„Fallegt“ útsýni úr umferðarteppunni

Til stendur að byggja brú yfir Fossvoginn, milli Kársness og Reykjavíkur. Að öllu óbreyttu hefst vinna við þetta verkefni í sumar. 

Sam­kvæmt frumdrög­um að fyrstu lotu borg­ar­línu var áætlaður kostnaður við brúna sjálfa 2,25 millj­arðar.

Nú er verðmiðinn kominn í 8,8 milljarða! 

En eins og margir vita fara svona verkefni yfirleitt vel fram úr áætlun, svo það kæmi ekki á óvart þótt kostnaðurinn endi vel yfir 10 milljörðum.

Til samanburðar var álíka löng brú yfir Þorskafjörð vígð í fyrra, en heildarkostnaður við þær framkvæmdir nam um tveimur milljörðum króna. Kröfurnar fyrir brýrnar eru ekki endilega sambærilegar að neinu öðru leyti. Til dæmis þurfti hönnun Fossvogsbrúarinnar að taka mið af „upplifun“ þeirra sem eiga leið um hana. En verðið gefur kannski einhverja vísbendingu um það hvað brú yfir Fossvoginn gæti kostað ef hugað væri að verðmiðanum. Þarf Fossvogsbrúin virkilega að kosta fimm sinnum meira?

Ekki er víst að borgarbúar séu upplýstir um að Fossvogsbrúin verði ekki undir bílaumferð. Hún verður aðeins fyrir fótgangandi, hjólreiðafólk og Borgarlínu. Þetta verður sem sagt 9 milljarð króna göngubrú!

Hún mun því lítið sem ekkert létta á bílaumferð um Fossvoginn. Fólk mun samt þurfa að komast í Kringluna, MH og Verzló, svo ekki sé minnst á Landspítalann í Fossvogi og fleira á þessu svæði. Brúin mun sennilega einungis hliðra þeirra almannasamgönguumferð sem hefði farið af Kringlumýrarbraut og vestur eftir Bústaðavegi eða Miklubraut, og til baka.

Fáar sem engar raunsæisraddir gera ráð fyrir að Borgarlína muni létta neitt sérstaklega á umferð. Hún mun ekki breyta veðrinu! Né mun hún útrýma þeim vegalengdum sem fólk þarf að ferðast, ýmist fótgangandi eða með Strætó, til að komast í Borgarlínuna.

Fólk mun geta hjólað yfir Fossvogsbrúna, með ískalda hafgoluna í andlitinu, þar sem ekkert skjól verður fyrir veðri og vindum. Ætli hundrað manns muni hjóla þarna yfir á hverjum degi að meðaltali? Hve mörg þúsund manns keyra Kringlumýrarbrautina?

En hvers vegna er þetta brúarskrímsli svona dýrt?

Ein ástæða þess er sú, að hún þarf að vera „falleg“, vegna þess að hún mun hafa áhrif á útsýni fjölda fólks yfir Fossvoginn!

Meðan fólk er fast í umferð á Kringlumýrarbrautinni, fær það að dást að þessu undurfagra mannvirki! Það getur bölvað yfirvöldum eins og það vill, fyrir að spreða skattfé í þessa vitleysu. Það getur bölvað þessari gagnslausu brú fyrir að hafa ekkert gert til að létta á umferð og bæta líf yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem greiddu fyrir hana. En það fær allavega að njóta útsýnisins! Sérhvern dag mun þetta undurfagra listaverk minna borgarbúa á það hversu mikið yfirvöld eru úr takti við raunveruleikann.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *