Hver talar fyrir hönd vísindanna? Enginn

Á veirutímum og raunar fyrr hefur stanslaust verið reynt að telja okkur í trú um að einhver tali í raun fyrir hönd vísindanna. Það sem viðkomandi segir eru vísindin. Þeir sem segja annað eru samsæriskenningasmiðir, álhattar, vitleysingar og trommuleikarar að tala út úr rassgatinu á sér.

Mér var nýlega bent á vefsíðu sem telur sig vera að tala fyrir hönd vísinda og eyðir talsverðri orku í að rægja og rakka niður einstaklinga sem tala úr takt við hennar ritstjórnarstefnu. Þetta er ekkert einsdæmi. Vísindin eru ein, og þeir sem andmæla eru á móti vísindum! 

En svona virka vísindi einfaldlega ekki. Augljóst dæmi eru ráðleggingar í mataræði. Okkur er sagt að borða þetta og hitt – mikið af þessu og lítið af hinu. Væntanlega taka fáir mark á opinberum ráðleggingum í þessum efnum. Má þó telja víst að vísindi mataræðis séu elst allra vísinda, eða nálægt því. 

Enginn talar í raun fyrir hönd vísinda. Vísindi eru miklu frekar stanslaus skoðanaskipti. Einstein orðaði þetta ágætlega þegar honum var bent á að 100 vísindamenn væru að andmæla afstæðiskenningu hans: Væri sú kenning röng dygði einn vísindamann til að andmæla henni. Enn þann dag í dag keppast menn við að birta hin og þessi bréf hundruða og þúsunda vísindamanna gegn hinu og þessu. Okkur er sagt að X prósent vísindamanna séu á einhverri skoðun. Einstein hlær í gröfinni yfir þessum talnaleik.

Þú, kæri lesandi, mátt alveg mynda þér skoðun á lyfjum, loftslagsbreytingum og mataræði. Ekki láta neinn telja þér í trú um annað. Það getur vel verið að einhver ein skoðun sé rétt og aðrar rangar en dómarinn sem úrskurðar um slíkt er ekki til. Þú getur valið að láta einhvern dæma í málum, en það er þitt val, og þar við situr.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *