Játning hins útskúfaða

Á fyrstu mánuðum þessa árs hóf ég rekstur á hlaðvarpi, á hlaðvarpsveitunni Brotkast.is. Þetta gerði ég eftir nokkurt hlé frá opinberri umræðu og nokkra mánuði á sjó eftir að hafa verið þrýst úr fyrra starfi sem fjölmiðlamaður í kjölfar óheiðarlegrar mannorðsárásar. Rykið sem þyrlaðist upp er núna sest, ásakanir orðnar minning ein og ný vegferð hafin hjá mér.

Ég var um árabil annar tveggja þáttarstjórnenda á útvarpsstöð og fengum við, satt að segja, nokkuð mikið svigrúm til að ræða málefni dagsins eða málefni sem enginn annar fjölmiðill ræddi. Á tímum heimsfaraldurs fengum við meðal annarra til okkar viðmælendur sem mótmæltu skerðingum yfirvalda á athafnafrelsi einstaklinga og fyrirtækja, og gagnrýndu þrýsting þeirra til að láta sprauta fólk með lyfjum á tilraunastigi. Þegar ég lít til baka hugsa ég að við hefðum átt að gera enn meira og ræða við fleiri einstaklinga sem hýstu sjónarmið sem höfðuðu ekki til meginstraumsfjölmiðla. En eftirsjá er án notagildis. Það sem skiptir máli er að lærdómur sé dreginn af fortíðinni.

Ég tel mig hafa lært mikið. Og með því að vera á eigin vettvangi í dag þarf ég ekki að óttast eða taka mark á skoðunum annarra á mínum efnistökum. Hlustendur mínir eru minn eini yfirmaður. Viðmælendur á Brotkast.is fá að segja það sem þeim liggur á hjarta. Við lítum á okkur sem athvarf fyrir þær raddir sem fá ekki annað svið til að stíga á. Að fá að taka þátt í þessu verkefni er mér mikill heiður. Málfrelsið þarf fleiri leiðir til að þrífast og þroskast. Þöggun og útskúfun ætti að reka aftur til myrkra miðalda og annarra tímabila sem við erum síður en svo stolt af í dag.

Baráttan fyrir frelsinu til að fá að mynda sér sjálfstæðar skoðanir og lifa í takt við þær er aldrei full unnin. Tímabil heimsfaraldurs kenndi okkar raunar að slíkt frelsi sé alls ekki svo sjálfsagt, eigi undir högg að sækja og að meirihluti almennings sé ekki enn búinn að átta sig á því.

Ég trúi að alræðistilburðir stjórnvalda geti komið ómeðvitað til í ástandi sem ég vil kalla fjöldafirringu. Að mínu viti er aðeins eitt meðal til við því og það er að einstaklingar láti í sér heyra og segi upphátt það sem þeir eru að hugsa. Að tjá sig yfirvegað af einlægni um það sem maður telur satt og rétt hefur aldrei verið jafn mikilvægt.

Ég ætla ekki að sitja þögull lengur hjá og ég hvet þig til að gera það ekki heldur.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *