Réttrúnaðarkirkjan: Hjálp óskast

Saudi-Arabar hafa um árabil sprengt í loft upp saklausa borgara í Jemen með bandarískum vopnum sem eru fjármögnuð með olíusölu til Vesturlanda.

Við lifum á tímum upplýsinga, vísinda og staðreynda, ekki satt? Fjölmiðlum er haldið á mottunni með ríkisstyrkjum og eftirliti. Fréttatímar segja okkur hvaða lyf eru örugg, hvaða forsetar eru góðir og vondir, hvað gjörðir okkar eru að gera við loftslag og veðurfar Jarðar og hvað mannréttindi í raun snúast um. Hin gömlu trúarbrögð eru orðin að ösku og í staðinn er okkur sagt að fylgja áreiðanlegum upplýsingum háskóla, alþjóðastofnana, lækna, vísindamanna, siðfræðinga, loftslagsfræðinga og jafnvel kynjafræðinga. Það eru hin nýju trúarbrögð.

Gott og vel. Breytingar eiga sér stað og mannkynið er alltaf að læra. Ég verð samt að viðurkenna að ég á í auknum vandræðum með að fylgja viðmiðum hinna nýju trúarbragða. Hverju á ég að trúa í dag? Af hverju er sumt af því sem sagt er kallað upplýsingaóreiða borin fram í falsfréttum? Af hverju er þessi læknir að boða samsæriskenningar en hinn læknirinn að boða hinn raunverulega sannleika, studdan rækilega framkvæmdum vísindarannsóknum? 

Mig vantar hjálp hérna, og skal nefna nokkur dæmi.

Nú er okkur sagt að litlar stelpur og fullorðnir einstaklingar útbúnir loðnum pungum og fullvaxta typpum eigi að geta deilt sturtuaðstöðu saman. Ástæðan er að sögn sú að hugtakið „kona“ er ekki til lengur nema sem sú fullyrðing að skilgreina sig sem konu. Kynfæri skipta ekki máli, og litlar stelpur baða sig fyrir framan fullvaxinn reður ókunnugs einstaklings, og jafnvel skammaðar ef þeim finnst það óþægilegt. Ég á erfitt með að kyngja þessu. Hjálp óskast.

Okkur er sagt að sá hluti koltvísýringslosunar í andrúmsloftið sem mannkynið stendur að baki sé að valda umbyltingu á loftslagi Jarðar og jafnvel hamfarahlýnun. Þessi losun hafi takmörkuð jákvæð áhrif – svo sem á grænkun Jarðar og hlýnun þar sem kuldi er vandamálið – en þeim mun meiri neikvæð áhrif. Í nafni baráttunnar gegn þessari losun manna, frekar en eldfjalla, eru Vesturlönd að róa öllum árum að því að taka bílinn af venjulegu fólki og gera orku dýra og óörugga. Afgangur heimsins ætlar sér hins vegar að auka losun sína margfalt til að lyfta íbúum sínum úr fátækt og orkuskorti. Mér finnst erfitt að skilja af hverju hin vestræna hugmynd er góð hugmynd. Væri ekki nær að aðlagast breytingum frekar en að höggva af sér fæturna og reikna algjörlega með því að engin hætta elti okkur í kjölfarið? Hjálp óskast.

Flokkun á leiðtogum í góða og vonda er einnig nokkuð sem mig vantar hjálp við. Vissulega eru margir góðir og margir vondir. Í Kanada eins þeirra góðu eru fatlaðir, geðsjúkir og aldraðir hvattir til að skrá sig í sjálfsmorð í boði ríkisins, og væntanlega mikill ávinningur í slíku, svo sem í styttingu biðlista í velferðarkerfinu. En er það gott? Víða eru hermenn að ráðast yfir landamæri. Í sumum tilvikum er það talið slæmt en í öðrum ekki endilega, eða að það skipti ekki máli. Við viljum ekki versla við Rússa en bjóðum leiðtogum Sádi-Arabíu uppsett verð þegar þeir vilja selja okkur eitthvað. Áttaviti siðferðis er hér að hringsnúast og erfitt að skilja segulsviðið að baki honum. Hjálp óskast.

Dómstólakerfið í kirkju rétttrúnaðarins er einnig frekar óskýrt. Í Evrópu er það að taka á sig mynd í formi eftirlits Evrópusambandsins með svokallaðri upplýsingaóreiðu, sem meðal annars felur í sér aðgerðir gegn þeim sem fullyrða að hættuleg og banvæn lyf geti leitt til hættu og bana.

Þetta er erfitt. Kristnir mega eiga það að geta stuðst við Biblíuna og þá sérstaklega Nýja testamentið sem verður ekki breytt í innihaldi þótt það megi túlka á ýmsu vegu, eins og stjórnarskrár ríkja. Múslímar eiga sinn Kóran. Pólitíska rétttrúnaðarkirkjan býður ekki upp á neina slíka texta. Fylgjendur þeirra trúarbragða fá á hverjum degi ný vers til að tileinka sér, og sum stangast mögulega á við fyrri vers án þess að úr þeirri flækju sé greitt. 

Hjálp óskast.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *