Hafa falsguðirnir snúið aftur?

Við lifum á ótrúlegum tímum, þar sem allt virðist vera á hverfanda hveli. Stríð er friður, svart er hvítt, lygi er sannleikur. Í yfirheyrslum á Bandaríkjaþingi í þessari viku kom fram að fólk sem ekkert hefur lært í læknisfræði hafi tekið sér ritskoðunarvald yfir hámenntuðum læknum frá fínustu háskólum heims af því að „stefna fyrirtækisins“ (samfélagsmiðilsins) hafi bannað að tiltekin sjónarmið fengju að birtast! Hvernig höldum við áttum í slíku umhverfi? Hvernig höldum við sönsum? Hvernig varðveitum við heilindi okkar? Hvernig höldum við samviskunni hreinni? 

Félagar mínir sumir, sem aldrei hafa talað við mig um trúmál, hafa á síðustu vikum fært talið út á óvenjulegar brautir: Um Jóhannes, endatímana, ragnarök o.fl. sem aldrei hefur áður komið til tals. Í afhelguðu samfélagi virðist mér sem einhvers konar trúarleg vakning sé mögulega að gerjast í hjörtum fólks. Frammi fyrir andstreymi, veikindum og dauða veitir efnis- og tómhyggja litla huggun.  

Allt þetta hugsaði ég þegar ég las nýja færslu eftir Naomi Wolf, bandarískan rithöfund og femínista, þar sem hún gerir myrkrið að umfjöllunarefni, þ.e. hvernig illskan virðist sækja fram á kostnað þess sem telja má gott, satt og fagurt. 

Wolf skrifar langa ritgerð í leit að svörum við því hvernig skýra má þróun síðustu missera, þ.e. hvernig grundvallarstofnanir ríkisins virðast hafa snúist frá því að verja grunngildi samfélagsins yfir í að ráðast að þeim. Wolf segir að þrátt fyrir alla hennar klassísku menntun og þjálfun í gagnrýnni hugsun, þrátt fyrir alla sína þekkingu á mannkynssögu og stjórnmálum hafi hún ekki getað útskýrt þróun mála frá 2020 til nútímans. Wolf leitar í pistli sínum svara við því hvernig skýra megi þá staðreynd að hinn vestræni heimur hafi einfaldlega, án skýringa eða sérstakra fyrirvara, skipt úr því að vera yfirlýst vígi mannréttinda og velsæmis yfir í að lofsama dauða, útilokun og hatur. 

Wolf leitar skýringa á sama stað og fyrrnefndir viðmælendur mínir, þ.e. í trúarlífinu. Hennar skýring er sú að þegar Guð er hrakinn brott úr samfélagi manna sæki falsguðir fram með þeim afleiðingum að allt hið versta í sögu manna gangi nú aftur með skelfilegum afleiðingum, þar sem háttprýði og heiðarleiki láti undan síga, mannréttindi séu gengisfelld og hefðbundið gildismat lítilsvirt. Í stuttu máli hefur verið grafið undan öllum stoðum menningarinnar og það hafi gerst samhliða útilokun Guðs hinnar gyðinglegu og kristilegu trúarhefðar sem lög okkar og hefðir hafa grundvallast á fram að þessu.

Lykilsetning í grein Wolf, út frá mínum sjónarhóli, er þessi hér: „And so decency, human rights, human values, all of which we thought were innate secular Western values – turn out to be values that cannot be protected enduringly without the blessing of what has been in the West, a Judeo-Christian God.”

Þessi setning rímar við mína eigin reynslu: Ég var háskólakennari í mörg ár og hafði rúman tíma til að rekja þræði laganna. Einn daginn áttaði ég mig á því að ég var kominn inn á svið guðfræðinnar, þar sem nýjar víddir blöstu við. Þetta var opinberun, sem eftir á að hyggja varð grunnur að trúarlegri endurnýjun. Ég taldi mig sjá að þegar þessi grunnur er tekinn í burtu, þá stendur ekkert eftir nema nakin valdbeiting: Sá einn ræður sem heldur á stærsta bareflinu. Það er ekki lýsing á siðmenntuðu samfélagi. Þar hefur sannleikur og góðmennska verið jaðarsett en ofbeldi gert hátt undir höfði.

Og þangað erum við mögulega komin á árinu 2023. Við höfum gleymt því sem er margítrekað í hinni Helgu bók, sjá t.d. Orðskviðina (9:10): „Ótti Drottins er upphaf viskunnar og að þekkja Hinn heilaga eru hyggindi.“ Ótti á hebresku er IRA, sem þýðir virðing, tilbeiðsla, lotning, ótti. 

Lærdómurinn er hinn sami nú og á öllum fyrri tímum: Þegar mennirnir reyna að velta Guði úr hásætinu og tilbiðja falsguði, riðlast öll tilvera þeirra. Það er góð ástæða fyrir því að einmitt þetta er fyrsta boðorðið: „Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa“. Gamla testamentið geymir ótal dæmisögur og viðvaranir um þessa tilhneigingu manna. En kannski þarf hver einasta kynslóð að læra á eigin skinni hvað snýr upp og niður, hvað þarf að forðast og hver eru hin sönnu verðmæti. 

Eftir stendur þessi spurning: Ef tilgáta Naomi Wolf er rétt, þ.e. ef myrkrið sækir nú fram á kostnað ljóssins, hvað getur hvert og eitt okkar gert til að ljósið fái að skína í myrkrinu? Hver og einn getur nýtt hvern dag til að breiða út kærleika og það er hægt að gera með ýmsu móti, m.a. með því að sýna elskulegt viðmót þeim sem á vegi okkar verða, bjóða fram hjálparhönd, gera góðverk og vera óhrædd við að tala um Guð og trú sína, haldreipi sitt í lífsins ólgusjó. 

Við hjónin höfum að undanförnu velt því fyrir okkur hvað við getum gert til að breiða út þetta ljós. Þær vangaveltur hafa leitt okkur að þeirri niðurstöðu að við ætlum að bjóða fram þjónustu okkar til að leiða sunnudagshugvekjur í kirkjum, þar sem opnað verður fyrir almennt samtal um Guð, hlutverk okkar í sköpunarverkinu og leiðir til að verja og rækta hið góða, fagra og sanna, sem vonandi er markmið okkar allra. Nánari dagskrá verður auglýst síðar.

3 Comments

  1. hognadottir Ólóf

    Þú átt þakkir skyldar fyrir skrif þín og kjark þann sem þú sýnir þegar þú tekur afstöðu með Kristi og þorir að segja það sem mörg okkar hugsa en skortir kjark til að koma fram og segja það sem í raun við vitum að er rétt og og satt.Guð blessi ykkur hjónin

  2. Arndis Hauksdottir

    Takk Arnar. Þú bendir á hina réttu leið. Til í að taka þátt í þessu með ykkur. 🙏

  3. Ari Tryggvason

    Þakka þér fyrir, Arnar. Ég tek heilshugar undir þetta og merkilegt sem þú vitnar til hjá Naomi Wolf. Svo virðist vera að mikið rótleysi sé í trúarlegum efnum meðal fólks í dag, þá á ég við að öllu sé blandað saman og fólk nái ekki að greina milli góðs og ills.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *