Undanfarin misseri hef ég séð hugtakinu „stýrð andstaða” bregða fyrir og þá yfirleitt í ásökunartón frekar en að um sé að ræða greiningu á hugtakinu sjálfu.
En hvað felst nákvæmlega í þessu hugtaki?
Samkvæmt skilgreiningu sem ég sá fleygt fram í einni umræðu á samfélagsmiðlum þá einkennir það stýrða andstöðu að tala fyrir hönd ákveðins hóps eða málefnis á meðan raunverulegt markmið viðkomandi er að draga úr trúverðugleika hópsins í heild.
Stýrða andstaðan getur þannig aflað sér trúverðugleika t.d. með að taka undir minna umdeild málefni ákveðins hóps, en jafnframt notað það traust til að snúa fólki innan hópsins gegn þeim sem eru að tala fyrir umdeildari málefnum.
Nú finnst mér þetta persónulega mjög áhugavert og hugsa það sé alls ekki fráleitt að slíkt fólk fyrirfinnist og starfi djúpt í ýmsum hreyfingum. Fyndist eiginlega undarlegt ef svo væri ekki í ljósi kænsku og metnaðar okkar mannfólksins í að ná markmiðum okkar. (Hvað þá pólitískum markmiðum).
Ég sé hins vegar nokkur vandamál við þetta hugtak sem ég sé enga lausn á í fljótu bragði.
Fyrir það fyrsta þá er alltof auðvelt fyrir saklausa manneskju að uppfylla skilyrði stýrðrar andstöðu.
Ég hef t.a.m. sjálfur hugmyndir sem einhverjir myndu telja á jaðrinum. Manneskja sem deilir svo mögulega með mér einni af þessum jaðarskoðunum gæti síðan sjálf verið með aðrar ótengdar jaðarskoðanir sem ég deili ekki með viðkomandi. Í þessu tilviki gæti sú manneskja allt eins ákveðið að sleppa rökræðu við mig um þessar hugmyndir sem við erum ósammála um og sakað mig í staðinn um að vera stýrða andstöðu út frá hugmyndinni sem við erum sammála um.
Það versta er að það er nánast ómögulegt að sanna sakleysi sitt af ásökunum um að vera stýrð andstaða. T.d. þá hef ég persónulega ansi margt að athuga við Covid 19 sprauturnar en á sama tíma þá tel ég jörðina vera hnöttótta í geimnum á sporbaug um sólina. Fólk með kenningar um flata jörð sem deilir með mér áhyggjum af sprautunum gæti talið mig tala fyrir þeim áhyggjum eingöngu til að grafa svo undan skoðunum sama fólks um lögun jarðarinnar.
Nú veit ég að ég er ekki að fá borgað fyrir að telja jörðina hnöttótta, heldur er einfaldlega búið að planta þessum hugmyndum rækilega í kollinn á mér með námi, bókum, kvikmyndum o.s.frv. Vissa mín um hnöttótta jörð er því vissulega að mestu leyti utanaðkomandi og ákveðin af einhverju fólki sem ég þekki ekki. Þannig að ef jörðin væri svo flöt eftir allt saman þá væri ég líklega stýrð andstaða í þessu tilviki án þess að vita af því.
Þetta flækir málin enn meira þar sem maður getur í allflestum tilfellum aldrei útilokað að maður sé sjálfur stýrð andstaða þar sem maður er mögulega ómeðvitaður um það.
Á sama hátt gætu hugmyndir og áherslur þess efnis að jörðin sé flöt allt eins verið til þess fallnar að fá fólk með efasemdir um Covid sprauturnar til að samþykja ranga hugmynd um lögun jarðarinnar. Markmiðið gæti þá verið að grafa undan trúverðugleika þessa fólks þegar kemur að sprautunum. Þannig væri þetta sama fólk í raun sjálft orðið stýrð andstaða þar sem róttækar hugmyndir þeirra um lögun jarðarinnar myndu grafa undan trúverðugleika allra sem deila sömu hugmyndum og þau hvað varðar sprauturnar. Við getum því öll verið stýrðar andstöður að einhverju leyti án þess að vita af því samkvæmt þessari greiningu.
Þá er ekki erfitt að sjá í ljósi þess hve auðvelt það er að bendla saklausa vel meinandi manneskju við stýrða andstöðu og hvernig slíkar ásakanir geta grafið undan hópnum í heild. Þannig geta ásakendur í raun sjálfir byrjað að eyðileggja hópinn og í kjölfarið valdið nákvæmlega sama skaða og þau óttast af hendi stýrðrar andstöðu. Eru ásakendur þá orðnir að stýrðri andstöðu í slíku tilfelli?
Ég hugsa því að þetta hugtak sé illa til þess fallið að ná fram árangri í málefnalegri umræðu og sé oftar en ekki misnotað. Við eigum að geta verið ósammála um ýmislegt þó við séum sammála um ákveðin atriði. Það getur verið óþægilegt að finna skoðanabræður og systur vera ósammála sér um önnur málefni, en þá er best að grípa í rökin og láta ásakanir um stýrða andstöðu bíða betri tíma.
Það kaldhæðnislega við þetta allt saman er að eftir yfirlestur þessarar greinar þá skil ég vel að einhver telji hana málgagn stýrðrar andstöðu. Ég veit ekki hvernig ég get afsannað þann grun enda gæti ég verið stýrð andstaða án þess að vita af því.
Ég tel mikilvægt að enda á því að endurtaka að mér finnst alls ekki fráleitt að hugtakið eigi raunverulega við um einhverja. Ég hugsa hins vegar að til að geta kallað einhvern stýrða andstöðu að þá þurfi að þrengja skilgreininguna ansi mikið ásamt því að krefjast harðra sönnunargagna.
Höfundur er heimspekingur