Vita sjálfskipaðir “sérfræðingar” ríkisins ávallt betur en þú?

Varúð, eftirfarandi athugasemdir kunna að hafa að geyma sjónarmið sem stjórnlyndir Íslendingar vilja ekki að heyrist. 

Opinberir talsmenn barnfóstru-ríkisins eru aftur mættir í fjölmiðla til að upplýsa okkur um leyfilega háttsemi. Talsmenn öryggis, sem í kófinu vildu loka okkur inni til að verja okkur fyrir ,,veirunni skæðu”, hafa nú ákveðið að loka Grindvíkinga úti til að verja þá fyrir jarðhræringum. Vandinn er sá að, rétt eins og í kófinu, virðast sérfræðingar ríkisins ekki vita vel hvað þeir eru að gera og ekki hafa skýrari dómgreind en flestir Grindvíkingar sem yfirgáfu heimabyggð sína skömmu eftir að þeir voru fullvissaðir um að það þyrftu þeir ekki að gera, sbr. nánar hér á eftir.

Rétt eins og í kófinu er keyrt áfram með tilskipunum sem bera yfirbragð geðþótta fremur en yfirvegunar. Rétt eins og í kófinu spila fjölmiðlar með og skipa sér í klapplið stjórnvalda í stað þess að spyrja gagnrýnna spurninga, veita aðhald og kalla eftir meðalhófi. 

Af handahófi um meðvirkni fjölmiðla má benda á að visir.is virðist hafa eytt út pínlegri frétt sem birtist 10.11. sl. þar sem Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna, sagði að það væri ,,engin ástæða fyrir Grindvíkinga að fara úr bænum”. Ummælin má sjá í meðfylgjandi skjáskoti og einnig í þessari frétt hér, en upprunalega fréttin virðist hafa verið sett í ,,minnisholu” í anda 1984.  

Fyrir þá sem voru enn í einhverjum vafa um stöðuna 10.11. sl. þá tók Víðir af allan vafa síðar þennan dag og sagði kl. 18.43 að það væri ,,ekkert eldgos að byrja“. Mér er tjáð að fæstir Grindvíkingar hafi tekið mark á þessu og notað sína eigin dómgreind, en þeir sem á fyrri stigum höfðu vanið sig á að ,,hlýða Víði” vöknuðu upp við vondan draum síðar um kvöldið, nánar tiltekið kl. 23.01, þegar neyðarstigi var lýst yfir og gefin út sú yfirlýsing að Grindavík yrði rýmd.

Ef einhverjir aðrir en sérfræðingar ríkisvaldsins hefðu gefið út svona misvísandi yfirlýsingar hefði það verið kennt við ,,upplýsingaóreiðu”. Nú sakna landsmenn þess væntanlega að fjölmiðlanefnd hafi ekki stigið fram til að greina þessa framvindu með gleraugum falsfrétta, upplýsingafölsunar (e. disinformation) og rangra upplýsinga (e. misinformation). En við slíku er þó líklegast ekki að búast, því eins og Winston Smith í 1984 vita starfsmenn Fjölmiðlanefndar það sem meirihluti almennings verður raunar líka að fara að skilja, að talsmenn ríkisins hafa aldrei rangt fyrir sér (!). 

Eru þetta stjórnarhættir sem Íslendingar vilja búa við í hvert sinn sem eitthvað gerist? Erum við að stefna inn í framtíð þar sem dómgreind Víðis Reynissonar og félaga á að yfirtrompa dómgreind hins almenna manns? Á sjálfsábyrgðin sér engan tilvistarrétt lengur? Áður en menn svara þessum spurningum er rétt að menn íhugi að þegar menn afsala sér sjálfsábyrgð í hendur valdhafa fylgir frelsið óhjákvæmilega með. 

Frelsið er of dýru verði keypt til að það sé selt ódýrt eða gefið í blindni.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *