Mikilvægur þáttur í stjórnmálum er að veita samfélögum vald með því að gefa þeim tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku. Með því að leyfa almenningi að koma að málum geta hagsmunaaðilar haft áhrif á ákvarðanir sem skipta máli fyrir líf þeirra. Hagsmunaaðilar geta verið einstaklingar, hópar með sérstaka hagsmuni, félagssamtök og aðrir þátttakendur. Þegar þessir aðilar taka virkan þátt í ákvarðanatöku verður þeim erfiðara að sitja hjá eða mótmæla. Þeir sem taka þátt í áhrifaríku ákvarðanatökuferli þurfa að skilja báðar hliðar málefnisins, meta kosti og galla og geta þannig tekið betur upplýstar ákvarðanir.
Í refskák notast einstaklingur eða hópur við lúmskar, útsmognar eða undirförular aðferðir til að ná fram ákveðnum tilgangi eða yfirtaka. Þetta hugtak er oft notað í samhengi við stjórnmál, viðskipti eða félagslegar aðstæður þar sem hinar ýmsu brellur og klækir eru notaðir til að blekkja eða villa um fyrir öðrum. Markmiðið með refskák er yfirleitt að vinna einhvern leik eða átök með því að nota slægðarbrögð frekar en hreina valdbeitingu eða opinskáar aðgerðir.
Refskákin
Með tilstyrk stafrænnar tækni hefur dreifing rangra upplýsinga orðið að sterku valdatæki.
Áróður hefur verið skilgreindur sem tilraunir til að breyta skoðunum fólks til að ýta undir ákveðið markmið og því hefur verið haldið fram að rangar upplýsingar séu form af áróðri. Fólk var útsett fyrir pólitískum áróðri og matað á röngum upplýsingum og orðrómi löngu áður en meirihluti miðlunar færðist yfir í stafrænt umhverfi. Það er útbreiðslan sem hefur vaxið gríðarlega um allan heim á síðustu árum.
Upplýsingaröskun er ástand þar sem sannleikur og staðreyndir mætast í misskilningi og röngum upplýsingum, þar á meðal samsæriskenningum, lygum, áróðri og hálfsannleik. Markmið þessara aðgerða er að skapa félagslega og menningarlega sundrungu, og ástæðan getur verið pólitísk, fjárhagsleg, félagsleg eða sálfræðileg. Þrjú mikilvægustu stig upplýsingaröskunar felast í sköpun, framleiðslu og dreifingu.
Rangar upplýsingar, hvort sem þær birtast sem dulargervi, samsæriskenningar, tilfinningaþrungin framsetning, sundrung, vantraust eða stríðni, skapa bæði ringulreið og sundra samfélögum. Þar sem rangar upplýsingar eru knúnar áfram af löngun til að skaða eða hagnast, fylgja þeim oft aðferðir og verkfæri sem hönnuð eru til að hámarka áhrif. Sálfræðilegir þættir, svo sem tilfinningaleg viðbrögð og hlutdrægni, magna áhrif rangra upplýsinga, sem grafa sig inn í skynjun fólks og hafa djúpstæð áhrif á hegðun þeirra.
Það sem aðgreinir rangar upplýsingar frá misskilningi er ásetningur og þótt misskilningur teljist sannanlega til rangra upplýsinga er honum miðlað án þess að ætla að blekkja og deilt af því að notandi er í villu. Með þetta í huga er ósvikinn misskilningur líklega saklausasta tegund rangra upplýsinga því ásetningur til að skapa og stýra er ekki drifkrafturinn:
Upplýsingaslys eða er ónákvæmt eða villandi efni sem er birt án fjandsemi, þótt afleiðingarnar geti vissulega verið skaðlegar, svo sem þegar einhver dreifir röngum staðreyndum til vina og fjölskyldu í góðri trú.
Upplýsingasvik eða skaðlýsingar eru viðkvæmar en sannar upplýsingar, sviklýsingar, sem eru nýttar með skipulögðum hætti, þá í þeim tilgangi að valda ofsafengnum viðbrögðum.
Upplýsingastjórnun vísar til samstilltra tilrauna innlendra sem erlendra aðila til að hafa áhrif á tiltekin markmið með aðgerðum eða skaðgerðum, sem framkvæmdar eru með blekkingum og er erlend íhlutun í upplýsingaumhverfið oft framkvæmd sem hluti stærri blandaðra aðgerða
Vopnvæðing rangra upplýsinga
Vopnvæðing rangra upplýsinga vísar til þess hvernig rangar eða villandi upplýsingar eru notaðar sem tæki til að hafa áhrif á fólk, samfélög og stjórnmál. Þetta er gert til að ná fram ákveðnum pólitískum, efnahagslegum eða félagslegum markmiðum. Með því að nýta tilfinningaleg viðbrögð, geta rangar upplýsingar mótað skoðanir og hegðun einstaklinga. Þetta er oft gert með aðferðum eins og árásum á fjölmiðla, útbreiðslu samsæriskenninga og samvinnu við fjölmiðla sem eru viljugir til að dreifa rangfærslum. Afleiðingarnar geta verið margvíslegar, allt frá því að veikja lýðræðislega ferla til að skapa ótta og tortryggni í samfélaginu.
Áhrif tilfinninga á skynjun og trú
Tilfinningar hafa djúpstæð áhrif á hvernig við skynjum heiminn og hverju við trúum. Þegar við upplifum sterkar tilfinningar, eins og ótta, gleði, reiði eða sorg, hafa þær tilhneigingu til að móta og lita hvernig við túlkum upplýsingar. Þetta fyrirbæri, oft nefnt tilfinningasía, getur leitt til þess að við tökum ákvarðanir sem byggjast á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum.
Tilfinningar geta einnig aukið minni okkar gagnvart ákveðnum atburðum og upplýsingum, sem gerir okkur líklegri til að muna og endurtaka þær. Þetta gerir tilfinningar að öflugu verkfæri í dreifingu rangra upplýsinga, þar sem þær hjálpa til við að festa þessar upplýsingar í hugum fólks og móta trú þess og viðhorf.
Tilfinningar leika lykilhlutverk í því hvernig við tökum á móti og vinnum úr upplýsingum. Ólíkt almennri trú, þá er mannskepnan ekki að falla fyrir röngum upplýsingum vegna pólitískra hvata, heldur vegna þess að tilfinningar ræna hana rökhugsun. Þetta bendir til þess að hægt sé að draga úr áhrifum rangra upplýsinga með því að minnka tilfinningaleg áhrif fréttaneyslu en, því meira sem fyrirbærið breiðist út, því flóknara og brýnna er að takast á við – ekki bara efnið – heldur jafnframt blekkingarþáttinn og áhrifatæknina
Blekkingin
Ef misskilningur væri þjófnaður, eru falsfréttir fjársvik. Tæknin veitir útbreiðslu upplýsingasvika styrka stoð, af því að aðgengið að almenningi er óþrjótandi og heimilt er að halda fram nánast hverju sem er. Einræðisstjórnir stuðla að rýrnun réttmætis upplýsinga með því að gera fjölmiðla ótrúverðuga, segja að fréttamiðlar séu rangir eða spilltir og þannig eru falsfréttir vopnvæddar. Þegar réttmæti upplýsinga rýrnar grefur undan trausti á getu fjölmiðla til að veita upplýsingar um staðreynd atvik, sem svo leiðir til fjölmiðlahelsis og kann að gefa lýðræðislega kjörnum stjórnmálamönnum færi à að ráðast að fjölmiðlum. Rangupplýsingar (disinformation) eru ekki aðeins styrktar með beinum árásum á fjölmiðla, heldur einnig með samvinnu við ákveðna fjölmiðla.
Þetta þýðir að stjórnmálamenn geta bæði reynt að grafa undan trúverðugleika óháðra fjölmiðla og jafnframt notað fjölmiðla sem eru viljugir til að dreifa rangupplýsingum þeirra. Þannig er rangupplýsingum komið á framfæri bæði með því að veikja traust á áreiðanlegum fréttamiðlum og með því að nota bandamenn innan fjölmiðlastéttarinnar til að dreifa fölskum eða villandi upplýsingum.
Rangar upplýsingar eru tæki sem hægt er að nota til að villa um fyrir og stýra fólki, til að sá tortryggni gagnvart alþjóðlegum viðmiðum, stofnunum og ráðstöfunum lýðræðislega kjörinna stjórnvalda og til að trufla kosningar og vekja efasemdir um mikilvæg mál eins og loftslagsbreytingar.
Af því leiðir að kalla mætti fyrirbærið upplýsingasvik, enda eru rangar eða óljósar hugmyndir einstaklinga vaktar eða styrktar og það gert í ákveðnum og sjálfstæðum tilgangi.
Svikaþáttur upplýsingasvika felst í að undirbúa fólk til að hegða sér á tiltekinn hátt sem þykir hugnast best og er það er gert með því að draga úr getu þess til að skilja valkosti sína.
Nýtingarmöguleikarnir eru í veikleikum og hugrænum annmörkum mannskepnunar en hvorki beinum áhrifum á val einstaklinga eða takmörkun á valkostum hans – enda er hann hvorki sannfærður eða þvingaður.
Endurómunin
Á árunum 2020-2022 sáum við glöggt hvernig fjölmiðlum var einfaldlega skipað að enduróma alls kyns fjarstæður. Blaðamenn voru settir í hlutverk “framlínufólks” og fengu fríðindi fyrir að hugsa aldrei gagnrýnið. Þetta leiddi til þess að upplýsingarnar voru sjaldan skoðaðar ítarlega eða settar í rétt samhengi. Dæmi um þetta má sjá hjá danska blaðinu Berlinske Tidende, sem baðst nýlega afsökunar á því að hafa dreift upplýsingum án nægilegrar gagnrýni. Þessi samvinna fjölmiðla og ákveðinna aðila stuðlaði að því að rangupplýsingar náðu meiri útbreiðslu.
Rangar upplýsingar eru ógn við lýðræðislegar stofnanir. Með því að sá fræjum tortryggni og efasemdum grafa þær undan trausti á alþjóðlegum viðmiðum og stofnunum. Á meðan netmiðlar bjóða upp á óheftan aðgang að upplýsingum, opna þeir einnig dyr fyrir dreifingu rangra upplýsinga og à þeim vígvelli fer baráttan um sannleikann fram.
Innleiðing staðreynda og siðferðis
Innleiðing staðreynda og siðferðis í daglegu lífi og ákvarðanatökuferli er grundvallaratriði fyrir heilbrigt og réttlátt samfélag. Staðreyndir eru grundvöllur upplýstrar umræðu og ákvarðanatöku. Með því að byggja á staðreyndum getum við komið í veg fyrir rangfærslur og misskilning, sem getur leitt til rangra ákvarðana og óréttlátrar meðferðar.
Siðferði, á hinn bóginn, snýst um að greina rétt frá röngu og fylgja þeim gildum og viðmiðum sem stuðla að sanngirni, heiðarleika og velferð samfélagsins. Þegar staðreyndir og siðferði eru sameinuð í ákvörðunartöku, hjálpar það til við að tryggja að ákvarðanir séu ekki aðeins byggðar á réttum upplýsingum heldur einnig á siðferðilegum grunni sem tekur tillit til afleiðinga fyrir alla aðila.
Til að sporna við útbreiðslu rangra upplýsinga er nauðsynlegt að efla gagnrýna hugsun. Rannsóknir sýna að þegar fólk les fréttir með gagnrýnum huga er líklegra að það greini ósamræmi og rangar upplýsingar. Að efla þekkingu er lykillinn að því að verja samfélagið og mikilvægt er að efla þátttöku almennings í ákvarðanatöku og auka gagnrýna hugsun.
Tengsl gagnrýninnar hugsunar og sjálfbærni
Gagnrýnin hugsun er ferli þar sem einstaklingur beitir rökfræði og skynsemi til að meta upplýsingar, greina stöður og taka ákvarðanir. Hún felur í sér:
1. Greiningu – Að sundurgreina upplýsingar í grunnþætti sína.
2. Mat – Að meta gildi og áreiðanleika upplýsinganna.
3. Túlkun – Að skilja samhengi og tilgang upplýsinganna.
4. Ályktun – Að draga rökstuddar niðurstöður byggðar á upplýsingunum.
5. Sjálfsskoðun – Að endurskoða eigin skoðanir og forsendur. gagnrýnnar hugsunar
Sjálfbærni vísar til aðferða og viðhorfa sem stuðla að jafnvægi milli umhverfislegrar, félagslegrar og efnahagslegrar þróunar, þannig að framtíðarkynslóðir geti uppfyllt sínar þarfir án þess að skerða möguleika komandi kynslóða ásamt því að gagnrýnin hugsun hjálpar okkur að skoða og meta rök og mögulegar afleiðingar ákvarðana áður en þær eru teknar. Gagnrýnin hugsun er grundvöllur sjálfbærrar þróunar vegna vegna þess að hún gerir okkur kleift að greina og meta umhverfisáhrif mannlegra athafna, enda þurfa sjálfbærar ákvarðanir að byggjast bæði á traustum gögnum og á rökstuddum ályktunum. Þannig hjálpar gagnrýnin hugsun við að bera kennsl á bestu aðferðirnar til að ná sjálfbærnimiðuðum markmiðum, þar sem hún krefst þess að við íhugum allar hliðar mála og forðumst skammtímalausnir. Til þess að finna nýjar og sjálfbærar lausnir þurfa einstaklingar enn fremur að hugsa út fyrir rammann og beita gagnrýninni hugsun. Það er forsenda fyrir því að hægt sé að beita hugvitinu til að þróa hugmyndir og tæknilausnir sem stuðla að sjálfbærni. Það er líka mikilvægt að það ríki félagslegt og efnahagslegt jafnvægi, en sjálfbærni er ekki einvörðungu tengd lofti, jörð, ösku eða laxi heldur hefur hugtakið einnig félagslegt og efnahagslegt vægi. Gagnrýnin hugsun hjálpar við að greina og meta áhrif stefnu og aðgerða á samfélög og hagkerfi og tryggir þannig sanngjarnar og hagkvæmar lausnir til lengri tíma litið.
Með sameiginlegu átaki getum við bætt upplýsingalandslagið og varið lýðræðislegar stofnanir og almenning. Að draga úr tilfinningalegum áhrifum fréttaflutnings og leggja áherslu á vernd mannréttinda og persónuupplýsinga leiðir til þess að sannleikurinn heldur velli, sem er sjálfbærni.