Hvað er í gangi með kynfræðsluna?

Hingað til hefur almennt verið talið að kynfræðsla eigi að kenna unglingum hvernig börnin verði til, kynna fyrir þeim hvað kynsjúkdómar séu og hvernig eigi að verjast þeim, auk annars fræðsluefnis. Einnig er spurningum svarað um hvað gerist á kynþroskaskeiðinu. Hingað til hefur þeim ekki verið kennt kynferðislega örvandi rassapot. Og hingað til hefur því verið haldið frá börnum. Nú virðist breyting á því vera að eiga sér stað.

Undanfarna daga hefur mikil umræða átt sér stað á samfélagsmiðlum í landinu. Margar kaffistofur á mörgum vinnustöðum landsins ræddu um bókina „Kyn, kynlíf og allt hitt“, eftir Cory Silverberg, sem Menntamálaráðuneytið notast við í kynfræðslu fyrir börn frá aldrinum 7-10 ára. Bókin fer fyrir brjóstið á langflestum þar sem hún kennir börnunum bæði sjálfsfróun og rassapot. En umræðan fór fljótt út í skurð því að fæstir eru upplýstir um að málið er þrennskonar: Í fyrsta lagi svokölluð hinsegin fræðsla í grunnskólum sem Samtökin 78 kenna. Í öðru lagi bókin eftir Silverberg. Og í þriðja lagi veggspjöld í grunnskólum á vegum Reykjavíkurborgar. Hér verður gert grein fyrir þessu öllu saman.

Svo virðist sem að tugir þúsunda Íslendinga hafi vaknað samtímis fyrir því að eitthvað dularfullt sé að eiga sér stað í skólakerfinu, og það ekki með góðum ásetningi. Árið 2023 hefur nefnilega verið einkennilegt hvað varðar „kynfræðslu“ í skólum því að í febrúar barst tal frá svokölluðum „Viku 6“ veggspjöldum sem m.a. sögðu börnum að þau mættu taka nektarmyndir af sér. Fólki var að sjálfsögðu brugðið vegna þess að börn taka svona löguðu sem hvatningu og þau eru allt of auðtrúa og saklaus. Ef að ein slík nektarmynd af þeim myndi dreifast á netinu (sem myndi flokkast sem dreifing á barnaklámi) yrði æskan þeirra fljótt eyðilögð. Fljótlega bárust afsakanir á þessum veggspjöldum og því haldið fram að þetta væri nú bara hin eðlilegasta kynfræðsla ætluð ungmennum. Tvennt stangast á við þá frásögn því að teiknimyndirnar voru í mörgum tilfellum af ókynþroska börnum. Einnig fannst a.m.k. eitt þessara plakata á vegg í matsal Smáraskóla. Umræðan á þessum veggspjöldum rann fljótlega út í sandinn því fáir sem engir vissu hvaðan þetta kæmi. En samkvæmt Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, verkefnastýru Samtakanna 78, koma þessi veggspjöld frá Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar.

Spjótin beindust fljótt að Samtökunum 78. En þau kenna svokallaða hinsegin fræðslu í grunnskólum nokkurra sveitarfélaga sem þau semja við. Þorbjörg Þorvaldsdóttir þáði boð Málfrelsis til að halda erindi á opnum fundi á Kringlukránni þann 15. maí og kynnti fundargesti fyrir hinsegin fræðslunni. Einnig tók hún við spurningum úr sal. Á fundinum kom skýrt fram að Samtökin 78 bæru enga ábyrgð á þessum veggspjöldum, heldur Reykjavíkurborg. Höfundur, sem einnig gegndi hlutverki fundarstjóra á Kringlukránni, hafði samband við Kolbrúnu Hrund, verkefnastýru Jafnréttisskólans, í miðjum júní, og bað um viðtal. Hún var hins vegar komin í sumarfrí og var í fríi til september. Höfundur hafði samband við hana í þrígang í miðjum september í gegnum þjónustuborð Reykjavíkurborgar. Einn ritarinn bauðst til að taka niður nafn höfundar sem og að hann væri að hafa samband fyrir hönd Málfrelsis. Ritarinn baðst til að láta Kolbrúnu vita og biðja hana um að hafa samband. Þetta gerði ritarinn í tvígang. Kolbrún hefur enn ekki haft samband.

Það var svo í september sem að myndir úr bókinni „Kyn, kynlíf og allt hitt“, eftir Silverberg, fóru sem eldur í sinu um netheima. Bókin kynnir börnum fyrir bæði sjálfsfróun og rassapoti. Þá fyrst vaknaði bróðurpartur þjóðarinnar. En þá rifjuðust veggspjöldin líka upp fyrir fólki og þau fóru aftur í dreifingu á samfélagsmiðlum. En nú í meiri máli en áður virðist vera. Viðbrögðin af þessu öllu saman hafa verið meira en lágkúruleg af hálfu fjölmiðla og opinberra stofnana. Þau hafa ákveðið að mála Samtökin 78 sem fórnarlömb í kjölfar þessarar umræðu. Þau endurtaka frasa á borð við „efni er tekið úr samhengi“, „vafasöfnu efni er deilt“ og „efni er birt á vafasaman hátt“ án þess þó að útskýra hvernig eða reyna að útskýra hvað sé í gangi. Staðan er sú að fólk verður bara ringlaðara með því að lesa fréttamiðla um þetta mál. Því er nauðsynlegt að þessar sönnu upplýsingar komist á framfæri til sem allra flestra. Við megum hvorki  leyfa vitleysingum né illgjörðarmönnum að gaslýsa þjóðina.

Vörumst því að dreifa ósönnum upplýsingum og höfum það á hreinu að þetta mál er a.m.k. þrennskonar: hinsegin fræðslan í boði Samtakanna 78, „kynfræðslubókin“ hjá Menntamálastofnun og svo veggspjöldin í grunnskólum á vegum Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *