Málfrelsið á gervihnattaöld

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld og þrátt fyrir lýðræðislega samskiptareiginleika internetsins er málfrelsinu stöðugt ógnað. Nú í lok apríl verða liðin tvö ár frá því að félagið Málfrelsi – Samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi var stofnað af hvatamönnum sem höfðu áhyggjur af skertum mannréttindum í kóvitinu.

Óhætt er að segja að félagið hafi dafnað vel en þörfin fyrir gagnrýnni umræðu um deiglumál, sem sæta ritskoðun eða jafnvel þöggun, er enn mjög mikil. Þetta á við um flesta málaflokka þar sem umræðan á það til að verða einsleit eða áróðurskennd. Alls hafa 162 greinar verið birtar á vefnum Krossgötur, eða að jafnaði þrjár greinar á viku, og í lok sl. árs voru um 240 félagsmenn á skrá.

Þótt kóvitfaraldurinn sé nú að baki fer ennþá fram uppgjör á honum því ekki eru öll kurl komin til grafar. Framundan er spennandi málþing í Reykjavík þar sem kunnuglegar raddir munu heyrast á Reykjavik Natura, fimmtudaginn 4. apríl kl. 18. Þar tala m.a. hinn þekkti breski hjartalæknir Dr. Aseem Malhotra og Dr. Mattias Desmet höfundur The Psychology of Totalitarianism. Málþingið ber yfirskriftina „Segjum frá“ og er haldið á vegum samtakanna Frelsi og Ábyrgð. Nánari upplýsingar og skráning á málþingið má nálgast hér.

Helgi Örn Viggósson, einn stjórnarmanna félagsins Málfrelsi, kemur að skipulagningu viðburðarins og ræddi málin í Bítinu á Bylgjunni í gær. Þá hefur Þorsteinn Siglaugsson, fráfarandi formaður Málfrelsis, skrifað ötult hér á Krossgötum um aðförina gegn Desmet, sem mun koma fram á málþinginu. Má þar nefna „Háskólinn í Ghent bannar bók eigin prófessors“ og „Hin endanlega lausn“. Þá hefur undirrituð; Svala Ásdísardóttir, áður skrifað um Dr Aseem Malhotra í greininni „Læknar þora ekki að tjá sig“ hér á Krossgötum.

Aðalfundur Málfrelsis var haldinn mánudaginn 1. apríl. Hér er birtur stuttur útdráttur á helstu niðurstöðum fundarins en hægt verður að nálgast skýrsluna í heild sinni innan skamms á Krossgötum.

Á fundinum var kjörinn nýr formaður, Svala Magnea Ásdísardóttir, en hún hefur verið í stjórn félagsins frá upphafi. Að fundi loknum skipti stjórn með sér verkum. Auk Svölu skipa eftirtalin nýja stjórn og varastjórn:
Arnar Þór Jónsson, Björn Jónasson, Einar Scheving, Erling Óskar Kristjánsson (gjaldkeri), Guðlaugur Bragason (ritari), Helgi Örn Viggósson, Þorsteinn Siglaugsson (varaformaður), Þórarinn Hjartarson og Þórdís Björk Sigurþórsdóttir. Fundargerðin í heild sinni verður aðgengileg á vef félagsins á næstu dögum, krossgotur.is.


Þökkum við Þorsteini Siglaugssyni fyrir ötult og óeigingjarnt starf í þágu Málfrelsis sl. tvö ár en sem formaður samtakanna hefur hann verið hvatamaður að því að halda málstofur reglulega á síðasta ári og beitt sér fyrir því að opna á umræðu um óhóflega ritskoðun í viðtölum, bæði hérlendis og erlendis, og í skrifum.

Við bjóðum nýja stjórnarmenn og félagsmenn velkomna og hlökkum til viðburðarríks árs framundan.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *