Samfélagsrof – Niðurbrot sjálfsmyndar, gilda og hugmyndafræði (fyrri hluti greinaraðar)

Hefur vestrænt samfélag verið sýkt af hugmyndafræði sem ætlað er að valda samfélagsrofi? Og ef svo er, í hvaða tilgangi hefur það verið gert, og af hverjum þá?

Yuri Bezmenov, sovéskur blaðamaður og fyrrverandi meðlimur hinnar illræmdu leyniþjónustu Sovétríkjanna, KGB, flúði frá Sovétríkjunum til Vesturlanda árið 1969.  Í viðtali sem tekið var við Bezmenov lýsti hann ráðagerðum Sovétríkjanna um að tortíma Vesturlöndum, þá ekki með vopnavaldi heldur með því að grafa undan hugmyndafræði vestrænnar menningar (Ideological subversion) í formi tortímandi hugmyndafræði, marxisma, og innrætingu hans.  Æðsta form sigurs í stríði er að leggja óvininn að velli án vopnavalds og best af öllu er að láta óvininn tortíma sér sjálfum (Sun Tzu  – The Art of War).

Hér má sjá tilvísað viðtal við Yuri Bezmenov.

Bezmenov upplýsti okkur um þá aðferðafræði sem beitt er til að kalla fram samfélagsrof, sem er einfaldlega að innræta marxíska hugmyndafræði.  Kenningar Karl Marx ganga út á að samfélagið samanstandi af hópum sem eigi í stöðugri baráttu sín á milli.  Skrif Marx og kenningar fjölluðu, að meginstefnu til, um baráttu hinna vinnandi stétta við auðvaldið, þ.e.a.s. að hinar vinnandi stéttir séu kúgaðar og auðvaldið séu kúgararnir.  Hugmyndafræðin gengur út á stöðug átök þessara hópa, þ.e.a.s. hinna kúguðu og kúgara þeirra, og þá jafnframt að hinir kúguðu verði að beita öllum ráðum, svo sem ofbeldi og að lokum byltingu, til að ná fram jöfnuði.  Hugmyndafræðina sjálfa er þó hægt að heimfæra í víðari skilningi ef aðeins er hægt að skilgreina og aðgreina hópa, þ.e.a.s. kúgara annars vegar og hins vegar þá kúguðu/jaðarsettu/fórnarlömb.

Engir þekktu betur til tortímingarmátts hugmyndafræði Karl Marx en meðlimir KGB.  Rússland sjálft var fórnarlamb hugmyndafræðilegs hernaðar, þegar Lenin var sérstaklega sendur þangað, með hugmyndafræði Karl Marx í farteskinu til að koma af stað byltingu.  Aðeins tvennt þarf til svo að hugmyndafræði Karl Marx leiði til samfélagsrofs og byltingar, annars vegar að viðkomandi samfélag sé móttækilegt fyrir hugmyndafræðinni og hins vegar að hugmyndafræðinni sjálfri sé ekki veitt fullnægjandi viðnám.  Ef viðnám er ekki til staðar þá nær hugmyndafræðin fótfestu eins og krabbamein, vex og dreifir sér þar til samfélagið lognast út af í fyrri mynd.  Marxismi er því í raun hugmyndafræðilegt samfélagskrabbamein, sem hægt er að beita sem vopni.  Eftir að þessu hugmyndafræðilega krabbameini hefur verið plantað þá vex það af sjálfu sér (að mestu) og fær sjálfstætt líf, og þarf þá aðeins minniháttar stuðning til að leiða til endaloka fyrri samfélagsgerðar.  Þeim einstaklingum sem innrættir hafa verið hugmyndafræðin, eru varanlega heilaþvegnir og forritaðir til að bregðast við skilaboðum (triggers) með ákveðnum hætti og þá eru einkennin að viðkomandi tekur engum rökum né augljósum staðreyndum. Þetta kallar þá t.d. á aðvaranir (trigger warning) til að reyna að setja ekki þessi innrættu tilfinningalegu viðbrögð af stað, af minnsta tilefni.  Jafnframt eru einkennin að viðkomandi er nánast ófær um að taka þátt í rökræðum og missir stjórn á sér ef honum er andmælt.

KGB leit á hugmyndafræðina sem vopn og var vopnið þróað og fullkomnað þar á bæ.  Samkvæmt aðferðafræðinni eru fjögur stig sem þarf að fara í gegnum til að koma á samfélagsrofi og umbyltingu:

Fyrsta stig:       Demoralization – Niðurbrot sjálfsmyndar, gilda og hugmyndafræði, sem tekur 15 til 20 ár.

Annað stig:       Destabilisation – Félagslegur og efnahagslegur óstöðugleiki, sem tekur 2 til 5 ár.

Þriðja stig:        Crisis – Krísuástand, sem getur tekið allt niður í 6 vikur.

Fjórða stig:       Normalization – Umbylting sem leiðir til varanlegs nýs ástands í samfélaginu.

Vestrænt samfélag er í dag á mörkum endaloka annars stigs og í byrjun þess þriðja, sem sagt með 2. til 3. stigs samfélagskrabbamein, og í raun bara einni góðri krísu frá verulegri samfélagslegri umbreytingu.

Til að átta sig á meininu er nauðsynlegt að skilja hvað fellst í fyrsta og öðru stigi ferilsins, en hin tvö eru nokkuð augljós.

Fyrsta stigið:

Demoralization, gengur út á að brjóta niður límið í samfélaginu, sem er þá helst trúarbrögð og föðurlandsást (þjóðríkið), ásamt því að innleiða hugmyndafræði marxisma, sem leiðir til átaka milli einstakra hópa.  Ekki skiptir máli hvaða hópar það eru sem engt er upp á móti hvorum öðrum, heldur aðeins að unnt sé að etja hópum saman í mótmælum og átök, sem leiða til samfélagsrofs og upplausnar.  Skólakerfið spilar lykilhlutverk í innrætingunni, því ungmenni eru varnarlaus fyrir innrætingu auk þess sem þau taka við stjórn samfélagsins eftir ca. 15 til 20 ár, sbr. tímaramma þessa stig.  Niðurbrot trúarbragða á Vesturlöndum er nánast fullkomið nú þegar en trúarbrögð eru í raun varðsveit gildismats samfélagsins.  Grunngildi kristinnar trúar, svo sem um heilagleika lífsins hefur verið ýtt til hliðar, með því t.d. að leyfa fóstureyðingar allt fram að fæðingu og líknardráp.  Líffræðileg staðreynd um kynin tvö virðist jafnframt vera úr sögunni með tilheyrandi upplausn gildismats.  Kristin trú er í raun á algeru undanhaldi sem hefur þá jafnframt leitt til hratt versnandi geðheilsu og vanlíðan.  Þjóðríkið er einnig nánast að lognast út af, skammarlegt virðist vera að flagga þjóðfánum, og það jafnvel talið móðgandi.  Ein helsta ógnin við þjóðríkið eru stjórnlausir fólksflutningar milli landa auk innri upplausnar.  Helstu viðspyrnur hins hugmyndafræðilega krabbameins hafa því nánast verið lagðar af velli.

Innleiðing róttækrar marxískar hugmyndafræði á Vesturlöndum hefur jafnframt tekist með undraverðum hætti.

Trigger warning – Ef dæmin hér á eftir stuða þig og kalla fram tilfinningar sem þú átt erfitt með að stjórna þá kann innrætingin að hafa náð til þín.

Fyrsta dæmið er hið klassíska um baráttu hinna vinnandi stétta við auðvaldið.  Ný forustusveit verkalýðshreyfingarinnar er í dag að boða hreinan marxisma og í raun byltingu, verkföll o.s.frv. til að rétta af hlut hinna kúguðu vinnandi stétta.  Raunin er þó að til að ná fram bættum kjörum þarf samvinnu vinnuveitenda og launþega, með það að markmiði að auka verðmætasköpun, því annars verður ekkert meira til skiptanna.  Blóðug átök á vinnumarkaði hafa ekki leitt til betri kjara til lengdar, sbr. m.a. fræðileg skrif Thomas Sowell – bókin Basic Economics.

Annað dæmið er um róttækan femínisma sem núna boðar hugmyndafræðina um feðraveldið, sem gengur út á að karlmenn séu kúgarar kvenna.  Því er búið að skipta kynjunum í hópana, kúgara og þá kúguðu, sem er það sama og hreinn marxismi gengur út á.  Afleiðingin eru átök og togsteita milli kynjanna og svo virðist sem samskipti kynjanna séu komin í þó nokkuð uppnám í dag.

Þriðja dæmið eru um kynþáttahyggju (Critical race theory) sem gengur út á að einn kynþáttur, þá helst hvítir karlmenn, hafi kúgað aðra kynþætti og hneppt í þrælahald.  Kynþáttunum er því skipt upp í hópa, kúgara og þá kúguðu, sem leiðir til fyrirsjáanlegra átaka.  Allt samkvæmt bókinni til að ná fram réttlæti, en hefur í raun þveröfug áhrif.  Kynþáttahyggja er þvert á það sem Martin Luther King boðaði um að meta ætti hvern einstakling út frá hæfileikum viðkomandi, þá óháð litarhætti húðar.

Fjórða dæmið er svo um kynjafræðina, sem er nýjasta og sérkennilegasta fyrirbærið.  Samkvæmt þeim fræðum þá er kyn alfarið huglægt ástand og með öllu ótengt hinu líffræðilega kyni viðkomandi.  Það þarf því virkilega að sleppa hendinni af raunveruleikanum ef tileinka á sér þessa hugmyndafræði.  Þessi fræði bjóða þó upp á uppgreiningu í ótal jaðarsettra hópa og kúgaðra einstaklinga, sem þá eru kúgaðir af samfélaginu og beittir meintu órétti með margvíslegum hætti.  Eins og Yuri Bezmenov lýsti hinu hugmyndafræðilega vopni, í framangreindu viðtali, þá virkar það með þeim hætti að raunveruleikaskyni hinna innrættu og almennings er breyt þannig að engin geti komist að skynsamlegum niðurstöðum eða meðtekið augljósar staðreyndir um lífið og tilveruna.  Innleiðing hugmyndafræði kynjafræðinnar er því skýr merki og skólabókardæmi um að samfélagið hafi í raun að fullu lokið 1. stigi samfélagsrofs-ferilsins.  Þeir sem vilja lesa sig til um hversu þversagnakennd kynjafræðin eru, geta gluggað í bókina The Madness of Crowds: Gender, Race and Identity, eftir Douglas Murray.

Barátta hinna vinnandi stétta náði aldrei nægri fótfestu á Vesturlöndum líklega vegna mikillar velmegunar, þ.e.a.s. þeir sem tilheyrðu hinum vinnandi stéttum gátu m.a. með dugnaði og framtakssemi flutt sig milli hópa (Social mobility).  Sá hlutu hinnar marxísku hugmyndafræði sem hefur þó virkilega náð að skjóta rótum á Vesturlöndum er svokölluð sjálfsmyndarpólitík (Identity politics).  Undir þennan flokk fellur m.a. róttækur femínismi, kynþáttahyggjan (Critical race theory) og svo kynjafnfræðin.  Svo rammt kveður að innrætingunni að kynjafræðin er talin vera „fræðigrein“ og er kennd við háskóla.  Það eru sem sagt reknar heilu deildirnar við háskóla á Vesturlöndum, sem gera ekki annað en að innræta hugmyndafræði marxisma beint í móttækilega huga ungmenna, og efna með því til sundrungar samfélagsins.

Hér má sá dæmi um skilgreiningu á sjálfsmyndarpólitík (Identity politics), sem fellur þá beint að grundvallarsjónarmiðum marxisma.

Annað stigið:

Destabilisation er annað stig ferilsins og einkennin eru félagslegur og efnahagslegur óstöðugleiki. Þegar eru skýr og augljós merki um félagslegan og efnahagslegan óstöðugleika á Vesturlöndum. Það má m.a. sjá af stórum og tíðum mótmælum, sem eru þó að „mestu friðsæl“, skv. fjölmiðlum. Jafnframt má benda á aukna tíðni verkfalla og ókyrrðar á vinnumarkaði. Óstöðugleiki er í efnahagsmálum, verðbólga og almenn samfélagshnignun. Heilsuleysi, fólk hættir að sjá tilganginn í að halda sér í góðu formi, þar sem framtíðin virðist ekki björt o.s.frv. Ein alvarlegasta afleiðing niðurbrots sjálfsmyndar (Demoralization) er stóraukin fíkniefnaneysla, þar sem ungmennin verða rótlaus. Slaufunarmenning er mikilvægur þáttur í að brjóta niður alla andstöðu við innleiðingu sjálfsmyndarpólitíkur, og til að koma á og viðhalda óstöðugleika. Með „slaufun“ er unnt að útdeila óformlegri refsingu, sem hlýst af mannorðsmissi, og með því er gagnrýnisröddum haldið í skefjum. Kenningin um hamfarahlýnun er sérstaklega vel til þess fallin að valda efnahagslegum óstöðguleika og virðast aðgerðir gegn meintri hamfarahlýnun beinlínis vera hannaðar til að kollsteypa hagkerfinu. Ljóst má vera að við erum og höfum verið um tíma á tímabili óstöðugleika.

Þriðja stigið:

Krísuástand (Crisis) kemur svo upp af ýmsum ástæðum, hvort sem það leiðir beint af samfélagsrofinu sjálfu sem tekið hefur sér bólfestu, sbr. 1. og 2. stigi ferilsins, eða af utanaðkomandi þáttum.  Það þarf þó ekki að vera beint samhengi milli krísuástandsins og fyrri stiga heldur eru áhrif samfélagsrofsins þau að samfélagið er sundrað og almennt illa í stakk búið til að takast á við alvarlegar krísur.  Afleiðingin getur þá verið kollsteypa og umbreyting í nýtt samfélagsástand.  Krísuástand er vel þekkt verkfæri til að innleiða breytingar og beitt með virkum hætti, sbr. bókina The Shock Doctrine eftir Naomi Klein.

Við höfum nýlega gengið í gegnum alvarlega krísu, þ.e.a.s. Kófið, og eins og þið munið etv. þá var okkur sagt að þetta yrði varanlegt ástand og ekkert yrði eins aftur, sem vísar þá beint til 4. stigsins ferilsins – Normalization.  Kófið fjaraði þó út og nú er unnið að breytingu á regluverki Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, til þess að unnt sé að koma í veg fyrir allan mótþróa í framtíðinni, og svo að læknar séu t.d. ekki að finna upp einhverjar „skottulækningar“ til að lækna sjúklinga sína, eða einhverjir „álhausar“ að benda á skaðsemi þeirra meðala sem beitt er.  Í náinni framtíð verður öllu ríkjum skylt að fylgja fyrirmælum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar til hins ýtrasta og með engum undanbrögðum.  Einnig skal bent á að viðbrögð við Kófinu voru einnig í anda Demoralization, þá með þvinguðum bólusetningum, grímuskyldu og útgöngubanni, sem var beitt til að ná fram niðurlægingu og undirgefni í þágu „heildarinnar“.

Önnur krísan sem okkur hefur verið talin trú um að liggi í „loftinu“ er varðandi meinta hamfarahlýnun.  Mjög áhugavert er að hið nýuppfærða regluverk Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar fellir aðgerðir gegn meintri hamfarahlýnun undir verksvið stofnunarinnar og þá þau mjög svo alræðislegu verkfæri sem hún er að fá í hendur.  Ljóst má þó vera að aðgerðir gegn meintri hamfarahlýnun munu valda efnahagslegri alheimskrísu og jafnvel hungursneyð.  Sama er að segja um aðgerðir gegn meintum heimsfaraldri.  Fyrirsjáanlegar krísur sem geta leitt til endanlegs samfélagsrofs verða því líklega samblanda af hamfarahlýnun og heimsfaraldri en svo er auðvitað ekki unnt að horfa fram hjá mögulegri allsherjarkrísu vegna meiriháttar stríðsátaka, hungursneyðar eða allsherjar fjármálakrísu.  Mestu áhrifin myndu augljóslega nást ef allar þessar krísur myndu skella á samtímis.  Augljóst má vera að heimurinn er að færast í óvissuástand og því eins gott að halda sér bara fast.

Fjórða stigið:

Normalization stigið er svo umbreyting í nýtt og gjörbreytt varanlegt ástand.  Oftast er þessu stigi endanlega náð með byltingu eða innrásar, þar sem mótspyrna er lítil sem engin því hún hefur þegar verið brotin niður innan frá.  Mögulega er þá tekið á móti innrásarliðinu sem frelsurum.  Jafnframt getur verið um hægfara innráðs og yfirtöku að ræða í formi þjóðflutninga, eins og brúkað var af Jósef Stalin á tímum Sovétríkjanna.  Fjórða stigið er nefnt eftir orðum Leonid Brezhnev, en hann lét þau orð falla, eftir að sovéskir skriðdrekar rúlluðu inn í Prag árið 1968, að nú hefði verið komið á „eðlilegu ástandi“.

Gallar marxisma og afleiðingar hugmyndafræðinnar

Ástæðan fyrir því að marxismi hefur heillað svo marga er að hugmyndafræðin býður upp á tálsýn um jafnrétti og réttlæti fyrir alla, sem ná má fram og viðhalda með umbreytingu á samfélaginu.  Þessi tálsýn um jöfnuð og réttlæti er blindandi, í raun dáleiðandi, og í því felst galdur innrætingar hugmyndafræðinnar.  Það undarlega er að hugmyndafræðin hefur ekki síst höfðað til mennta- og fræðimanna, sem eru oft af vel stæðum fjölskyldum komnir, eins og Karl Marx var sjálfur, og sama er að segja um vin hans Friedrich Engels.  Bæði Marx og Engels lifðu bóhem lífi og var að mestu haldið uppi af auðugum fjölskyldum sínum, með fjárframlögum og arfi, á meðan þeir veltu sér sjálfir upp úr óréttlæti heimsins og illsku auðvaldsins.

Vandamálið við hina marxísku hugmyndafræði er að meginstefnu tvíþætt.  Annars vegar er ekki mögulegt að ná fram jafnri útkomu fyrir alla, þar sem einstaklingar eru mjög ólíkir að gerð og hæfileikum.  Jöfnuðurinn felst því ávallt í lægsta samnefnaranum og næst ekki í frjálsu samfélagi.  Það er ekki hægt að jafna með öllu stöðu fólks þannig að allir hafi sömu tækifæri og því síður að unnt sé að neyða fram jafna útkomu fyrir alla.  Hins vegar er vandamálið að hugmyndafræðin er mótsagnakennd, því ekki er hægt að ná fram og viðhalda réttlæti og jöfnuði með átökum og ofbeldi.  Markmiðið er þó að ná fram jöfnuði og réttlæti með umbreytingu, sem felst í að öllum þáttum samfélagsins sé stjórnað af yfirvöldum, samanber þá t.d. „Smart Cities“.  Þegar yfirvöld hafa fengið fullkomna stjórn þá eru mannréttindi þó algerlega horfin og ekkert réttlæti né jöfnuður getur náðst í slíku ástandi.  Einstaklingurinn er jafnframt í raun ekki lengur til í marxísku samfélagi heldur er hann aðeins hluti af heildinni.  Mannréttindi eru einstaklingsbundin og hverfa eins og dögg fyrir sólu þegar farið er að taka meinta almannahagsmuni fram yfir borgaraleg réttindi, „for the greater good“.  Afleiðing hugmyndafræðinnar er þó alltaf sú sama, þ.e.a.s. samfélagsmynstrið rifnar og sundrast, mannréttindi hverfa og lífskör skerðast verulega.  Samfélaginu er þá stjórnað af alræðisöflun, í krafti eftirlits og kúgunar, þá allt þar til kerfið hrynur undan eigin þunga.

Þeir sem vilja kynna sér betur skaðsemi hugmyndafræðinnar bendi ég á greinina „How Cultural Marxism Threatens the United States“.

Í grein þessari hefur verið leitast við að svara spurningunni um hvort vestrænt samfélag hafi verið sýkt af hugmyndafræði sem ætlað er að valda samfélagsrofi.  Ekki verður annað séð en að svarið við því sé afdráttarlaust jákvætt.  Marxísk hugmyndafræði virðist nú vera allt umlykjandi í vestrænu samfélaginu og þá sérstaklega í formi sjálfsmyndarpólitíkur (Identity politics).  Afleiðingin er tilheyrandi niðurbrot sjálfsmyndar, gilda og hugmyndafræði, sem að öllu óbreyttu mun leiða til umbyltingar samfélagsins yfir í gerræði og afnámi borgaralegra réttinda.  Enn hefur þó ekki verið veitt svar við þeirri spurningu, sem einnig var kastað fram í upphafi greinarinnar, þ.e.a.s. í hvaða tilgangi það hefur verið gert og af hverjum þá?  Leitast verður við að svar þeirri spurningu í næsta hluta greinar þessarar: Stóra spurningin – Er virkilega enn í dag kerfisbundið grafið undan vestrænu lýðfræðissamfélagi?

1 Comment

  1. Ari Tryggvason

    Þvílík greining. Því miður tel ég höfund vera óhuggulega nálægt sannleikanum, ef ekki algerlega. Trúlega er það rétt að við séum á milli 2. og 3. stigs (ef ég man rétt úr greininni) og 4. stig, normalization (ný viðmið-nýtt normal) er farið að teigja sig inní samfélag vort. Út frá greininni er þetta vel yfir hundrað ára plan, sennilega langt yfir. Rússnesku byltingunni var þröngvað uppá rússnesku þjóðina sem hafði auðvitað ekkert með rússneskan öreigalýð að gera. Þetta módel, eins og kemur fram hjá höfundi, hefur náð að síast inní vestræn samfélög með rofi áður viðurkenndra “samfélagssáttmála”; nú er allt afstætt, að vissu marki. Börnin geta ekki einu sinni verið örugg um hvernig þau eru sköpuð. Það er það óhuggulegast, að herja á börnin sem verða að hafa skýrar línur. Hafðu mikla þökk fyrir.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *