Þegar ég var í Sarajevó að gera heimildarmynd árið 2003 fékk ég að upplifa stríðshrjáða borg í fyrsta sinn. Mér leið ekki eins og ég væri í Evrópu þrátt fyrir að vera stödd á landsvæði á milli Grikklands og Ítalíu. Hver einasta bygging í þessari fallegu borg bar vitni um ilskuna sem hafði geisað aðeins 7 árum áður. Byssugöt og sprengjuleifar þöktu alla veggi, þmt. skólabyggingar og elliheimili. Allar samfélagsstoðir vor í lamasessi. Vopnaðir hermenn Sameinuðu þjóðanna gengu enn um göturnar til að halda ólgu og eftirköstum stríðsins niðri. Það vantaði heila kynslóð af fólki. Maður sá helst háaldrað fólk eða mjög ungt fólk.
Eftir þriggja vikna dvöl snerum við heim til Malmö. Ég gleymi ekki ofbirtunni sem ég fékk í augun við að stíga út af lestarstöðinni og inn í hávært margmenni og tívólí. Blikkandi ljós, popptónlist og kandífloss á hverju horni, því það var Malmö festival þetta kvöld. Svona getur fólk búið við misjafnan raunveruleika og haft mismunandi heimssýn.
Ég var enn mjög slegin yfir harmsögum fólks sem hafði sagt mér hvernig vinir þeirra höfðu verið skotnir á færi við hliðina á þeim eða hvernig einkabílstjórinn okkar hafði eitt sinn keyrt eins og hann ætti lífið að leysa undan hríðskotaárás og rétt sloppið. Einn sagði mér frá múslímskum hámenntuðum manni, sem var tilskipaður að jarða þá sem létust jafnóðum í stríðinu. Hann hafði farið gegn fyrirmælum þegar hann fór með bænir yfir þeim látnu áður en hann mokaði yfir líkin. Hann hafi svo verið skotinn í kjölfarið þar sem hann var múslimi og ekki sömu trúar og óvinurinn. Verst fannst mér að skoða með eigin augum „the tunnel of life“-göngin sem voru grafin til þess að geta komist út úr borginni, þar sem vopnaðir menn biðu oft við útganginn.
Ég hugleiddi stríð og trúarbrögð mikið á þessum tíma og átti þá sænskan kærasta, Frederick Batzler, sem starfaði sem friðargæsluliði í Palestínu. Hann bjó þá í bænum Qalqilya en þá var nýbúið að reisa þriggja til fimm metra háan múr í kringum bæinn, eins og risastórt fangelsi með aðeins einni útgönguleið. Hann var í sjálfboðastarfi á vegum friðarsamtakanna ISM, International Solidarity Movement, sömu samtaka og hin bandaríska Rachel Corrie starfaði fyrir þegar ísraelskir hermenn drápu hana viljandi með því að keyra yfir hana með skriðdreka.
Hann skrifaði mér reglulega og sendi mér myndir þegar hann komst til Egyptalands. Stjórnmálamaðurinn Gustav Fridolin var einnig á staðnum. Ég fékk því ákveðna tengingu og innsýn inn í ástandið sem var að eiga sér stað hinum megin við múrinn á þessum tíma, í bæ sem var nánast útilokað fyrir vestræna fréttafjölmiðla að geta nálgast. Þetta var fyrir 20 árum síðan, fyrir tíma samfélagsmiðla. Ég hef síðan þá haft ástæðu til að vera tortryggin gagnvart vestrænum fréttafjölmiðlum sem hafa oft skort nægilega innsýn til að geta greint réttilega frá atburðum frá einangruðum slóðum í herkví. Útkoman verður oftast gerendum í hag, þeirra sem geta stjórnað upplýsingaflæðinu.
Ísraelski herinn hefur í áratugi staðið fyrir grimmu, gegndarlausu og tilefnislausu ofbeldi á palestínsku landsvæði nánast daglega með því að fella um 800.000 rótgróin og mörghundruð ára gömul ólífutré og jafnað íbúðarhús Palestínumanna við jörðu. Þegar fólkið er myrt og flæmt í burtu eru ný hverfi reist fyrir Ísraela á landi Palestínumanna. Hverfin, kölluð „Settlements“ eru ólögleg yfirtökusvæði, húsin eru byggð óháð því hvort fólk flytur inn í þau eða ekki og eru hluti af langtíma kerfisbundinni yfirtöku Ísraelsmanna á Palestínu. Þeir hafa verið í mikilli yfirburðastöðu með Bandaríkin sem helsta bakhjarl og hafa mjög markvisst bolað innfæddu fólki burt af svæðinu, meðal annars með því að hertaka vatnsból og eyðileggja lífsviðurværi íbúa, en það er meðal annars tilgangurinn með því að fella ólífutré. Öll mótspyrna hefur ætíð nýst Ísrael sem réttlætingu fyrir frekari innrásum, hertöku og yfirráðum.
Þannig hefur Ísrael markvisst fært út kvíarnar og sölsað undir sig landsvæði annarrar þjóðar sem það heldur í herkví og níðist óheft á. Þetta er markviss og þéttur róður þar sem Palestína hefur skroppið saman jafnt og þétt. Fólk hefur lagt á flótta en margir hafa ekki viljað láta hrifsa af sér landið sitt og ákveðið að flýja ekki. Íbúar Gaza eru flóttafólk frá landsvæðum Palestínu sem Ísraelsmenn hafa stolið. Um 50% íbúa Gaza eru undir 18 ára.
Ég er búin að sjá og heyra of mikið til þess að geta litið á Ísraelsmenn, og helsta bakhjarl og bandalagsmann þeirra, Bandaríkin, sem vinveittar eða siðmenntaðar þjóðir. Þessar þjóðir stunda glæpi og stríð sem eru iðulega réttlætt fyrir umheiminum sem björgunaraðgerðir eða varnaraðgerðir. En í flestum tilvikum er sú afsökun algjör tilbúningur því innrásirnar hafa oftar en ekki snúist um að komast yfir náttúruauðlindir. Hvort sem það er í Írak, Palestínu eða öðrum ríkjum sem ráðist er inn í.
Margir kvarta yfir innflytjendastefnu á Vesturlöndum en neita að horfast í augu við að múslimar hafa verið hraktir á flótta vegna stríðsárása Vesturlandabúa. Málið er auðvitað alltof flókið til að hægt sé að líta á hlutina sem annaðhvort svarta eða hvíta. Ekki er hægt að draga alla múslima undir sama hattinn því hegðun þeirra og menningarlegur bakgrunnur getur verið svo mismunandi og fer eftir því hvaðan þeir koma.
Eitt hef ég þó lært, bæði frá veru minni í Sarajevó og veru vinar míns í einöngruðum palestínskum bæ, að það eru tvær hliðar á öllum málum og að hlutirnir eru sjaldnast eins og þeir eru látnir líta út fyrir að vera samkvæmt helstu fréttafjölmiðlum. Fréttaveitur Vesturheims eru spilltar og þjóna yfirleitt hagsmunaaðilum sem halda miðlunum uppi fjárhagslega eða í gegnum eignarhald.
Þess vegna ber ég mikla virðingu fyrir heimildarmyndargerðarfólki og stríðsfréttamönnum sem eru sjálfstætt starfandi og hlutlausir. Og kannski mikilvægast af öllu; á staðnum með eigin augu og eyru. Þeir eru vitnisburðir sem hægt er að byggja fréttaefni á. Ég leita yfirleitt til þeirra þegar mig langar að fræðast betur um eitthvað sem er að gerast úti í heimi.
Það er því áhyggjuefni að fréttir berast nú af morðum Ísraelshers á löggiltum fréttamönnum í bæði Gaza og í Líbanon, samkvæmt nýlegum fréttum. Fréttamaður á vegum Reuters lést í sprengjutilræðinu í Líbanon í gær þar sem stór hópur blaðamanna hafði safnast saman. Rétt er að geta að blaðamennirnir voru í bláum einkennisvestum með textanum PRESS og ísraelsher er eitt nákvæmasta og tæknivæddasta herafl heims.
Það sem er sérstakt í stríðsáróðri er að honum fylgir oft sögufölsun eða eyðing á sögu og vitnisburðum. Þegar stríðið í Úkraínu braust út hófst einnig ritskoðun á gömlu heimildarefni sem sýnir gegndarlaust ofbeldi nýnasista gagnvart rússneskumælandi minnihlutahópum og aðskilnaðarsinnum í Austur-Úkraínu. Samkvæmt opinberum tölum voru þúsundir rússneskumælandi borgara í austurhluta Úkraínu myrtir árið 2014. Hinn heimsþekkti leikstjóri Oliver Stone var einn aðstandandi heimildarmyndarinnar „Ukraine on Fire“ sem kom út árið 2016. Myndin hafði verið aðgengileg á Youtube frá árinu 2016 en var allt í einu eytt út af miðlinum í fyrra. Oliver Stone var í kjölfarið sakaður um að vera samsæriskenningasmiður, heilum sex árum seinna. Heimildarmynd um Donbass eftir frönsku stríðsfréttakonuna Anne-Laure Bonnel er þó enn aðgengileg og hægt er að sjá hana með því að slá inn leitarorðunum “Donbass (film of Anne-Laure Bonnel – English subtitles)” í leitargluggann á Youtube eða Rumble.
Mín samúð er alltaf hjá saklausum borgurum, sérstaklega einangruðum minnihlutahópum sem lítið er fjallað um, og sem fá ekki tækifæri til að fjalla um stríðsaðgerðir valdasjúkra manna. Hryðjuverk, hefndarárásir eða stríðsárásir gegn almennum borgurum má ekki líðast.
Nú hafa augu heimsins færst til Ísraels og Palestínu þar sem stríð og fjöldamorð er réttlætt nánast undir lófaklappi yfirvalda. Hryðjuverkið í Ísrael er ekki fordæmi fyrir alla Palestínumenn. Saklausir borgarar í herkví gjalda nú fyrir ofstæki örvæntingafulls minnihlutahóps.