Valið er okkar

Daniel Hannan hefur um margra ára skeið skrifað pistla í Daily Telegraph, Spectator o.fl. þar sem rauði þráðurinn hefur verið einstaklingsfrelsi og sjálfsákvörðunarréttur manna og þjóða. Morgunblaðið birti ítarlegt viðtal Andrésar Magnússonar við Hannan sl. fimmtudag, sem vert er að vekja athygli á. 

Ömurlegar og fáránlegar aðgerðir

Hannan segir í viðtalinu að enn sjáist engin merki um það að Bretar séu reiðubúnir að leggja nýtt mat á viðbrögð stjórnvalda við Covid-19 faraldrinum. Fyrir liggur að harðar aðgerðir stjórnvalda komu að litlu gagni við að hemja faraldurinn en reyndust mjög kostnaðarsamar og taka mun óratíma að vinna upp það tap. Hannan segir atburðarásina hafa verið ömurlega og fáránlega: 

„Barnaleikvellir girtir af, lögregluþjónar að hafa afskipti af fólki á garðbekkjum, drónar að elta uppi stöku göngumann uppi á heiðum. Að ekki sé minnst á aðskilnað frá ástvinum, einmana gamalt fólk, skertan félagsþroska barna og þunglyndi unglinga, eyðilagða menntun heillar kynslóðar, ógreindu krabbameinin og lokun stærsta hluta heilbrigðiskerfisins. Það er skiljanlegt að fólk vilji ekki rifja það upp, sérstaklega þegar það er að koma í ljós að allar þessar hörðu sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafi verið óðagot og litlu breytt. Hún er óbærileg tilhugsunin um að allar þessar fórnir hafi verið til einskis.“

Hannan telur að á meðan menn forðist að horfast í augu við það sem gerðist muni menn ekki draga viðeigandi lærdóm af þessu. Meðan menn neiti að viðurkenna mistök megi reikna með að aðgerðum á borð við útgöngubann verði beitt aftur síðar. 

Samanburður við Svíþjóð

Umframdauðsföll hafi verið „ fæst í Svíþjóð, þar sem sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda fólust ekki í þvingunum, útgöngubanni, vinnustaðalokunum og ámóta. Það var auðvitað mikið um að fólk einangraði sig sjálft af eigin hvötum, en það er allt annað en þegar ríkisvaldið lokar þjóðina meira og minna inni.

Þetta sjáum við vel þegar við berum saman umframdauðsföll í Svíþjóð og Ástralíu. Í Svíþjóð var mikið um kórónuveirusmit en ekkert útgöngubann. Í Ástralíu var hins vegar sáralítið um smit, en strangt útgöngubann. Samt sem áður voru mikil umframdauðsföll þar, en ekki í Svíþjóð, sem býður heim spurningunni um það hvort útgöngubannið hafi drepið fleiri en veiran.“

Milljón dollara spurning

Á þessum stað í viðtalinu spyr Andrés Magnússon lykilspurningar:En er stjórnvöldum einum um að kenna? Ekki gleyma að víðast hvar var það almenningur sem kallaði á síhertar sóttvarnaraðgerðir.“

Hannan svarar: „Já, það var kannski hið dapurlegasta í þessu. Þar sást vel hvað frelsi okkar er í raun óvisst og brothætt. Frelsið varð afgangsstærð.

Ég man eftir því þegar fréttir bárust fyrst um veiruna í Kína 2020, þá hrósaði ég happi yfir að búa í landi þar sem ekki væri hægt að skella á útgöngubanni í heilli borg sisona. Ég hafði vægast sagt á röngu að standa.

Við stóðum sjálfsagt flest í þeirri trú að við byggjum í samfélögum, sem reist væru á rótgrónum og sterkum grundvelli frelsi og mannréttinda, en þegar til kastanna kom risti það allt ekki djúpt. Og ekki ástæða til þess að ætla að það breytist í bráð. Það er vel þekkt að á hættutímum er fólk hneigðara til stjórnlyndis í þágu almannaöryggis og fellir sig við alls kyns tímabundnar takmarkanir. En við þekkjum það líka að eftir seinni heimsstyrjöldina tók það marga áratugi að aflétta öllum þeim hömlum.

Svo ég óttast að næstu árin verði heimurinn ekki hagfelldur unnendum persónufrelsis.“

Þverrandi bjartsýni

Hannan segist ekki vera eins bjartsýnn nú og áður: „[…] ég er hræddur um að 2020 hafi hrist bjartsýnina af mér. Þá sáum við mjög skýrt hvað tryggð við frelsi, mannréttindi og góða stjórnskipan var lítil þegar á reyndi. Margt sem ég hafði haldið að væri bjargfast í okkar opna þjóðfélagi reyndist bara alls ekki vera það.

Mér fannst t.d. augljóst að þeir sem öllu vildu loka, vildu skerða frelsi okkar allra, bæru sönnunarbyrðina. Að ef einhver vill setja þjóðina í stofufangelsi þá þurfi hann að sanna að annað sé bersýnilega og óhjákvæmilega lífshættulegt almenningi. En það var nú eitthvað annað. Sérhver efasemdarödd um þessar harðneskjulegu aðgerðir var kveðin í kútin, vænd um afneitun vísindanna eða verri hvatir.

Þetta var í Bretlandi sem á tyllidögum stærir sig af því að vera vagga borgaralegs frjálslyndis og einstaklingsfrelsis. Ástandið var óvíða skárra. Nema kannski í Svíþjóð og hver hefði trúað því?!

Það er erfitt að vera mjög bjartsýnn á frelsið eftir það. En við vitum að hugmyndin um frelsi, réttarríki og einstaklingsframtak skapaði áður óþekkta auðlegð og hamingju. Sú hugmynd, sú þekking, lifir. Fyrr eða síðar fóstrum við hana á ný.“

Samantekt

Ég skora á lesendur að íhuga vandlega þessi orð Daniel Hannan. Þau fela í sér viðvörun. Þegar litið er yfir hið pólitíska svið, bæði innanlands og á alþjóðasviðinu, má sjá hvernig verið er að þrengja að frelsi manna undir því yfirskini að verið sé að tryggja öryggi okkar og velsæld: Fjölgun eftirlitsmyndavéla, umræða um afnám reiðufjár, ritskoðun á samfélagsmiðlun, skert málfrelsi, framsal löggjafarvalds til yfirþjóðlegra stofnana. Valdboð og skrifræði færist í aukana en frjálslyndi og lýðræði hverfa í skuggann. 

Þessa þróun verður að stöðva áður en stjórnarfarið tekur á sig mynd vægðarleysis og ofríkis. Lærdómur síðustu ára er sá að sú að við getum ekki reitt okkur á stjórnmálastéttina í þeirri varnarbaráttu og ekki á embættismennina heldur. Hvorki innlendar stofnanir né alþjóðlegar munu standa í vegi fyrir eða hægja á þessari öfugþróun. Það eina sem getur orðið til bjargar er samtakamáttur frjálsra manna, þar sem menn sameinast til varnar þeim gildum sem best hafa reynst. Í þeirri baráttu hverfa gamlar flokkspólitískar erjur, þar eignast menn nýja vini, endurnýja gömul kynni og brúa þau bil sem nauðsyn krefur. 

Sá tími er kominn að nauðsynlegt er orðið að frjálshuga menn snúi bökum saman og hrindi af sér doða hinna lífvana gervistjórnmála. Það eru að renna upp nýir tímar, örlagaríkir tímar, þar sem við þurfum að velja milli þess hvort við viljum hafa rödd og eiga hlut í landsstjórninni eða hvort við ætlum að horfa aðgerðalaus á hið frjálsa samfélag umbreytast í skrumskælingu af sjálfu sér, þar sem leikarar leysa stjórnmálamenn af hólmi og þar sem frelsið lifir aðeins að nafninu til. 

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *