Handhafar sannleikans

Þú, kæri lesandi, ert handhafi sannleikans. Vissir þú það? Í höfði þínu eru upplýsingar, tengingar, skoðanir og tilfinningar sem í sameiningu mynda sannleikann – sannleikann þinn – þá sýn sem þú hefur á heiminn og náunga þína sem stýrir því hvernig þú tekur ákvarðanir, dæmir, velur og hafnar. Sannleikurinn, sem þú ert handhafi að, er í sífelldri endurskoðun eftir því sem reynsla og þekking hleðst á þig, en  er á sérhverju augnabliki er hann eins og hann er – sannleikurinn, hvorki meira né minna.

Ég er líka handhafi sannleikans af nákvæmlega sömu ástæðum. Minn sannleikur er hvorki betri né verri en þinn sannleikur. Minn sannleikur ræður því á sama hátt og þinn hvernig ég hegða mér, hverja ég kýs, hvort ég drekki kaffi eða gos eða hvað mér finnst gaman að horfa á í sjónvarpinu. Hann er að baki vali mínu á álitsgjöfum, afþreyingu og upplýsingaveitum, alveg eins og þinn sannleikur hjá þér.

En þótt sannleikur okkar allra sé í raun það – sannleikurinn sem við sem einstaklingar erum handhafar að – þá er ekki víst að hann sé studdur staðreyndum. Það rýrir þinn sannleika ekki, svo því sé haldið til haga. Sannleikurinn er áfram það sem rekur þig áfram í lífinu, og það er einfaldlega satt og því sannleikur. Að því sögðu þá gæti sannleikur þinn vissulega tekið framförum, ef þú vilt. Segjum sem svo að þú sért með hnetuofnæmi en veist ekki af því og ert sífellt að kljást við bólgur og ónæmisviðbrögð. Fáir þú rétta greiningu á ástandi þínu þá ferðu að forðast hnetur og sannleikur þinn batnar, og lífsgæði þín sömuleiðis.

Svipaða sögu má segja um ýmsa lyfjagjöf. Ef þú kemst að því hvaða áhrif hún mögulega hefur – færð góð gögn um kosti og galla lyfsins, skoðar vitnisburði, rýnir í gögn, sækir í ólík álit – þá bætir þú sannleika þinn og minnkar líkurnar á að lyfjagjöf valdi þér skaða.

Sannleikurinn er ekki ein föst stærð. Hann er ekki staðreynd, eins og sú að tveir plús tveir jafngildi fjórum. Fyrir suma er sannleikurinn sá að kjöt sé hið eina rétta fæði, fyrir aðra að grænkerafæði sé það. Sumir vilja gelda börn ef þau segjast vera í röngum líkama, aðrir ekki, og menn geta svo rætt rökin með og á móti slíku, jafnvel á vettvangi siðfræðinnar sem reynir að flokka sumt sem gott og annað sem illt.

Mismunandi sannleikur okkar fær okkur til að úrskurða á mismunandi hátt hverjir eru góðu kallarnir og hverjir eru þeir vondu á heimssviði átaka, verslunar og menningar. Sumir lepja upp eftir stærri fjölmiðlum, aðrir ekki, og sumir fylgja jafnvel bara einhverri óræðri magatilfinningu. Öll eigum við samt að geta tekið þátt í að móta sannleika hvers annars, í friðsamlegri orðræðu, og án þess að hefja eigin sannleika upp fyrir aðra. Hérna geta djöfladýrkandinn og sá kristni mæst og skipst á skoðunum, og skorað sannleika hins á hólm, jafnvel þótt þeim finnist báðum hinn vera ógeðfelldur, siðferðislega gjaldþrota, einfeldningslegur eða hjátrúarfullur.

Leit okkar að sannleikanum er eilíf og lifandi. Þannig á það líka að vera. Sá sem þetta skrifar býr vissulega yfir ákveðnum sannleika en heldur honum opnum fyrir orðræðunni, nýjum gögnum og nýrri túlkun á staðreyndum. En að ég sé handhafi sannleikans – míns sannleika – er þó rétt, fyrir mig.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *