hönnu Arendt) hvolfast yfir sig. Þetta er að því leyti merk stúdía, ekki á helförinni beint, heldur á því hugarfari sem varð að vera til staðar svo að helförin gæti orðið að veruleika.

Þetta er ekki djúp greining heldur mynd af veruleika þar sem fólk tekur beinan og óbeinan þátt í þjóðarmorði eins og það sé hinn eðlilegasti hlutur. Að því leyti talar þessi mynd beint inn í samtímann. Rudolph Höss, fjölskylda hans og vinir, eru í kringum okkur í dag. Nú er búið að myrða 30,412 manns með kerfisbundnum hætti fyrir framan nefið á okkur. Meira en 2 milljónir manna búa við hungur og ómennskan aðbúnað þar sem dauðinn er byrjaður að fella fólk. Börnin sem náðu að sleppa lifandi og ómeidd undan sprengjuregni og kúlnahríð eru nú sótt af dauðanum vegna sultar og sjúkdóma.

The Zone of interest er því áminning um að við erum að sjá gerast aftur sem aldrei átti að gerast aftur, vegna þess að lágkúra illskunnar gerir það að verkum að við spyrnum ekki við fótum. Sá veruleiki er okkar daga og snertir okkur beint. Sérstaklega núna þegar yfirhöfuð þarf að ræða það hvort rétt sé að taka þátt í söngvakeppnum og fótboltalandsleikjum þar sem fólk merkt ábyrgðaraðila þjóðarmorðsins er meðal boðsgesta.

Þessir íþrótta- og menningarviðburðir verða núna haldnir í fögrum lystigarði Höss fjölskyldunnar. Það er ekki hægt að útiloka óhugnaðinn þó að hann sjáist ekki úr garðinum. Þrátt fyrir glimmerskýin og tuðrusparkið á iðagrænum fögrum völlum, mun reykurinn úr skorsteinunum og skelfingarópin í börnunum vera í bakgrunni. Hver og einn einasti sem þiggur boðið, sem þátttakandi eða áhorfandi, mun aldrei geta umflúið eigin ábyrgð á því sem er að gerast handan við vegginn.

Boðskortið í Höss garðinn er merkt þér persónulega. Þú ræður hvað þú gerir við það en sú ákvörðun mun skilgreina þig og fylgja þér alla tíð.

Birtist fyrst á Facebook vegg höfundar.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *