Viðtal við Mattias Desmet

Á ráðstefnunni Segjum frá sem haldin var í byrjun apríl talaði meðal annars belgíski sálfræðingurinn Mattias Desmet. Meðan Desmet var hér á landi tók Arnar Þór Jónsson stjórnarmaður í Málfrelsi við hann viðtal sem birtist nú hér.

Desmet vakti athygli í heimalandi sínu, Belgíu, snemma á árinu 2020 þegar hann birti grein undir yfirskriftinni “Óttinn við kórónuveiruna er hættulegri en veiran sjálf”, en þar greindi hann forsendur þess ótta sem spratt fram og heltók meira og minna allan heiminn, og var, eins og Desmet segir ástæðulaus; þá þegar lá ljóst fyrir hversu stórlega ýktar þær tölur voru um hættuna af veirunni, sem endurómuðu í fjölmiðlum og orðum stjórnmálamanna. Þetta vissi Desmet þá strax, enda er hann einnig menntaður í tölfræði og var fljótur að leggja hlutlægt mat á stöðuna út frá þeim staðreyndum sem lágu fyrir.

En tölurnar skiptu engu máli, eins og Desmet komst fljótlega að, og því sneri hann sér að því að beita aðferðum sálfræðinnar til að greina hvað raunverulega var að eiga sér stað. Niðurstaða hans var að óttinn grundvallaðist á fjöldadáleiðslu, ástandi sem franski félagsfræðingurinn Gustave le Bon skilgreindi seint á 19. öld og fjallaði um í frægu riti sínu La Psychologie des Foules, þar sem hann lýsir þessu fyrirbæri og vísar til þess hvernig það birtist aftur og aftur á tímum frönsku byltingarinnar. Forsenda þessa nú, segir Desmet, er sú félagslega einangrun og tilfinning fyrir tilgangsleysi tilverunnar sem náð hefur að skjóta rótum í hinum iðnvædda heimi nútímans, ekki síst fyrir tilstuðlan stafrænna samskipta og samfélagsmiðla.

Grípum niður í grein Desmets:

Hér er tilgáta mín: Þessi kreppa er fyrst og fremst sálræn kreppa – dulinn ótti sem þegar er til staðar í samfélaginu er að brjótast fram. Kvíði stafar í upphafi aðeins að mjög litlu leyti af raunverulegum vandamálum … en hann réttlætir sig með því að skapa raunveruleg vandamál. Við skynjum nú þegar þessi vandamál: á pólitískum vettvangi, uppgangi einræðisríkisins, á efnahagslegum vettvangi, í samdrætti og gjaldþroti óteljandi fyrirtækja og sjálfstætt starfandi einstaklinga, á félagslegum vettvangi, í varanlegu niðurbroti félagslegra tengsla milli fólks, sem veldur enn meiri kvíða og þunglyndi, og já… líkamlega, í kjölfar andlegrar og félagslegrar streitu, hruns ónæmiskerfisins og hrakandi líkamlegrar heilsu.

Hann heldur áfram:

Við verðum að líta á óttann nú sem vandamál í sjálfu sér, vandamál sem ekki er hægt að smætta niður í „staðreyndir“ um „veiru“ en sem á sér orsök á allt öðru stigi, á sálfræðilegu stigi, og sem snýr á endanum að hinni Stóru Frásögn samfélags okkar. Hin Stóra Frásögn samfélags okkar er frásögn vélhyggjunnar, frásögn þar sem maðurinn er smættaður niður hreina líffræðilega tilvist. Frásögn sem hunsar algerlega sálræna og táknræna vídd manneskjunnar. Þessi sýn á manninn er kjarni vandans. Öll viðbrögð við faraldri sem eiga sér rót í þessari sýn á manninn munu aðeins gera illt verra. Eða eins og Einstein orðaði það: Þú getur ekki leyst vandamál með því að beita sama hugsunarhættinum og skapaði það.

Ég fjallaði um greiningu Desmets í ræðu sem ég hélt á útifundi samtakanna Frelsi og ábyrgð í árslok 2021 og sagði þá meðal annars:

Í samfélagi þar sem tilgangsleysi, einangrun og kvíði ríkja getur tilkoma nýrrar ógnar hrundið af stað sjálfsprottinni sefjun. Kvíðinn fær skyndilega viðfang – veiruna hræðilegu, einangrunin er rofin; við erum öll í þessu saman, lífið öðlast tilgang; að vinna sigur á ógninni. Ummerkin sjáum við allt í kringum okkur: Öllu sem ýtir undir óttann er tekið opnum örmum. Staðreyndir, röksemdir og gögn hætta að skipta máli. Hin raunverulega ógn hættir að skipta máli (engu skiptir þótt dánarhlutfall sé komið langt niður fyrir dánarhlutfall inflúensu, þröskuldurinn færist bara sífellt neðar). Þeir sem efast eru óvinir sem verður að þagga niður í. En þeir sem viðhalda óttanum hljóta goðum líka stöðu í huga hinna dáleiddu. Líkt og Desmet segir verður sefjunin sjálf á endanum sjálfstætt markmið, hluti af sjálfsmyndinni. „Ég er veiran, veiran er ég“ eins og Óttar Guðmundsson geðlæknir lýsti þessu sálarástandi í viðtali á sínum tíma.

Og siðferðilegu afleiðingarnar eru grafalvarlegar. Sá dáleiddi sér ekkert nema viðfang óttans. „Dóttir mín spurði, dey ég ef ég fer út?“ sagði ung kona sem var fangelsuð í sóttkví í tæpan mánuð í viðtali við RÚV í haust. „Það deyja fimm manns á dag í Danmörku“ sagði maður um daginn í athugasemd í umræðuþræði, og var að svara ábendingu um að Danir væru að komast út úr krísunni. Í raun og veru deyja 150 manns í Danmörku á dag. En hinir 145 sem ekki deyja úr kórónaveirunni skipta hins vegar engu máli í huga þess dáleidda. Milljónirnar sem deyja úr hungri vegna lokana og hindrana um heim allan skipta engu máli. Ekkert skiptir máli annað en þessi eina veira og að viðhalda og næra óttann við hana. Það er með vissum hætti mótsagnakennt hvernig öll samkennd, samúð og tillitssemi gagnvart öðrum hverfur um leið og samstaðan og sjálfsfórnarviljinn í baráttunni við óvininn styrkist.“

Bók Desmets, The Psychology of Totalitarianism er mikilvægt grundvallarrit þegar að því kemur að skýra orsakir sálsýkinnar sem greip um sig árið 2020. Þar rekur hann fræðilegar forsendur kenningar sinnar og fjallar um mögulegar leiðir út úr þessum djúpstæða vanda nútíma samfélaga.

Desmet hefur orðið fyrir hörðum árásum vegna greiningar sinnar á ástandinu, meðal annars var honum bannað að nota eigin bók við kennslu við háskólann í Ghent þar sem hann er prófessor, en um það mál var fjallað á Krossgötum í fyrra.

Í viðtalinu ræða Arnar og Mattias Desmet um kenningu hans, væntanlega bók hans og þær leiðir sem hann sér til lausnar á þeim djúpstæða vanda sem samfélög nútímans standa frammi fyrir og sem hæglega getur leitt okkur inn í hrylling alræðisins, sé ekkert að gert.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *