Öryggi hverra?

Í frétt á visir.is 29. september sl. var sagt frá því að nú væri „Grannt fylgst með Slóvakíu og upplýsingaóreiðu“. Fram kom í fréttinni að „ráðamenn Evrópusambandsins“ hefðu nýlega samþykkt ný lög (Digital Services Act – DSA) „sem sporna eiga gegn upplýsingaóreiðu á samfélagsmiðlum“, en nú muni reyna „almennilega á lögin í fyrsta sinn vegna kosninganna í Slóvakíu en forsvarsmönnum samfélagsmiðla hefur verið sagt að taka betur á upplýsingaóreiðu þar“.

Við lestur þessara fyrstu lína fréttarinnar vakna óþægileg hugrenningatengsl. Sovétríkin voru nefnd Ráðstjórnarríkin, því soviet (ráðið) var grundvallareining í stjórnkerfi Sovétríkjanna. Í slíku stjórnarfyrirkomulagi eru menn ekki kosnir til áhrifa í almennum kosningum heldur handvaldir inn í svonefnda nomenklatúru og þar með inn í hóp embættismanna og flokksgæðinga, en slíkir menn nutu sérréttinda í Sovétinu og höfðu forgang í stöðuveitingar innan flokksins, hjá ríkinu, fyrirtækjum og í menningarlífi. Ef þetta kemur kunnuglega fyrir sjónir lesenda er það mögulega vegna þess að stjórnarhættir ESB þykja líkjast USSR svo mjög að erlendir gárungar nota skammstöfunina EUSSR í háði um þá ólýðræðislegu og miðstýrðu stjórnarhætti sem miða að því að gera valdið fjarlægt borgurunum og koma því fyrir á stjórnarskrifstofum sem lúta ekki lýðræðislegu aðhaldi. 

Í framangreindu samhengi skal hér á það minnt að þegar stjórnvöld þrengja að málfrelsinu þá þjónar það einmitt þeim tilgangi að draga úr lýðræðislegu aðhaldi, því ekkert lýðræði lifir án málfrelsis. 

Í fyrrnefndri frétt Vísis segir m.a. orðrétt:

„DSA nær yfir nítján samfélagsmiðla og vefsvæði. Þar á við samfélagsmiðla Meta, X og TikTok, leitarvél Google, Wikipedia og verslunarsíður eins og Alibaba, Aliexpress og Amazon. Google Maps er einnig á lista ESB, samkvæmt frétt DW frá því í síðasta mánuði, þegar lögin tóku gildi.

Lögin eiga að tryggja að forsvarsmenn þessara fyrirtækja beiti sér gegn upplýsingaóreiðu og lygum á samfélagsmiðlum og vefsvæðum. Þeim er einnig ætlað að auka gagnsæi varðandi auglýsingar. Brjóti fyrirtækin reglurnar geta þau verið sektuð um allt sex prósent af veltu sinni á heimsvísu. Séu brotin ítrekuð gæti þeim verið bannað að starfa í Evrópu.“

Skuggahliðin, sem glöggir lesendur koma strax auga á er að með þessu er í raun verið að veita embættismönnum ESB ógnarvald til að ritskoða og eyða því sem ólýðræðislegir ráðamenn skrifstofuveldis ESB vilja stimpla sem „upplýsingaóreiðu“. Er í frétt Vísis meðal annars nefnt að einhver hafi haldið því fram að þingframbjóðandi hafi dáið vegna bóluefnis gegn Covid og að það sé upplýsingaóreiða sem þurfi að taka á. Þó vita allir að yfirvöld stunda stórkostlega þöggun á öllum skuggahliðum þessara tilteknu bóluefna, og nú skal bætt í.

Hér er háski á ferð, því með lögum þessum er verið að afhenda „sovéti“ nútímans skilgreiningarvaldið um það hvað má segja. Þar með er aftur verið að gera hið ólýðræðislega og handvalda „ráð“ að grundvallareiningu stjórnkerfisins, þvert gegn öllu því sem sagan ætti að hafa kennt okkur um kosti málfrelsis umfram ritskoðun og að lýðræði sé skárra en ráðstjórn.

Þótt efni áðurnefndra lagareglna kunni við fyrstu sýn að teljast sakleysislegt og ópólitískt verður það ekki svo í framkvæmd, þar sem hið vestræna „sovét“ mun, eins og fyrr í sögunni, beita valdheimildum sínum til að þagga niður í sjónarmiðum sem ósamrýmanleg eru málflutningi stjórnvalda og hinni opinberu stefnu. Vert er einnig að vekja sérstaka athygli á því hvernig valdinu er beitt gegn þeim sem hafa mikla áheyrn. Þetta er aðferð hins „mildilega ráðríkis“ sem við búum nú við í sífellt auknum mæli. Hér er birtingarmyndin sú að mönnum leyfist að andæfa, svo lengi sem aðeins örfáir heyra andmælin og gagnrýnina! Lítill vefur eins og Krossgötur verður því mögulega látinn óáreittur þar til lesendum hefur fjölgað svo mjög að óþægilegt megi teljast fyrir stjórnvöld, en þá mun viðeigandi ráð væntanlega finna viðeigandi aðferðir til að loka vefnum eða leggja á hann óbærilegar sektir.  Ef ekkert verður að gert til að stöðva þessa þróun munum við sigla hraðbyri inn í stjórnarfyrirkomulag þar sem pólitísk hugmyndafræði er gerð að átrúnaði; þar sem kennimenn stefnunnar verða að veraldlegum klerkum sem ekki má gagnrýna; þar sem táknmyndir kreddunnar verða tilbeðnar í fjölmiðlum og á torgum; og þar sem almenningur skal í orðum og gjörðum sýna að hann sé sanntrúaður og beri engar efasemdir í brjósti. Þannig munu okkar miklu leiðtogar ná að leiða okkur að strönd fyrirmyndarríkisins (útópíunnar) þar sem allri upplýsingaóreiðu hefur verið útrýmt og fólk getur í fullkomnum fyrirsjáanleika farið út á torg himneskra fjölmiðla og samfélagsmiðla, þar sem stjórnvöld hafa tryggt að öryggi svífi yfir öllum vötnum. Eini gallinn verður sá þessi himneski friður og þetta himneska öryggi mun ekki þjóna almennum borgurum, heldur aðeins valdhöfunum sjálfum.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *