Dvínandi þátttaka í bólusetningum barna: þvinganir eða traust?

Nýleg umræða í færeysku sjónvarpi hefur vakið upp deilur um bólusetningar barna og hvort nauðung gæti verið lausn á þeirri dvínandi eftirspurn sem nú á sér stað. Í þættinum var rætt við lækni sem kominn er á eftirlaun og talaði fyrir því að bólusetningar yrðu gerðar skyldubundnar og að öll börn ættu að vera fullbólusett til að mega fara í skóla og leikskóla.

Þessi afstaða vekur áhyggjur, þar sem fyrri umræður, meðal annars með virtum sérfræðingum eins og Anders Tegnell, faraldsfræðingi í Svíþjóð, og Martin Kulldorff, fyrrverandi prófessor við Harvard, hafa verið gegn þvinguðum bólusetningum og varað við því að það gæti leitt til meiri efasemda. Þessir sérfræðingar hafa bent á Svíþjóð sem dæmi um land þar sem bólusetning er valkvæð, en samt með hvað hæstu bólusetningahlutföll á heimsvísu. Á hinn bóginn eru lönd sem gera bólusetningu að skilyrði fyrir aðgangi að opinberri þjónustu, eins og skólagöngu, oft með lægri bólusetningarhlutföll.

Rökin fyrir þessu eru einföld: Þvingun vekur efasemdir, en upplýst val byggir upp traust. Reglan um upplýst samþykki, sem var fest í Nürnbergaryfirlýsingunni eftir seinni heimsstyrjöldina, styður rétt einstaklinga til að taka eigin ákvarðanir varðandi læknismeðferð. Umræðan um skyldubundnar bólusetningar gæti grafið undan þessum grundvallarrétti og dýpkað félagslegar gjár.

Í COVID-19 heimsfaraldrinum vöruðu sérfræðingar eins og Christine Stabell Benn, prófessor í Danmörku, einnig við of miklum þrýstingi á fólk til að láta bólusetja sig og sögðu að slík nálgun gæti leitt til bakslags. Í dag, þegar traust á heilbrigðisyfirvöldum virðist hafa minnkað, sjáum við þessar afleiðingarnar sem þau höfðu spáð um. Í kjölfar minnkandi bólusetningartíðni virðist sumt heilbrigðisstarfsfólk og fjölmiðlar vera að ýta undir frekari þvinganir, jafnvel beina skyldu ásamt því að uppnefna þá sem eru hikandi við bólusetningar (öfga-hægri, flatjörðungar, anti-vax o.s.frv.). Vandinn er að slíkar aðferðir eru líklegri til að grafa enn frekar undir trausti almennings.

Í stað þess að stuðla að opinskárri og upplýstri umræðu um bæði ávinningu og áhættu bólusetninga, er umræðan að verða einhliða. Ef markmiðið er að byggja upp heilbrigðara og samheldnara samfélag, gæti leiðin áfram ekki legið í tilskipunum og áróðri, heldur í trausti, samræðu og gagnsæi.


Jón Tyril er einna þekktastur í Færeyjum fyrir ýmsar hátíðir og viðburði sem hann hefur stofnað og skipulagt. Í dag rekur hann menningarhús í Fuglafirði í Færeyjum.


Upprunalegur texti er skrifaður á færeysku.
Erling Óskar Kristjánsson og Þórdís Björk Sigurþórsdóttir þýddu.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *