Áður en ég geri grein fyrir Katli skræk vil ég segja frá forsendum þeirrar tillögu sem ég legg hér fram í eins knöppu máli og kostur er, enda er þetta sunnudagspistill sem á ekki að vera lengri en nemur einum kaffibolla í lestri.
Tillagan byggir á svonefndri dómínókenningu. Hún gengur út á að hið sama gerist í yfirráðapólitík heimsins og í dómínóspili þar sem kubbur fellur á næsta kubb og svo koll af kolli svo lengi sem kubbum hefur verið raðað upp til að falla hver á annan.
Þegar ég var að alast upp á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar hafði dómínóspilið eða öllu heldur dómínókenningin, sem þá var orðin til, heldur drungalegt yfirbragð. Vesturveldin tefldu dómínókenningunni iðulega fram í málafylgju sinni í heimspólitíkinni á þá leið að félli eitt ríki eða eitt svæði undir kommúnisma mætti ætla að senn kæmi að grannríkinu að falla kommúnismanum í skaut. Þá kæmi röðin að þar næsta ríki og svo koll af kolli þar til heimshlutinn allur væri orðinn rauður.
Þetta þótti ráðandi öflum á Vesturlöndum afleitt og varð dómínókenningin að eins konar áminningu um hvað gæti orðið ef þau stæðu ekki sína vakt fyrir hönd kapítalismans gegn kommúnisma.
Sjálft er dómínóspilið hlutlaust og nokk sama um kapítalisma og kommúnisma, enda má útfæra kenninguna til allra átta.
En fyrst nokkur orð um Ketil skræk áður en ég held áfram með þessa kenningu. Hann var kokhrausti smákarlinn í Skugga-Sveini sem þóttist meiri en hann var.
Ríkisstjórn Íslands hefur kosið sér hlutverk hins kokhrausta í heimspólitíkinni. Við erum að vísu vopnlaus þjóð en við leggjum okkar af mörkum, hefur verið viðkvæðið á fundunum þar sem leiðtogar hins vestræna heims koma saman til að faðmast og ræða frekari vígvæðingu.
Skrækur vill eindrægni og hörku, fullan sigur yfir óvininum, hvatti eindregið til stækkunar NATO, Finnar og Svíar ættu að drífa sig í klúbbinn og „rússneski floti þið megið fokka ykkur“ sagði íslenskur ráðherra á fundi í Úkraínu. Alvöru fólk, eða sáuð þið hvernig ég lagði hann?
En svo hitti ég stúlku sem talaði allt annað tungumál, beint frá hjartanu. Við vorum á leið til Brussel í flugvél, ég að fara á fund evrópskra stjórnmálamanna með mannréttindafólki úr röðum Kúrda og síðan á fjöldafund í Köln um sama málefni. „Ég er líka að fara að hitta Kúrda“, sagði stúlkan, sem var sænsk, „hann er kærastinn minn“. Þau hefðu verið saman í nokkur ár „en í haust var okkur stíað í sundur, honum vísað úr landi. Þeir voru fleiri félagar hans sem reknir voru frá Svíþjóð í haust, hann var í raun heppinn, náði að stoppa í Brussel, hinir voru sendir áfram til Tyrklands þar sem þeir eru komnir í fangelsi vegna stuðnings við baráttu Kúrda“. Hvers vegna voru þeir reknir, spurði ég þótt ég vissi svarið. „Hefurðu ekki heyrt að Svíar vilja komast í NATÓ og þetta er liður í því að verða við kröfum Erdogans forseta Tyrklands og þar með NATÓ?“
Ég hugsaði mitt og rýndi í fréttir sem aldrei fyrr. Ég las velþóknunargreinar um að Svíar hefðu „undirbúið NATO-aðildina vel“. Einhvers staðar var það fyrirsögn. Ég las líka að Norðmenn hefðu látið Bandaríkjunum það eftir í fyrsta skipti í sögunni að þeir fengju að setja herstöðvar í Norður-Noregi með eigin lögsögu. Danir hefðu ákveðið að gera hið sama. Í Morgunblaðinu las ég svo yfirlýsingu finnsks „sérfræðings í varnarmálum“ sem varð ekki skilin öðru vísi en sem fögnuður yfir vígvæðingu á norðurslóðum, „þar sem Rússar þurfi nú að huga að vörnum við landamæri sín að Finnlandi“. Þannig leiðir eitt af öðru.
Svo var það Macron Frakklandsforseti, sem orðaði möguleika á að Evrópuþjóðir tækju beinni þátt í stríðsrekstrinum í Úkraínu, og þýsku herforingjarnir sem ræddu hvernig mætti koma Rússum á hnén með frekari eyðileggingu á mannvirkjum. Og vestur í Bandaríkjum Norður-Ameríku talaði forseti um tíkarsoninn í Kreml.
En ef tíkarsonurinn er sá sem honum er lýst, þarf þá ekki að taka alvarlega hótun hans um að svara af fullri hörku ef NATO herðir hríðina?
Óumdeilt er að vaxandi ótta gætir um allan heim vegna stríðsátaka og stríðsæsinga og ekki síst vegna þess að ekki örlar á sjálfstæðri hugsun hjá þorra kosinna fulltrúa á þjóðþingum í okkar hluta heimsins. Sendiboðar hergagnaiðnaðarins ráða orðið algerlega ferðinni, aðrir fljóta með. Öll sjáum við keðjuverkun verða að veruleika. Stríð hér vekur stríð þar. Ég hirði ekki um að tilgreina hverjir halda um gikkinn hverju sinni. Hugur minn er bundinn við það eitt að dómínóspilið hefur verið gangsett og vísustu menn staðhæfa að kveikjuþráðurinn í púðurtunnu heimsins sé orðinn óhugnanlega stuttur.
Og er þá komið að tillögu minni, en hún er sú að dómínóspilinu verði snúið við. Í stað þess að stríð hér verði að stríði þar megi láta það gerast að friður hér verði friður þar.
Hvernig væri að ríkisstjórn Íslands hætti að glamra með vopnaiðnaði og heimsauðvaldi og talaði þess í stað fyrir afvopnun; gerði sitt til að velta dómínókubbi í átt til friðar? Þá gæti það gerst að Ketill skrækur hætti að vera skrækur og fengi rödd sem nyti virðingar, rödd sem hlustað væri á utan góðra-vina-fundanna; rödd sem talaði máli þeirra sem ætlað er að borga og deyja fyrir vaxandi vígvæðingu heimsins.
Greinin birtist fyrst á heimasíðu höfundar.