Kjósendur eru til vandræða og ráða of miklu

Lýðræði er sífellt til vandræða og kjósendur eru ekki réttu aðilarnir til að marka stefnu yfirvalda. Það voru jú kjósendur sem leiddu Hitler til valda og trekk í trekk kjósa þeir vitlaust og hleypa fólki eins og Donald Trump, Giorgiu Meloni  og Jair Bolsonaro til valda. En hvað er til ráða í lýðræðisríki?

Í Bandaríkjunum vinna núna margir hörðum höndum að því að koma í veg fyrir að Donald Trump geti valtað yfir Joseph Biden í forsetakosningum þar í landi í haust, eða einhverjum öðrum sem leysir af Biden ef hann frýs endanlega. Framsæknustu ríki Bandaríkjanna höfðu hreinlega bannað að nafn Trump kæmi fram á kjörseðli og vandast þá málið fyrir kjósendur sem vilja kjósa frambjóðanda. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur núna, einróma, sópað slíkum aðförum að lýðræðinu til hliðar og aukast þar með líkurnar á að kjósendur geti kosið frambjóðanda. Þetta er vandamál því kjósendur eru sennilega að fara kjósa rangt, aftur. 

Við í Evrópu fylgjumst mátulega spennt með. Það hafa fá tár fallið yfir því að banna röngum frambjóðanda að birtast á kjörseðli en það gæti allt orðið brjálað þegar rangur frambjóðandi fær að birtast á kjörseðli. 

En það er ráð undir rifi hverju þegar kemur að því að lágmarka skaðann af lýðræði. Vald má framselja til alþjóðlegra stofnana sem er stjórnað án aðkomu kjósenda. Þannig finna Íslendingar vel fyrir því að bensínbíllinn verður sífellt dýrari í innkaupum og rekstri án þess að slíkt hafi beinlínis verið kosningamál. Málið er jú alls ekki í höndum kjörinna fulltrúa nema að því leyti að þeir beita gúmmístimplinum á fyrirmæli að utan. Kjósendur geta því hvorki kosið rétt né rangt í því máli, enda er það markmiðið.

Við sem borgarar þurfum kannski ekki að hafa áhyggjur af þeim vandræðum sem við sem kjósendur völdum. Við þurfum bara að nota prófkjör, aðalfundi stjórnmálaflokka og auðvitað kosningar til að hreinsa út alla þá sem vilja standa vörð um borgaraleg réttindi. Sía út þá með bein í nefinu strax í upphafi svo lýðræðið valdi sem minnstum skemmdum.

Þannig ráðum við borgarar sem kjósendur sem minnstu, og allir eru sáttir.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *