Í opinni og lýðræðislegri umræðu má búast við því að skoðanir séu skiptar. Oft eru málin flókin og á þeim margar hliðar og ekki alveg á hreinu að eitt hafi valdið öðru en miklu frekar að röð atburða yfir lengri tíma hafi þrýst á einhverja þróun mála.
Þar með er ekki sagt að það sé útilokað að ein skoðun sé með algjörri vissu réttari en önnur sem er greinilega byggð á sandi. En fæst mál má einfalda með slíkum hætti.
Tilhneiging okkar er samt sú að sjóða saman svarthvíta heimsmynd. Það gerði utanríkisráðherra Íslands í nýlegum pistli, og má hafa fyrir því samúð enda stjórnmálamaður að reyna réttlæta embættisverk sín. Þetta gerum við þegar við uppnefnum aðra rasista, Gyðingahatara, heimsvaldssinna, kommúnista og hommahatara. Þetta gerum við úr öruggu umhverfi bergmálshella okkar, og jafnvel nafnleysis. En við þetta er ekkert nýtt þótt tæknin hafi auðveldað ferlið. Tæknin hefur auðveldað okkur að þefa uppi fólk sem samsamar sig skoðunum okkar og klappar með manni, jafnvel þótt fjölmiðlar og stjórnmálamenn séu á öðru máli.
Sem færir þennan pistil að spurningu sinni: Ef fíflunum í kringum þig fjölgar, hvað ertu þá?
Eða svo það sé umorðað: Ef þú ert á einhverri skoðun sem meirihlutinn er ekki á, og finnur fylgismenn við hana, ertu þá ekki fífl að draga að þér fífl?
Þessi aðferðafræði er ekki óalgeng. Hana þarf jafnvel ekki að orða sérstaklega. Flestir finna fyrir þörf til að tileinka sér skoðun meirihlutans og skoðanamyndandi fjölmiðla og yfirvalda. Að hafa aðra skoðun gerir þig að einhverju: Álhatti, samsæriskenningasmið, fífli.
Slíkum álfum þarf ekki að mæta með orðum og rökum þótt það sé vitaskuld í boði. Auðveldara er að segja: Þú ert fífl, og í bergmálshelli fífla. Þarna er fífl sem er þér sammála, og þú jafnvel sammála því að viðkomandi sé fífl, og ert þar með fífl. Fífl að draga að þér fífl, og engin ástæða til að ræða lengur við þig.
Fékkstu þér ekki sprautu? Fífl, eins og hin fíflin.
Ertu ósammála utanríkisstefnu Bandaríkjanna? Fífl.
Ertu sammála henni? Fífl.
Samþykkir þú ekki skattheimtu til að breyta veðrinu? Að pöddur séu góður valkostur við nautakjöt? Að bíllinn þinn sé að tortíma umhverfinu? Að Trump sé þroskaheftur?
Fífl, fífl og aftur fífl, sem lifir meðal fífla.
Við ættum að geta gert betur. Nasisminn var ekki sigraður með uppnefnum, heldur rökum. Vísindin þrífast ekki á einróma áliti heldur gagnrýni og skoðanaskiptum. Lýðræðið dafnar ekki þegar allir eru sammála heldur þegar allir eru að leita að eigin skoðun.
Þegar fíflunum í kringum þig fjölgar, hvað ertu þá?
Þú ert sjálfstæður einstaklingur sem hefur verið svo heppinn að finna aðra sem taka undir eitthvað af því sem þú segir, valfrjálst.
Vertu fífl eins lengi og þú getur þraukað. Umræðan þarf á því að halda.
“Nasisminn var ekki sigraður með uppnefnum, heldur rökum.” Þetta er nýstárlegt sjónarhorn á Seinni heimstyrjöldina en burtséð frá því…
Eins og ég les þennan pistil þá ertu að mæra rökræður en um leið að hvetja lesendur til að fallast ekki á rök viðmælandans. Er ég að lesa þetta vitlaust?
Það væri gaman að heyra af því hvernig það atvikaðist þegar þú fékkst síðast svo góð rök að þú skiptir um skoðun á einhverju grundvallaratriði.
Það er gullkorn í Young Sheldon þegar einhver játar að hafa haft rangt fyrir sér og ráðleggur honum um leið að ef maður hafi rangt fyrir sér sé betra að lúffa. Sheldon svarar að þetta sé gott ráð og hann muni tvímælalaust hafa það í huga þegar að því komi að hann hafi rangt fyrir sér.
“Eins og ég les þennan pistil þá ertu að mæra rökræður en um leið að hvetja lesendur til að fallast ekki á rök viðmælandans.”
Hvernig þú ferð að því að snúa inntaki þessa pistils svona algerlega á hvolf er mér hulin ráðgáta.