Lok, lok og læs. Það heyrist ekkert.

Alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis var haldinn í gær, 3 maí, en yfirlýstur tilgangur hans er að standa vörð um frjálsa fjölmiðlun og tjáningarfrelsi. 

Í tilefni dagsins birti Blaðamannafélag Íslands nýjustu niðurstöður „World Press Forum Index“, sem er stuðull á vegum Reporters sans frontières (RSF), Blaðamanna án landamæra, sem metur frammistöðu fjölmiðlafrelsis þjóða. Efst á listanum trónir Noregur, en Danmörk og Svíþjóð fylgja fast á eftir. Ísland er hinsvegar ekki að koma vel út úr röðuninni og endaði í 18. sæti. 

Helstu tilgreindar ástæður eru m.a smæð þjóðarinnar sem veikir rekstrarforsendur fjölmiðla og getur ýtt undir spillingu með aðkomu áhrifaríkra pólitískra og efnahagslegra hagsmunaaðila. Þetta hefur vitanlega áhrif á hlutleysi fréttamennskunnar og útskýrir jafnvel einhliða fréttaflutning og skort á sjálfstæðri rannsóknarblaðamennsku í kóvítinu og öðrum stórum deiglumálum.

Í skýrslunni er nefnt sérstaklega að blaðamönnum var um tíma meinaður aðgangur að Grindavík þegar bærinn var skilgreint sem hættusvæði hjá Ríkislögreglustjóra og Almannavörnum. Sú tilskipun frá yfirvaldinu hafi að mati RSF veikt athafnafrelsi blaðamanna til að sinna starfi sínu sem fréttamenn að fjalla um viðburði líðandi stundar. 

Hér erum við komin að suðupunktinum þar sem forsjárhyggja/ábyrgðarhlutverk yfirvalda og tjáningarfrelsi blaðamanna rekast stöðugt á. Tilskipanir og löggjöf yfirvaldsins hefur áhrif á upplýsingaöflun og tjáningar- og athafnafrelsi blaðamannsins, sem þarf að tryggja aðgengi sitt að réttum upplýsingum í þágu almennings. Þetta er greinilega mikilvægt atriði í matsmeðferð „World Press Forum Index“.

En hvað gerist þegar aðgengi almennra borgara að frjálsri, og réttmætri, tjáningu er skert, með þeim afleiðingum að blaðamenn missa af henni fyrir vikið? Stundum eru menn hreinlega lokaðir inni, líkt og Julian Assange sem hefur setið ódæmdur í fangelsi í mörg ár fyrir að fletta ofan af stríðsglæpum Bandaríkjahers. 

Við horfðum upp á það gerast þegar heimsfrægir og áhrifamiklir sérfræðingar í læknavísindum voru þaggaðir í kóvítinu. Þeir fengu ekki aðgang að fréttamiðlum, misstu vinnuna, æruna eða jafnvel læknaréttindi sín. Má þar nefna Dr. Martin Kuldorff, fráfarandi prófessor við Harvard og Íslandsvininn Dr. Aseem Malhotra, hjartalækni, Dr. Robert Malone og Dr. Peter McCullough og fleiri.

En þótt faraldurinn sé yfirstaðinn er þöggunin gagnvart læknum það ekki. 

Nýlegt dæmi um sérfræðing sem er að lenda í alvarlegum þöggunartilburðum, sem fara þvert gegn mannréttindum og tjáningarfrelsi, er læknirinn og prófessorinn Dr. Ghassan Abu Sitta. 

Líkt og íslenskum blaðamönnum var meinaður aðgangur að Grindavík er Dr. Abu Sitta meinaður aðgangur að ráðstefnum þar sem hann átti að halda tölu. Fyrst í Þýskalandi og nú í Frakklandi. Þó er eldgos í hvorugu landi.

Dr. Abu Sitta er ekki hver sem er. Hann er prófessor og var nýlega ráðinn rektor Háskólans í Glasgow, í byrjun apríl á þessu ári og er þekktur á alþjóðavettvangi fyrir framúrskarandi sérþekkingu á lýtaaðgerðum í andliti, þá sérstaklega hjá stríðhrjáðu fólki. 

Hann er búsettur í Bretlandi en er palestínskur að uppruna og hefur starfað á vegum Lækna án landamæra (Medecins sans frontières) á sjúkrahúsum í Miðausturlöndum þegar árásir hafa dunið á borgarbúum. Lengi vel var hann samstarfsmaður norska skurðlæknisins Dr. Mads Gilbert sem kom til Íslands fyrir nokkrum árum og greindi frá sjálfboðastarfi sínu sem læknir á Gaza, sem spannar í dag 16 ára tímabil.

Tilefni tölunnar í Þýskalandi í seinasta mánuði, sem Dr. Abu Sitta var að flytja, var að gera grein fyrir vitnisburði sínum á Gaza en prófessorinn starfaði á al-Shifa sjúkrahúsinu í upphafi stríðsárásar Ísraelshers í október í fyrra. Honum tókst að flýja með naumindum en sjúkrahúsið er í dag gereyðilagt og fjöldagrafir mörguhundruð manna, kvenna og barna hafa fundist á lóðinni eftir að Ísraelsmenn yfirgáfu hertöku spítalans.

Hér má sjá fréttatilkynningu Dr. Abu Sitta þegar Al Ahli sjúkrahúsið varð fyrir sprengjuárás með þeim afleiðingum að hundruðir manna, sem höfðu komið sér fyrir í öruggt skjól á sjúkrahúsalóðinni, létust.

Dr. Abu Sitta hefur veitt viðtöl víða eftir að heim var komið og til stóð að hann yrði heiðursgestur á ráðstefnu í Þýskalandi til að vekja athygli á þjóðarmorðinu á Gaza. Hann var stöðvaður á flugvellinum í Þýskalandi, tekinn í þriggja klukkutíma yfirheyrslu og meinaður aðgangur inn í landið. Ráðstefnan var síðan þögguð í heilu lagi þar sem henni var slitið af hendi lögreglunnar. 

https://apnews.com/article/germany-gaza-doctor-conference-entry-refused-e82252cb9bc5e010e8bfd0689f816e53

Í dag greinir Dr. Abu Sitta frá því á samfélagsmiðlum að hann hafi verið stöðvaður á flugvellinum í Frakklandi með vísan í að hann fengi ekki að ferðast innan Evrópusambandsins í heilt ár samkvæmt úrskurði þýskra yfirvalda. Samkvæmt Dr. Abu Sitta átti hann að halda tölu með frönskum þingmönnum á franska þinginu.

Þessi tegund af þöggun hefur eftirfarandi afleiðingar: 

  1. Vitnisburður Dr. Abu Sittah kemst ekki til skila á áhrifaríkum vettvangi yfirvalda. 
  2. Vitnisburður Dr. Abu Sittah fær ekki efnislega umfjöllun í fréttamiðlum.
  3. Almenning skortir innsýn í aðstæðurnar á Gaza. 

Það er ágætt að Blaðamannafélag Íslands skuli vekja athygli á þörfinni fyrir að standa vörð um tjáningarfrelsi og faglega blaðamennsku en svo virðist sem blaðamannastéttin á Íslandi geri sér ekki grein fyrir þeirri kerfisbundnu þöggun sem þjóðir innan Evrópubandalagsins beita nú eins og raun ber vitni.

Fulltrúi blaðamannafélagsins í Svíþjóð, Journalistiska förbundet, og aðrir fulltrúar fjölmiðlasamtaka þar í landi skrifuðu undir opið bréf sem birt var í gær á einum stærsta fréttamiðlinum í Svíþjóð; DN.se (Dagens Nyheter).

Þar er áhyggjum lýst yfir skerðingum yfirvalda sem geta haft áhrif á athafna- og tjáningarfrelsi blaðamanna. Meðal annars er vitnað í löggjöf sem heimilar lögreglu að slíta viðburðarhaldi ef talið er að það ógni öryggi þjóðarinnar, sbr. að blaðamönnum var meinaður aðgangur að Grindavík.

Getur verið að umrædd löggjöf sé þegar orðin virk í Þýskalandi og því hafi lögregla og yfirvöld þar í landi nú óheft frelsi til að aflýsa eða slíta yfirstandandi viðburðum með vísan í löggjöf, jafnvel þótt viðburðurinn fari friðsamlega fram innan vísindasamfélags sem vill gagnrýna sóttvarnaraðgerðir eða fræðisamfélags sem vill upplýsa um misbresti eða misbeitingu á valdi?

Í báðum tilvikum er útkoman sú að upplýsingarnar ná ekki meginstreyminu og athygli almennings.

2 Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *