Þann 9. desember hafði Judge Napolitano í sínu góða hlaðvarpi Judging Freedom eftirfarandi viðtal við Jeffrey Sachs, hagfræðinginn heimsþekkta, um hina nýju atburði í Sýrlandi. Íslensk þýðing: Tjörvi Schiöth.
Andrew Napolitano
Hvers vegna kom Rússland ekki Assad til bjargar með hernaðarlegum stuðningi?
Jeffrey Sachs
Ég held að það sé rétt að segja að hrun Assad-stjórnarinnar á tveimur vikum hafi komið öllum á óvart. Tyrkir voru að styðja herskáa íslamista til að taka yfir borgina Aleppo í norðurhluta landsins, en ég held að Tyrkir hafi ekki búist við því að jafnvel svona skjótur sigur uppreisnarmanna í Aleppo myndi leiða til allsherjarhruns stjórnarinnar.
Þegar horft er til baka virðist það vera ljóst að Assad-stjórnin í Sýrlandi naut meiri stuðnings Hezbollah-samtakanna—það eru hersveitir í Líbanon sem eru studdar af Íran—heldur en sjálfs sýrlenska stjórnarhersins.
Hezbollah höfðu dregið herlið sitt til baka frá Sýrlandi, út af stríði þeirra við Ísrael í síðasta mánuði, þar sem Hezbollah urðu fyrir miklum skakkaföllum. Leiðtogar samtakanna voru drepnir í aðgerðum Ísraels. Ég held að fáir hafi gert sér fyllilega grein fyrir því að það var í raun Hezbollah sem var hernaðarlegur bakhjarl Assad-stjórnarinnar.
Þannig að, eftir að átökin við Ísrael höfðu dregið verulega úr krafti Hezbollah, eftir að hafa þurft að stöðva innrás Ísrael í Líbanon, þá var leiðin til Damaskus galopin, eitthvað sem engin sá fyrir. Þetta kom Rússum í opna skjöldu á sama hátt og Írönum, á sama hátt og Sýrlandsstjórn.
Atburðarásin gekk svo hratt fyrir sig að það varð ljóst að það var ekki hægt að bjarga ástandinu. Það var engin leið fyrir Írani til að fylla í skarðið fyrir Hezbollah, eða til að styðja við og styrkja samtökin frekar. Hezbollah var veiklað, sært. Og þegar Íranir sögðust ætla að styrkja Hezbollah með vopnasendingum, þá vörpuðu Ísraelsmenn og sprengjum á birgðaleiðirnar (í gegnum Sýrland).
Þannig að þetta var aðgerð sem var studd af Tyrklandi, Bandaríkjunum, og Ísrael. Og ég held að í þessu samhengi, með Rússa í stríði í Úkraínu—með Bandaríkin að heyja proxýstríð í Úkraínu—með Hezbollah mjög veikt, með litla getu til að styrkja birgðastöðu sína, og þar sem sýrlenski stjórnarherinn var ekki að berjast, heldur bara að bráðna undan sókninni, hafði kannski verið mútað eða verið vélaður eða afvegaleiddur af CIA eða leyniþjónustu Tyrklands, Ísrael eða Bandaríkjanna—eitthvað sem við vitum ekki fyrir víst á þessu stigi—út af öllum þessum ástæðum, sáu Rússar og einnig Íranir að það væri eiginlega ekkert sem þeir gátu gert á þessum tímapunkti til bjargar.
Ég held að það sé einnig mikilvægt að skilja að þetta er ekki endilega endirinn á sögunni hvað varðar Rússland og Íran í Sýrlandi. Hver mun fara með völdin, og mun verða eitt Sýrland? Mun það haldast saman í heilu lagi? Eða mun landið brjótast í sundur? Munu verða ný stjórnvöld í Sýrlandi sem munu að einhverju leyti vera í liði með Íran og Rússum, eða leyfa Rússlandi að halda sínum herstöðvum í landinu? [flugstöð og flotastöð]. Á þessari stundu ríkir algjör óvissa um þessar spurningar.
Andrew Napolitano
Ég held að stefna Bandaríkjanna í þessu máli hafi verið sérstaklega ámælisverð. Þessi Golani, sá sem leiðir þessi hryðjuverkasamtök, er eftirlýstur hryðjuverkamaður af utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Og samtökin hafa verið skilgreind (af Bandaríkjunum) sem hryðjuverkasamtök. Það er lögbrot að veita hryðjuverkasamtökum aðstoð. Síðast þegar ég vissi þá eiga þessi lög einnig við um CIA. En CIA virðist komast upp með slík lögbrot.
Er Netanjahú kannski hræddur um hvað þessir ofstækismenn munu gera núna sem hafa náð völdum í Damaskus?
Jeffrey Sachs
Við þurfum að skilja að Bandaríkin hafa stutt við bakið á súnní-jíhadistum frá árinu 1979. Ekki endilega alltaf, en samt ansi oft á tíðum, m.a. á Balkanskaga, í Tsjetsjeníu, í Mið-Austurlöndum, og í Afganistan, allt frá árinu 1979.
Ég held að allir ættu að skilja núna að Osama bin Laden var sköpunarverk Bandaríkjanna [hann var þjálfaður af CIA]. En við tölum ekki hátt um þennan sannleik hér í landi. Við höfum engar heiðarlegar rannsóknir eða skýrslur um þessi mál. Við höfum ekki látið rannsaka misgjörðir CIA, við höfum ekki látið gera úttekt á CIA í 49 ár, eða frá því að háttsemi CIA var rannsökuð af Church Committee árið 1975.
Að mínu mati er CIA hörmuleg og löglaus stofnun sem skeytir engu um að virða lög, sannleika eða heiðarleika, og virðist vera ófært um að endurskoða gjörðir sínar með hliðsjón af fyrri áætlunum sem hafa margar misheppnast alveg svakalega og komið okkur í koll.
Bandaríkjamenn styðja sem sagt herskáa íslamista, en í tilfelli Sýrlands má rekja það aftur til ársins 2011 þegar Obama tók þá ákvörðun að Assad skyldi steypt af stóli.
Átta árum áður hafði raunar verið fyrirskipað að Saddam Hussein skyldi steypt af stóli, eða árið 2003, verð ég að bæta við, í sameiginlegri aðgerð Ísraels og Bandaríkjanna.
Fyrirskipun Obama um að steypa Assad af stóli í Sýrlandi fól CIA það verkefni að styðja við herskáa íslamista þar í landi. Þannig er nú það.
Þetta er ekkert nýtt. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir alla að skilja að Bandaríkin hafa í verið í endalausum stríðum í Miðausturlöndum síðan 2001—að beiðni Ísraels.
Þetta er samkvæmt lista sem var gerður kunnugur árið 2001, bókstaflegur listi yfir lönd sem Bandaríkin ætluðu að ráðast inn í, eða steypa af stóli stjórnvöldum þar í landi [“regime change], listi sem var samþykktur strax eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september. En það var hershöfðinginn Wesley Clark, fyrrverandi yfirhershöfðingja NATO í Evrópu, sem gerði þennan lista kunnugan almenningi.
Wesley Clark (í viðtali árið 2007)
[Clark segir frá því þegar hann var í heimsókn í Pentagon stuttu eftir 11. september 2001 og var kallaður inn á skrifstofu til kollega síns, annars herforingja].
Hann sagði: ég var að fá þetta minnisblað hérna frá efri hæðinni, frá skrifstofu varnarmálaráðherra í dag. Og hann sagði, þetta er minnisblað sem lýsir því hvernig við ætlum að taka út sjö lönd á fimm árum. Byrja á Írak og svo Sýrlandi, Líbanon, Líbýu, Sómalíu, Súdan, og enda loksins á Íran. Ég sagði, eru þetta leynilegar upplýsingar [classified]? Hann sagði, já herra. Ég sagði, nújæja, ekki sýna mér það þá [vegna þess að það er ólöglegt að deila leynilegum upplýsingum með aðilum sem hafa ekki aðgang að slíkum upplýsingum]. —Wesley Clark
Andrew Napolitano
Ég ætla að giska á að þetta komi þér á ekki á óvart, prófessor Sachs?
Jeffrey Sachs
Þetta er atriði sem er nokkuð erfitt að ræða um—og þetta er heldur ekki vel skilið hérna í Bandaríkjunum—að utanríkismálastefna okkar er í föstum skorðum í kerfum og stofnunum landsins, og hún helst stöðug og óbreytt áratugum saman. Þannig að þegar menn sjá gjörðir Bandaríkjanna á heimsvísu, þá er það ekki vegna þess að Obama hafi tekið við forsetaembættinu, eða Trump, eða Biden.
Við erum með djúpríki. CIA er helsta stofnun djúpríkisins sem sér um að viðhalda utanríkisstefnu Bandaríkjanna á milli ólíkra ríkisstjórna [á milli Demókrata og Repúblikana]. Grundvallarutanríkisstefna Bandaríkjanna frá 1945 var að knésetja og brjóta niður Sovétríkin, og síðan eftir 1991 að reyna að gera slíkt hið sama við Rússland. Og ef ekki tekst að brjóta það niður, þá allavega að veikja það í grundvallaratriðum.
Þegar kemur að Mið-Austurlöndum, þá var það þannig að listinn sem Wesley Clark hershöfðingi sagði frá—listi sem Ísrael, eða nánar tiltekið Netanjahú og stuðningsmenn hans í Bandaríkjunum, menn eins Paul Wolfowitz, Douglas Faith, Richard Perle og fleiri [svokallaðir ný-íhaldsmenn eða neocons]—var upphaflega settur fram á 10. áratugnum af Netanjahú, þar sem hann sagði: “Við þurfum að steypa öllum þessum ríkisstjórnum af stóli”.
[Bók Netanjahú frá 1995 þar sem hann lagði þetta fram, þegar hann var leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Ísrael heitir Fighting Terrorism: How Democracies can Defeat Domestic and International Terrorists: https://archive.org/details/fightingterroris00neta/mode/2up ]
Við erum sem sagt búin að vera að þessu í meira en 20 ár. Þetta hangir allt saman. Þetta snýst ekki um Demókrata eða Repúblikana, um Bush á móti Obama. Ég veit að það er kannski svolítið leiðinlegt, að átta sig á því að kosningar breyta engu. Þú veist, öll þessi spenna yfir kosningunum, yfir hver vinnur, sem breytir síðan engu. En nei, það er sem sagt svona sem utanríkisstefnan er raunverulega mótuð. Hún er mótið yfir langt tímabil.
Skoðum núna þessi sjö lönd sem Wesley Clark nefndi. Listinn byrjaði á Írak, svo Sýrland, Líbanon, Íran, Líbýa, Súdan og Sómalía. Núna vil ég að fólk skilji að Bandaríkin—og þeirra staðgenglar [eins og t.d. Ísrael]—hafa þegar háð stríð í sex af þessum sjö löndum.
Þessi listi var samþykktur árið 2001 [fljótlega eftir 11. september], og var byggður á lista frá 1996 þegar Netanjahú tók við embætti í Ísrael. Kenning hans var sú að Ísraelsmenn þyrftu að fá að gera það sem þeir vildu, að drottna yfir palestínsku þjóðinni. Þess vegna þyrfti að kollvarpa þessum stjórnum í öllum þessum löndum sem styðja við Palestínumenn, sérstaklega þeim sem styðja þá hernaðarlega, gegnum Hamas-samtökin, Hezbollah og aðrar fylkingar.
Í stað þess að semja við Palestínumenn um að þeir fái sitt eigið ríki [tveggja-ríkja lausnin], þá ákvað Netanjahú að steypa stjórnum sjö landa af stóli. Og það er nákvæmlega það sem gerðist. Það er bara eitt land á þessum lista eftir, og það er Íran. En sex af þessum sjö löndum hafa nú þegar orðið fyrir barðinu á hernaðarlegum afskiptum Bandaríkjanna.
Þetta byrjaði með Írak árið 2003. Sem byrjaði í raun árið 1998, vegna þess að það ár hafði Bandaríkjaþing og ríkisstjórn Clinton samþykkt lagafrumvarpið “Iraq Liberation Act”, sem gerði það að opinberri stefnu Bandaríkjanna að steypa Saddam Hussein af stóli. Þannig að það var opinber stefna frá 1998, ekki bara eftir 11. september 2001.
Eftir 11. september var þessi listi sem Wesley Clark fékk að heyra um í Pentagon gerður að raunverulegri hernaðaráætlun varnarmálaráðuneytisins. Planið var að fara fyrst inn Írak, svo þaðan inn í Sýrland, svo þaðan inn í Líbanon, og svo alla leið til Sómalíu, Súdan, Líbýu og loks Íran.
En hvað gerðist? Íraksstríðið klúðraðist, þar sem Bandaríkjamenn voru bundnir niður í nokkur ár út af uppreisninni [Iraq Insurgency] sem braust út þar í landi eftir að Saddam Hussein féll frá. Þannig að þeim tókst ekki að framkvæma þetta plan samkvæmt áætlun, þ.e.a.s. sjö stríð á fimm árum. En þegar Obama tók við forsetaembættinu, þá voru honum gefin þessi fyrirmæli: „Herra forseti, við ætlum næst að ráðast inn í Sýrland“.
Samkvæmt þessu hóf Obama árið 2011 aðgerðir á vegum CIA til að steypa Assad af stóli, að undirlagi Ísraels.
Bandaríkin studdu við innrás Eþíópíu í Sómalíu. Þau studdu einnig við uppreisnarmenn í Súdan til brjóta landið í sundur, þannig að núna geisa enn stríðsátök þar, og milljónir manns þurfa ennþá að þjást út af þessu, bæði í Súdan og Suður-Súdan [eftir að landið klofnaði í tvennt út af stríðinu].
Árið 2011 sendi Obama NATO inn í Líbýu, sem leiddi til 13 ára langs stríðs þar í landi, til viðbótar við allt hitt. En stærsta skotmarkið sem enn er eftir [“the big prize”], sem Netanjahú þráir að komast í stríð við, það er Íran, og núna beitir hann öllum ráðum til að reyna að draga Bandaríkin í stríð við Íran. Staðan er sex af sjö. Eitt eftir.
Í engum af þessum sex löndum er ástandið stöðugt eða friðsamlegt. Ekki í einu tilviki. Engin undantekning. Þetta er gríðarleg eyðilegging sem Bandaríkin hafa valdið að beiðni Ísrael. Þetta er allt saman þessi snarklikkaða hugmynd Netanjahú að—vegna þess að hann getur ekki hugsað sér að gera málamiðlun við Palestínumenn—þá þarf hann að steypa öllu í bál og brand og gjöreyðileggja helminginn af Mið-Austurlöndum. Það er hans hugmynd.
Þýðing: Tjörvi Schiöth
Birtist upphaflega á www.neistar.is