Myndband – Framtíð fréttamennsku – viðburður í Þjóðminjasafninu 11 janúar

Málþing félagsins Málfrelsi, með yfirskriftinni „Framtíð blaðamennskunnar – stefnumótandi afl eða gagnrýnin upplýsingamiðlun“, var haldið í lestrarsal Þjóðminjasafnsins þann 11. janúar sl. 

Svala Ásdísardóttir, formaður félagsins Málfrelsi og ritstjóri Krossgatna ávarpaði fundinn og fagnaði sigri yfir að komin sé viðurkenning á stórfelldri þöggun sem reið yfir samfélagsmiðla í faraldrinum, sbr. yfirlýsingu Mark Zuckerberg, forstjóra Meta/Facebook.

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, hélt erindi um hvaða þýðingu barátta Assange hefur fyrir blaðamennskuna í heiminum þegar kemur að tjáningarfrelsinu. Hann telur játningu Assange vera áfangasigur þar sem hún batt endi á frelsissviptinguna og 15 ára baráttukafla. 

„Ég sá þetta sem hvarfpunkt og fann það í sumar að margir fögnuðu og fundu að það væri kannski möguleiki að snúa við af þessari ógæfubraut sem kemur að tjáningarfrelsinu og blaðamennskunni og vinna tilbaka það sem hefur tapast.“

Málinu sé þó ekki lokið. Nauðsynlegt sé að dómurinn verði þurrkaður út og að Julian Assange verði náðaður, enda sé dómsniðurstaðan pólitískt fordæmi sem ógni tjáningarfrelsinu og valdi blaðamönnum áhyggjum að endurtakist. Hann sagði það vera óhugnanlegt að hægt sé að „hundelta“ ástralskan ríkisborgara sem birti gögn sín í Evrópu, er varða utanlögsögu Bandaríkjanna.

Þetta er í fyrsta sinn að sögn Kristins sem blaðamaður er dæmdur fyrir það að stunda blaðamennsku, en Assange játaði á sig brot á njósnarlöggjöf til að öðlast frelsi, þrátt fyrir að sú væri ekki raunin. Ýmislegt hefur gengið á í baráttunni að sögn Kristins og hann minntist þess m.a. þegar Ögmundur Jónasson steig inn í málið árið 2011 þegar bandaríska alríkislögreglan, FBI, og fleiri hugðust leggja tálbeitu fyrir Julian Assange á Íslandi og komu til landsins á fölskum forsendum. Hann sagði það vera einstakt pólitískt hugrekki og uppskar lófaklapp áhorfenda í kjölfarið. 

Varðandi viðhorf hans gagnvart hefðbundnum fréttamiðlum segir Kristinn það hafa breyst mikið á þessum árum þegar fréttarisar á borð við New York Times og The Guardian stilltu sér upp gegn Julian Assange og tóku ekki til greina leiðréttingar á fölskum fréttaflutningi. Assange hafi verið afmennskaður í fréttaflutningnum. 

Þá upplifir Kristinn að annar hvarfpunktur átti sér stað í covid-faraldrinum þegar kemur að blaðamennskunni.

„Það fór um mann hversu auðvelt það var að þagga niður, beita beinum og óbeinum aðgerðum, í magnaðri hlýðni við stjórnvöld gagnvart samfélaginu. Undir stjórnarfari sem minnti á herstjórn. Þetta er bara staðreynd málsins. Þegar við lítum til baka þá verðum við að gera þennan tíma upp. Það þarf að gerast af miklum heilindum og opnum hug.“

Annar ræðumaður fundarins var Birgir Guðmundsson, prófessor í stjórnmála- og fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Í erindi Birgis var varpað fram niðurstöðu rannsókna á viðhorfi blaðamanna til fréttamennskunnar á breyttum tímum. Margar ógnir steðji að blaðamennsku almennt, svo sem rekstrargrundvöllur og stafrænt umhverfi. 

„Við erum með nýtt fjölmiðlakerfi í heiminum“ segir Birgir og á þá við um samruna mismunandi samskiptaleiða og upplýsingamiðlun í raunheimum og á stafrænum vettvangi, aðallega samfélagsmiðlum. Þessar tjáskiptaleiðir séu eðlisólíkar en verði að vinna saman. 

Þriðji ræðumaður var Tjörvi Schiöth, sagnfræðingur í doktorsnámi við Háskóla Íslands og fjallaði hann um stríðsáróður í fjölmiðlum, með áherslu á utanríkismál. Þar hefur hann orðið var við ritskoðun og tilraunir til að útiloka gagnrýnisraddir eða óvinsæl sjónarhorn. Þannig sé verið að halda upp meginstraumsnarratívi í fréttaumfjöllunum. Hann vitnaði í fræðimanninn Noam Chomsky sem kallar aðferðina „manufacturing consent“; að skapa samþykki fyrir stefnu stjórnvalda með einhliða fréttaflutningi.

Fundarstjóri málþingsins var Ögmundur Jónasson, fyrrum fréttamaður, sem hélt svo í pallborðsumræður í lok fundar. 

Myndbandsupptöku annaðist Pétur Fjelsted, kvikmyndagerðarmaður.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *