Treystu mér, ég er læknir

Læknastéttin er sennilega með dáðustu stéttum sem um getur og er það ekkert skrýtið. Læknar bjarga lífum, lækna mein og hlúa að sjúkum. Sá sem leggur á sig langt og erfitt námið gerir það af umhyggju fyrir heilsu náungans og almennri velferð manna. Læknar verðskulda að njóta mikillar virðingar þótt enginn sé vitaskuld hafinn yfir gagnrýni.

En sitthvað fleira taka sumir þessara frábæru lækna sér fyrir hendur. Fyrir ekki löngu síðan stofnaði hópur þeirra “Félag lækna gegn umhverfisvá” eins og fjallað hefur verið um á þessum vettvangi. Frá því félagi hefur ekkert komið nema heimsendaraus í anda sænskrar unglingsstúlku og búið að ganga langt í að sverta hið góða mannorð sem læknar búa venjulega við.

Núna á að bæta í. Hópur lækna undir forystu Læknafélags Íslands ætlar á ferðalag um landið til að kvarta undan gagnrýni á störf sín á tímum heimsfaraldurs og vitaskuld ræða upplýsingaóreiðu. Þessi var góður! Er í undirbúningi að stofna “Félag lækna gegn gagnrýni á störf sín”? Mögulega. Nema það sé “Félag lækna gegn upplýsingaóreiðu”, en það er hæpið því á tímum heimsfaraldurs stóðu margir læknar einmitt í slíkri óreiðu eins og er í dag rækilega skjalfest.

Í frétt um þetta mál kemst formaður Læknafélagsins svona að orði:

„Læknar hafa þó ítrekað kallað eftir því að fagleg rödd lækna heyrist víðar og oftar, ekki hvað síst í ljósi fyrrnefndrar upplýsingaóreiðu og misvísandi umræðu. Ákallið kemur einnig frá fólkinu í landinu.“

Ekki er mjög vel skjalfest hvar fólk er almennt að kalla eftir því að læknar geri annað en að lækna, og þá helst að gera svolítið meira af því en þeir gera í dag. 

Formaðurinn hefur miklar áhyggjur af ofbeldi gegn læknum en hefur enn sem komið er ekki fordæmt brottrekstur læknis frá Harvard-háskóla fyrir að hafa neitað lyfjagjöf sem var í hans tilviki með öllu óþörf, og hann sagði það upphátt. Má beita suma lækna ofbeldi en ekki aðra?

En gott og vel, læknar mega alveg tjá sig um umhverfisvá, ofbeldi og upplýsingaóreiðu eins og aðrir. Þeir þurfa hins vegar ekki að búast við að sú mikla virðing sem læknar njóta, þegar þeir raunverulega lækna, heimfærist sjálfkrafa á aðra lækna þegar þeir byrja að tala eins og fréttatímar RÚV, ólæsir sóttvarnalæknar og sænskar unglingsstúlkur.

1 Comment

  1. Merkilegt að þessi ,,virtu” læknasamtök þegja þunnu hljóði vegna skaðsemi hormóna og krosshormónalyfjagjafa barna. Lækna hafa ekki svarað kalli fólksins um upplýsingar um skaðsemi þessara lyfjaflokka. „Læknar hafa þó ítrekað kallað eftir því að fagleg rödd lækna heyrist víðar og oftar, ekki hvað síst í ljósi fyrrnefndrar upplýsingaóreiðu og misvísandi umræðu. Ákallið kemur einnig frá fólkinu í landinu.“ Ætli læknar að láta taka mark á sér fer það ekki í vinsældarleiki bergmálshellana heldur ræða málin út frá staðreyndum s.s aukaverkanir lyfja sem skemma heilbrigðan líkama.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *