Málfrelsið og málfrelsið

Algeng leið til að reyna þagga niður í gagnrýni málefnalegra andstæðinga er að kalla einhvern rasista, samsæriskenningasmið, álhatt, Trumpista, lygara, skítadreifara falsfrétta eða eitthvað orð sem kemur umræðuefninu jafnvel lítið við. Um leið styðjum við málfrelsi á meðan enginn er að hrópa eldur í leikhúsi að ósekju. En málfrelsi er ekki bara málfrelsi. Það mætti tala um málfrelsi og Málfrelsi og flokka á gjörólíkan hátt.

Málfrelsi með litlu emmi er raunverulegt umburðarlyndi fyrir tjáningu annarra, hvort sem menn fylgjast með henni eða ekki. Menn geta verið ósammála eða ekki, sannað með óyggjandi hætti að einhver sé að ljúga eða hlaðinn fordómum og hatri og þar fram eftir götunum. En við viljum ekki þvinga með valdi neinn til að þegja og hvað þá svipta frelsinu fyrir að tjá sig. Sumir telja jafnvel að málefnalegt aðhald sé ekki mögulegt nema tjáning sé algjörlega frjáls – að öðrum kosti myndast bara bergmálshellar sem fá enga viðspyrnu.

Málfrelsið með stóru emmi er af allt öðrum toga. Vissulega er tjáning frjáls og óhefluð og talin hornsteinn lýðræðis og mannréttinda en bara á meðan hún brýtur ekki lög um hatursorðræðu, meiðyrði og því að segja ósatt, megi ekki flokka sem upplýsingaóreiðu eða rang-, mein- og misupplýsingar, sé ekki í trássi við yfirlýst vísindi hins opinbera (til aðgreiningar frá raunverulegum vísindum), valdi engum uppnámi og sér í lagi ekki ákveðnum hópum hörundsárra einstaklinga, sé ekki byggð á gamaldags tungutaki eins og að það séu ennþá til hjúkrunarkonur sem titla sig ekki sem fræðinga, og auðvitað verður tjáningin að falla að síbreytilegum svokölluðum notendaskilmálum samfélagsmiðlanna.

Þeir sem tala fyrir málfrelsi og þeir sem tala fyrir Málfrelsi eru hjartanlega sammála um öll grundvallaratriði tjáningarfrelsis, að ritskoðun sé slæm, að lýðræðið sé í húfi og að öll tjáning eigi rétt á sér. Þegar kemur að framkvæmdinni blasir samt við stærra ósamræmi. Þeir sem styðja málfrelsi þola alveg að einhver segi að kynin séu nokkur hundruð án þess að geta tekið undir það. Þeir sem styðja Málfrelsi þola ekki að einhver segi að kynin séu bara tvö. Þeir sem styðja málfrelsi geta, ef þeir vilja, hlustað á gagnrýni á bæði herská ríki sem fletja út íbúðahverfi og stökkva almennum borgurum á flótta og hryðjuverkasamtök sem drepa óvopnuð ungmenni. Þeir sem aðhyllast Málfrelsi hafa valið sér aðra hlið málsins og kalla hina ýmist rasíska eða nasíska.

Það er full ástæða til að vera vakandi fyrir því hvort verið sé að boða málfrelsi eða Málfrelsi. Ef menn rugla saman málfrelsi og Málfrelsi þá missa menn af tilraunum yfirvalda og ýmissa stofnana til að koma á Málfrelsi á kostnað málfrelsis. Menn láta góma sig í gildru sjálfsritskoðunar og þróa með sér þörf til að vilja moka óþægilegum skoðunum inn í bergmálshellana.

Leiðarvísirinn er samt frekar einfaldur: Þegar því er haldið fram að allir eigi að vera sammála um eitthvað, þá er eitthvað að. Í frjálsum samfélögum hefur aldrei náðst algjör samstaða um nokkurn skapaðan hlut. Þrýstingurinn á að reyna koma á slíkri samstöðu er Málfrelsið í dulargervi málfrelsis.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *