Atlagan að málfrelsinu sem tapaðist

Á þessum vettvangi hefur oft verið minnst á málefni Julian Assange, blaðamannsins sem uppljóstraði um stríðsglæpi bandarískra yfirvalda og hefur í kjölfarið verið vistaður í fangelsum af ýmsu tagi og er enn. Fullnaðarsigur vinna bandarísk yfirvöld þegar þeim tekst að knýja Breta til að framselja Assange til Bandaríkjanna þar sem þau munu læsa hann inni til æviloka. 

Þessi atlaga að málfrelsinu er að ganga upp. Hvaða blaðamaður þorir í dag að fjalla um stríðsglæpi Bandaríkjanna? Enginn. Kínverjar sleppa líka vel frá sínum mannréttindabrotum. Blaðamenn einbeita sér þess í stað að öðrum ríkjum, eins og Ísrael og Rússlandi.

Á tímum heimsfaraldurs var gerð stór atlaga að málfrelsinu. Yfirvöld víða á Vesturlöndum, þar á meðal Íslandi, lögðust í eina sæng með fjölmiðlum og tæknifyrirtækjum til að fela, banna eða merkja skrif og færslur sem fjölluðu með gagnrýnum hætti um lokanir, grímur, mat hins opinbera á lyfjagjöf og takmarkanir á ferðafrelsi, svo eitthvað sé nefnt. 

Sú atlaga tókst að mörgu leyti en ekki öllu. Glufurnar voru margar svo þeir sem kærðu sig um gátu fundið gagnrýnisraddirnar. Gagnrýnisraddirnar stofnuðu eigin vefrit og jafnvel fjölmiðla, sendu út hlaðvörp, fundu miðla til að birta efnið sitt, birtust undir nýjum nöfnum á samfélagsmiðlum þegar var búið að banna þau gömlu og svona mætti lengi telja. Margir vöknuðu upp við vondan draum. Ef yfirvöld eru að ljúga að okkur um veiru, hvað fleira er þá ósatt líka?

Er mannkynið að hita jörðina? Er búið að flokka þjóðarleiðtoga rétt í hóp góðu og vondu kallanna? Er sagnfræði fréttatímanna rétt og sanngjörn? Er rafmagnsbíllinn umhverfisvænn? Eru plaströr slæm fyrir umhverfið? Á Kósovo-hérað Serbíu að fá að kljúfa sig frá Serbíu á meðan Donbass-hérað Úkraínu má ekki kljúfa sig frá Úkraínu, eða má hvorugt skipta um leiðtoga, eða eiga bæði að mega slíkt ef þau svo kjósa?

Um þetta allt og fleira eru skiptar skoðanir og umræðan er vægast sagt lífleg. Stundum er reynt að grípa til hræðsluáróðurs og uppnefna. Þeir eru til sem vilja útrýma Gyðingum eða vilja ekki bæta Palestínuaröbum við samfélag sitt, þeir sem fordæma allt sem er rússneskt og þeir sem fordæma allt sem er vestrænt, og svona mætti lengi telja. Þessar raddir eru að mætast og það tekst ekki að þagga niður í neinum. 

Sem betur fer. Því annars eru líkur á að lausnir finnist engar.

Margir eru að endurskoða afstöðu sína og skipta um skoðun á ýmsum málum. Nýlegt íslenskt dæmi er viðhorfabreyting margra í málefnum hælisleitenda. Það getur tekið tíma að finna vegvísana út úr ógöngum og átökum en við því er ekkert að segja.

Þegar fjölmiðlar völdu á tækniöld að þagga niður í skoðunum og reyna að móta umræðuna og viðhorf fólks, flytja áróður yfirvalda gagnrýnislaust og uppnefna gagnrýnendur sem samsæriskenningasmiði þá viku þeir sjálfum sér af vellinum. Í staðinn hefur sprottið upp algjörlega nýtt umhverfi þar sem málfrelsið verður ekki hamið. 

Sem betur fer.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *