Til varnar þess óverjanlega

Málfrelsi, til hvers? Til að segja frá vondri veðurspá? Til að lýsa slæmum íþróttaúrslitum? Til að lesa upp úr klámfengnum köflum í vinsælli skáldsögu? Til að úthúða nasistum?

Er málfrelsið það frelsi að enduróma vinsælar skoðanir og þurrar staðreyndir?

Nei, auðvitað ekki. Málfrelsið er frelsið til að lýsa yfir óvinsælum skoðunum til jafns við þær vinsælu, og jafnvel til að fleyta umdeildum samsæriskenningum sem á endanum reynast vera ósannar – eða sannar ef næg gögn fá að líta dagsins ljós. 

Þetta er frekar óumdeilt. Er hægt að ganga lengra?

Hvað með rógburð? Er hann varinn af málfrelsinu? Að ásaka mann og annan um að vera hitt og þetta – glæpamann, nauðgara, þjóf? 

Já, segir Dr. Walter Block í frægri bók sinni Defending the Undefendable og færir hann rök fyrir því að rógburður eigi ekki að vera ólöglegur og endar rökstuðning sinn á eftirfarandi orðum:

Með núverandi lögum sem banna ærumeiðandi ósannindi er náttúruleg tilhneiging til að trúa á hvaða opinbera rógburð sem er um persónu einhvers. „Það væri ekki prentað ef það væri ekki satt,“ segir auðtrúa almenningur til rökstuðnings. Ef ærumeiðingar væri leyfðar og rógburður leyfilegur væri almenningur hins vegar ekki svo auðveldlega blekktur. Árásir myndu koma í svo stríðum straum að þær þyrftu að vera vel rökstuddar áður en þær gætu haft áhrif. Stofnunum … mætti koma á fót til að mæta kröfum almennings um nákvæmar rógburðarupplýsingar.

Almenningur myndi fljótlega læra að melta og meta yfirlýsingar ærumeiðenda og rógburðarmanna – ef honum væri leyft að taka eigin afstöðu. Ærumeiðandi eða rógburðarmaður myndi ekki lengur hafa sjálfkrafa vald til að eyðileggja mannorð einhvers.

Þetta er afstaða sem gengur lengra en stjórnarskrá Íslands sem segir í 73. gr.:

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Sem sagt: Ef tjáningin kom fram og hefur ekki verið véfengd og dæmd dauð og ómerk fyrir dómstólum þá er hún væntanlega sönn, ekki satt?

Á meðan er óhætt að trúa henni, ekki satt?

Þegar Dr. Block skrifaði bók sína árið 1991 (og endurútgaf árið 2018) þá sá hann kannski meira fyrir sér en hann hugði. Það er nánast daglegt brauð að einhver ásökun leiði til þess að menn missi vinnuna, séu hýddir í opinberri umræðu og meinað að stunda starf sitt. Kannski er málfrelsið komið út í horn hérna þegar við treystum öðrum en okkur sjálfum fyrir því að vega og meta hvað er satt og hvað ekki.

Kannski er kominn tími til að leyfa rógburð og mannorðsárásir, afleiðingalaust. Slíkt fellur hvort eð er yfirleitt bara í frjósaman jarðveg ef ásökunin hefur meira að bak við sig en illkvittinn huga. Undantekningar frá þessu finnast vissulega í sögunni, en þá hefur atbeini stjórnvalda eða ráðandi afla ávallt leikið lykilhlutverk.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *