Þegar lygar bráðna

Yfirvöld eru furðulegt fyrirbæri. Við treystum þeim til að byggja upp og viðhalda innviðum, heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og utanríkisstefnu, svo eitthvað sé nefnt. Við afhentum þeim stóran hluta launa okkar í von um að fá þjónustu í staðinn. 

En þau eru meira en það. Þau eru meira en bara rekstraraðili á grunnstoðum.

Þau passa líka upp á hugsanir okkar. Þau mynda sér skoðun og láta svo alla um að fjármagna framkvæmdir þeim tengdum.

Sú samsæriskenning að yfirvöld stundi engin samsæri er röng. Þau stunda mörg samsæri, oft í samvinnu við ýmis alþjóða- og hagsmunasamtök. Okkur er sagt frá sumum þessara samsæra en ekki öllum. Við vitum til dæmis ekki af hverju viðbrögð Vesturlanda á veirutímum voru svona samstillt og hvort það sé verið að brugga einhver launráð fyrir næsta heimatilbúna vandamál. 

Þegar hið opinbera leggur lóð sín á vogarskálar ákveðinna skoðana er voðinn vís. Þá tekur við ritskoðun, her fræðimanna og prófessora fer af stað af sjálfsdáðum til að verja boðskap yfirvalda, gagnrýni er uppnefnd og einstaklingar jafnvel færðir úr starfi og verða án lífsviðurværis. Þetta er ójafn leikur og um leið leikur sem yfirvöld ættu hreinlega alls ekki að vera þátttakendur í. Sömu sögu mætti segja um samfélagsmiðla, miðla sem í dag eru miklu frekar að reyna móta samfélagið en að stuðla að miðlun skoðana og upplýsinga innan þess.

Okkur er sagt að vísindamenn séu allir sammála um áhrif mannanna á loftslagið, virkni bóluefna og umhverfisáhrif sorpflokkunar. Okkur er sagt hverjir eru vondu og góðu kallarnir í stjórnmálum útlanda. Okkur er gert erfitt fyrir að eignast hagkvæma bíla og við sannfærð um að það sé jákvætt. 

En það sem er ósatt getur ekki lifað af til lengri tíma. Öll svokölluð vísindi veirutíma hafa nú verið afhjúpuð sem gagnslaus þvæla. Að við séum að breyta loftslaginu með losun á koltvísýring í andrúmsloftið er efasemdarmál sem fer að blasa við fleirum og fleirum. Fleiri og fleiri sjá að góðu kallarnir í alþjóðastjórnmálunum eru kannski bara stjórnmálamenn, hvorki betri né verri en aðrir, og jafnvel engu betri en þeir sem kallast vondu kallarnir. 

Þessi vitundarvakning er að eiga sér stað þrátt fyrir samfélagsmiðla og stjórnvöld, en ekki þökk sé þeim. Frjáls tjáning og hugsun er sjóðandi vatn sem hendir að lokum af sér pottlokinu, og bræðir lygarnar. Þar með er ekki sagt að allt sem sagt er sé satt og rétt, en að það fái að heyrast er ómissandi hluti af leitinni að sannleikanum. 

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *