Börnin okkar verðskulda betri menntun

Fyrr í þessum mánuði var öllu starfsfólki Menntamálastofnunar sagt upp m.a. með vísan til þess að 40% fimmtán ára nem­enda á Íslandi búi ekki yfir grunn­hæfni í lesskiln­ingi, að því er kom fram í niður­stöðum PISA-könn­un­ar­inn­ar 2022 sem voru birt­ar 5. des­em­ber sl. Þetta er vel að merkja sama starfsfólkið og bar ábyrgð á útgáfu þessa rits hér, ,,Kyn, kynlíf og allt hitt“, fyrir börn á yngsta og miðstigi grunnskólans. 

Í dag er auglýst á heilli opnu í Mogganum eftir nýju starfsfólki til að fylla ,,skarðið” sem fyrri starfsmenn skilja eftir sig. Binda verður vonir við að nýir starfsmenn geti breytt grunnskólakerfinu úr þrotabúi í starfhæft menntakerfi. 

Hér eru nokkrir punktar til íhugunar fyrir nýtt starfsfólk stofnunarinnar og alla aðra sem koma nærri menntamálum hérlendis, þ.m.t. foreldra: 

  • Skólar eiga að efla ímyndunarafl barna, ekki þrengja að því
  • Nota á sömu grunnstef og mannkynið nýtti sér áður en hið prússneska skólakerfi var tekið upp: Gefa börnum frið, einrúm, frjálst val í samræmi við áhuga, börn fái að læra með því að prófa sig áfram, leita að lausnum, umgangast sem flesta og fá leiðbeiningar frá þeim sem hafa reynslu í viðkomandi fagi, vera laus undan eftirliti og fá að vera sínir eigin kennarar. 
  • Leggja ekki falskar forsendur til grundvallar skólastarfi eins og að börn eigi erfitt með að læra að lesa eða vilji ekki læra. 
  • Veita börnum tíma og frelsi …. og sýna þeim virðingu. 
  • Miða að einföldun. Kenna færri fög og einbeita sér að því sem mestu skiptir, þ.e. að börn læri að lesa, reikna, skrifa, tjá sig.
  • Hætta að skipa börnum fyrir, leysa þau úr viðjum rúðustrikaðrar stundaskrár. Skólar eiga ekki að starfa eins og fangelsi: Markmið skólastarfs er ekki að ala upp þræla heldur frjálsa borgara. Í þeim anda á að virkja áhuga nemenda, hvetja þau til sjálfstæðrar hugsunar.  
  • Hjálpa þeim í þeirra / okkar mannlegu leit að tilgangi, heildarskilningi, ljósi, sannleika.

Ef skólarnir verða ekki betrumbættir munum við súpa seyðið af því, t.d. með því að við missum frá okkur borgaralegt frelsi, því fólk sem hefur verið mótað að prússneskum sið skólakerfisins og æft frá barnæsku í að hlýða og að fylgja því sem sérfræðingar segja í stað þess að hugsa sjálft, er líklegra til að verða viðskila við eigin dómgreind, missa tengsl við sína eigin samvisku og finna aldrei neina sjálfstæða sannfæringu. 

Við eigum sem samfélag að útskrifa fólk sem getur staðið á eigin fótum og þarf ekki á stuðningi annarra þátta ,,kerfisins” að halda. Við eigum að gefa börnum okkar einföld skilaboð: Að ást okkar til þeirra sé ekki háð góðum einkunum, að kærleikur okkar til þeirra sé óskilyrtur, að þau séu dýrmæt og elskuð hvað sem á gengur í skólanum og félagslífi. Við eigum hjálpa börnum okkar að hafa trú á sjálfum sér. Fólk með jákvæða sjálfsmynd og heilbrigt sjálfstraust þarf ekki á samþykki / velþóknun annarra að halda, því styrkur þeirra kemur innan frá og brotnar ekki við minnsta andstreymi. Slíkir sterkir einstalingar hafa kraft og þor til að standa utan við hópinn ef með þarf og velja sér sína eigin leið, án þess að þurfa að fela sig í hjörðinni.

Við eigum að kenna börnum okkar að þau eigi ekki að fela sig. Þau séu einstök og dýrmæt, þau hafi sína eigin rödd og að sú rödd verði að heyrast.  

Greinin birtist fyrst á bloggsíðu höfundar.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *