Þegar múgurinn reiðist röngu fólki

Okkur er um þessar mundir sagt frá mótmælabylgju í Bangladesh. Það sem upphaflega voru mótmæli gegn einhvers konar kvótakerfi við úthlutun opinberra starfa hefur nú þróast yfir í allsherjarmótmæli gegn yfirvöldum sem eru kölluð alræðissinnuð og ólýðræðisleg. Lögregla og mótmælendur takast á, oft með banvænum afleiðingum, og enn er ekki búið að tryggja neina farsæla lausn. Blaðamenn hafa sýnt ástandinu nokkra samúð, tekið og birt viðtöl við talsmenn mótmælenda og ekki endilega tekið upp hanska yfirvalda þótt mótmælin hafi kostað mörg mannslíf og leitt til mikils eignatjóns.

Bregðum okkur nú til Bretlands. Þar eru líka mótmæli. Þau beinast ekki beint gegn yfirvöldum heldur innflytjendastefnu þeirra. Það sem hófst sem mótmæli gegn því sem margir kölluðu aðgerðaleysi lögreglu og yfirvalda þegar þrjár ungar stúlkur voru myrtar hefur núna þróast yfir í allsherjarmótmæli gegn því sem mótmælendur myndu kalla stjórnlausan straum innflytjenda með tilheyrandi glæpatíðni og skautun í samfélaginu. 

En hvað gera blaðamenn þá? 

Þeir skrifa mótmælin á æsta öfgahægrimenn. Engin viðtöl. Engin tilraun til að greina orsök og afleiðingar. Nei, skyndilega telja „öfgahægrimenn“ í Bretlandi nú þúsundum og þótt þá skorti bæði húðflúrin og fánana þá eru þeir rasistar sem rugla saman börnum innflytjenda og innflytjendum. 

Hér þarf ekki að velkjast í vafa um ástæður mismunandi efnistaka. Í Bangladesh er bara um þessi venjulegu læti í fjarlægjum ríkjum að ræða. Í Bretlandi er múgurinn að reiðast röngu fólki. Yfirvöldum sem teljast hófstillt og miðjusinnuð og að auki virðingarverð og meginstraums. Blaðamenn hafa því ekkert fyrir því að velta fyrir sér hvernig morð á þremur stúlkum hefur þanist út í reiðan múg sem lætur sér ekki segjast – múgur sem hefur þagað lengi en getur ekki meira. 

Hér er því ekki haldið fram að allir mótmælendur hafi rétt fyrir sér, að mótmæli réttlæti eignaspjöll og jafnvel töpuð mannslíf eða að blaðamenn þurfi að elta uppi öll sjónarhorn. Reiðin er stundum réttmæt, stundum torskilin, stundum byggð á fordómum, og oft erfitt að greina á milli.

Nei, það sem ég er að benda á eru efnistök blaðamanna. Þeir stunda ekki alltaf beina þöggun. Stundum þegja þeir bara sjálfir. Þeir veita ekki neitt samhengi og þess í stað skulu mótmælendurnir stimplaðir sem öfgamenn sem eru reiðir röngu fólki. Þess vegna er reiðin í Bangladesh réttmæt, en sú í Bretlandi sprottin upp úr höfði öfgamanna, ef marka má fréttir.

Menn geta haft sínar skoðanir á miklu innstreymi innflytjenda eða stjórnarfarinu í Bangladesh en flestir sjá vonandi að blaðamenn þurfa að minnsta kosti að reyna að veita ákveðið samhengi. Of oft er gripið til þeirrar einföldunar að skella skuldinni á „öfgamenn“ þótt það blasi við öllum að á götum eru venjulegir einstaklingar í borgaralegum klæðum að fá útrás fyrir það sem þeir telja vera aftenging samfélags og stjórnmála. Í bæði Bretlandi og Bangladesh, en ekki bara því síðarnefnda. 

Samhengi, takk. Síðan má ræða rétt og rangt.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *