Að murka lífið úr heilli þjóð

Smábútur af múrnum alræmda með verki eftir Banksy.

Í þessari grein lýsir höfundur af eigin reynslu ástandinu á Vesturbakkanum fyrir nokkrum árum. Við sjáum nú sívaxandi ritskoðun, bönn við mótmælaaðgerðum og stuðningsyfirlýsingum við Palestínumenn. Hrammur ritskoðunarinnar verður æ sýnilegri, þögn fjölmiðlanna sífellt meira ærandi, og því æ mikilvægara að sjá til þess að frásagnir af þessum toga nái augum og eyrum almennings. Því tjáningarfrelsið verður að verja hvað sem það kostar.

Ritnefnd


Í nóvember 2016 heimsótti ég Betlehem og Hebron á Vesturbakkanum til að sjá með eigin augum hvernig Palestínumenn hafa það. Bæði í Betlehem og Hebron vorum við með leiðsögumann af staðnum og gistum heima hjá þeim. 

Okkar maður í Betlehem, Mohammed, bjó með foreldrum sínum og systkinum í húsi í flóttamannabúðum Rauða krossins. Þar hafði fjölskyldan búið síðan árið 1967 ásamt þúsundum öðrum eftir að hafa þurft að yfirgefa heimili sín fyrir ísraelskar landnemabyggðir. Við hliðið að búðunum var lítill skúr með myndum frá fyrstu árum búðanna. Fyrsta árið bjuggu allir í tjöldum, í drullusvaði þegar rigndi, nístandi kulda á veturna og óbærandi hita á sumrin. Þá útvegaði Rauði krossinn gáma sem varði alla vega fólkið gegn rigningu og vindi. 

Í þessum gámum bjó fólkið í nokkra áratugi, eða þar til einhverjir gáfust upp á að bíða eftir varanlegra úrræði og hófu að byggja sín eigin hús á reitnum sem hver skúr hafði. Smám saman byggðist hverfið upp með húsin byggð svo þétt upp við hvert annað að íbúarnir geta heilsast með handabandi úr gluggunum. 

Með árunum hefur fólk byggt hverja hæðina ofan á aðra eftir því sem fjölskyldurnar stækka og börnin eignast sína eigin fjölskyldu því ekki er um neitt annað húsnæði að ræða. 

Það var nokkuð friðsamlegt í Betlehem og bæjunum þar í kring sem við heimsóttum líka. Það sama var ekki að segja um Hebron. 

Þar sem samgöngur eru takmarkaðar á milli Betlehem og Hebron þurftum við að fara aftur til Jerúsalem til að taka rútu til Hebron. Við fórum auðvitað að fyrstu rútunni sem var merkt Hebron en var vísað frá og sagt að taka aðra rútu. Að þessi rúta væri bara fyrir Palestínumenn sem þurfa að fara í gegnum meiriháttar vegabréfsskoðun til að komast að heiman og heim. Það kemst nefnilega enginn út eða inn um vegginn sem Ísraelsmenn hafa reist nema með skriflegu leyfi. Palestínumenn eru í raun í fangelsi. 

Spennan í Hebron var næstum áþreifanleg. Fólkið vantreysti okkur greinilega, enda litum við út eins og ísraelskir landnemar. Eftir mikla leit tókst okkur loksins að finna kaffihús með neti og komast í samband við leiðsögumanninn. 

Við skulum kalla hann B, því hann er einn af andspyrnuhreyfingunni í borginni. B bjó í blokk í öllu venjulegra hverfi á okkar mælikvarða en félagi okkar í Betlehem. Hins vegar er bara spurning hvenær landnemarnir í kring verða búnir að flæma hann og fjölskyldu hans út úr blokkinni. Þar sem hann sýndi okkur hverfið sem landnemarnir voru að taka yfir, kom einn á fjórhjóli, keyrði ískyggilega nálægt okkur og sérstaklega honum og sagðist mundu keyra á hann næst. Ísraelskin fáninn hékk utan á öðru hverju húsi og göturnar auðar fyrir utan okkur og þennan á fjórhjólinu. 

B útskýrði hvernig þeir taka húsin. Þeir mæta með vopn þegar íbúarnir eru ekki heima, brjóta upp hurðina og taka yfir íbúðina. Þá hengja þeir ísraelska fáninn yfir svalarhandriðið svo allir sjái að þeir séu komnir þarna inn. Því næst er málið að herja á alla aðra íbúa hússins, ógna þeim, stela frá þeim og fæla úr íbúðum sínum. Ef íbúarnir kvarta til lögreglunnar segist lögreglan ekkert geta gert. Landnemarnir séu vopnaðir og þeir (lögreglumennirnir) taki enga sénsa. Auk þess er það með fullu samþykki yfirvalda að landnemarnir taka yfir hús múslima. Þeir eru ekki kallaðir landnemar að ástæðulausu. 

B sýndi okkur húsin sem enn eru í eigu múslima en eru nú innlyksa í landnemahverfunum. Íbúarnir mega til dæmis ekki keyra heim til sín, heldur verða að leggja hinu megin við nýju landamerkin og flytja allt á hjólbörum eða ösnum eða bera það sjálfir. Ég sá fyrir mér sjálfa mig með barn á öðrum handleggnum og þunga innkaupapokana í hinni, gangandi nokkra kílómetra frá þeim stað sem þurfti að skilja bílinn eftir. 

Rétt hjá B býr vinur hans í gömlu húsi. Á þakinu hafa Ísrealsmenn byggt varðturn og þar eru vopnaðir hermenn allan sólarhringinn til að gæta þess að hann fari ekki út nema hann fái til þess leyfi. Við þurftum að læðast bakatil, beygja okkur í gegnum gat í girðingu og læðast undir trjágöng til að heimsækja hann. Svona þrúga Ísraelsmenn fólkið og niðurlægja.  

Við hittum fólk sem hafði misst tvö ung börn sín eftir að Ísraelsmenn skutu þau til bana að ástæðulausu. Þá skutu þeir líka á vatnstank fjölskyldunnar, svona til að árétta skilaboðin. Það er ekki óalgengt að Ísraelsmenn skjóti Palestínumenn að ástæðulausu, en að sjálfsögðu kemst það aldrei í fréttirnar. Ísraelar tala um hvernig múslimar fjölga sér eins og kanínur og því nauðsynlegt að halda fjöldanum niðri með alls konar slysaskotum.

Gamla markaðssvæðið líkist draugabæli með landnemahúsin ofan á og net á milli.

Gamla markaðssvæðið í Hebron sem áður var líf og sál borgarinnar er nú draugabæli. Ísraelar byggðu nefnilega íbúðarhús ofan á markaðshúsin og stunda það að henda rusli, grjóti og mannaskít út um gluggana ofan á fólkið á markaðnum. Þá var brugðið til þess ráðs að setja net yfir markaðinn og enn má sjá ruslið sem landnemar halda áfram að henda út um gluggana. Múslimarnir hafa nú gefist upp og hætt með markaðinn. 

Svona hrekja landnemar múslima markvisst inn á smærri og þéttari svæði þar til það verður bara lítið frímerki eins og Gaza svæðið og hægt er að jafna það við jörðu með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. 

Við sáum líka vegginn ógurlega sem lokar fólkið inni í borginni. Vegginn hafa múslimsk börn skreytt með myndum og setningum um að þau vilji frið eins og allir aðrir. Þau vilja bara leika sér frjáls eins og önnur börn í heiminum og hafa sömu tækifæri. 

Þrátt fyrir þessa ömurlegu meðferð á Palesínumönnum, gæta B og félagar í andspyrnuhreyfingunni þess að hafa mótmælin alltaf friðsamleg. Börn eru hvött til þess að taka upp á símana sína þegar þau verða vitni að ofbeldi ísraelskra hermanna gagnvart íbúum og setja það á vefinn í þeirri von að alþjóðsamfélagið átti sig, í stað þess að efna til átaka. 

Í Jerúsalem er gullna moskan, þriðji heilagasti staður múslima á eftir Mekka og Medína, þar sem Múhammeð á að hafa stigið til himna. Það er heilög skylda múslima að heimsækja einhvern þessara staða einu sinni á ævinni. En múslimar á Vesturbakkanum mega ekki fara til Jerúsalem, ekki frekar en til Mekka eða Medína, án þess að sækja um skriflega. Og ísraelsk yfirvöld gera sér far um að neita múslimum um aðgang að Jerúsalem og helst að veita þeim leyfi á degi þar sem það er ómögulegt, eins og þeir gerðu við einn sem við hittum og gat ekki sagt frá því ógrátandi. 

Til að mótmæla þessu ákváðu leiðsögumaðurinn okkar og félagar að fara um borð í rútuna til Jerúsalem án þess að hafa tilskilið leyfi. Þegar kom að varðstöðinni og herlögreglumenn komu um borð til að skoða skilríki og leyfi, tóku þau í stað upp mótmælaskiltin og stilltu þeim upp í gluggum rútunnar. Áður höfðu þau boðað fjölmiðlafólk að varðstöðinni á þessum tilskylda tíma án þess að segja hvers vegna. Herlögreglan vildi ekki beita harkalegum aðferðum með fjölmiðla viðstadda svo ekkert gerðist í sex klukkutíma. Það var ekki fyrr en fjölmiðlar voru farnir að B og félagar voru bókstaflega dregin út úr rútunni og færð í fangelsi.  

Dóttir leiðsögumannsins á táningsaldri fylgdi okkur áleiðis að bænahúsinu sem byggt er yfir gröf Abrahams og Söru. Helmingur hússins er nú moska sem tilheyrir múslimum og hinn helmingurinn er synagoga og tilheyrir gyðingum. Dóttirin mátti hins vegar alls ekki fara yfir gyðingamegin sem ísraelskir varðmenn gæta og lenti í vandræðum fyrir að fara of langt. Ef ég hefði ekki skorist í leikinn og beðið henni vægðar er ómögulegt að vita hvað þeir hefðu gert við hana.  

Ísraelar halda Palestínumönnum niðri eins og hægt er. Palestínumenn mega til dæmis ekki ferðast til útlanda í gegnum Tel Aviv, heldur þurfa þeir að fara fyrst til Amman í Jórdaníu og fljúga þaðan. Ég fór í gegnum landamærin frá Jórdaníu inn í Ísrael og sömu leið til baka og ég get vottað að það er allt gert til að niðurlægja Palestínumenn eins og hægt er og gera þeim erfitt fyrir. Það þarf að taka dýra rútu yfir landamærin sem eru nokkrir kílómetrar og eru sérstakar rútur fyrir Palestínumenn og aðrar fyrir aðra ferðamenn. Þar sem ég horfði á rútu fulla af Palestínumönnum fara frá landamærastöðinni kom upp í huga mér lestarvagnarnir með gyðingunum á leið í útrýmingarbúðirnar. Þar að auki kostar formúu að fara frá Ísrael, svo ég var orðin alveg peningalaus þegar ég kom yfir landamærin til Jórdaníu.  

Ísraelskir hermenn gæta þess að landnemar skjóti ekki á Palestínumenn. Palestínsk börn að leik fyrir utan heimili sitt og í baksýn má sjá ruslið sem landnemarnir hafa hent ofan frá gluggunum sínum úr íbúðarhúsunum fyrir ofan gamla markaðssvæðið.  

Hvernig myndi okkur líða ef útlendingar kæmu hingað til lands, rækju okkur af heimilunum svo við þyrftum að hírast í tjöldum uppi á Þingvallaheiði, múruð af og bannað að koma inn borgina eða fara af landi brott nema með sérstöku leyfi yfirvalda sem væri sérlega vandfengið? Ég mundi alla vega stofna andspyrnuhreyfingu og beita ofbeldi ef þess þyrfti. 

Ég heimsótti líka flóttamannabúðir í Jórdaníu frá árinu 1967. Fólkið sem þar býr hefur enn stöðu flóttamanna þrátt fyrir að meira en fimmtíu ár eru liðin. Jórdanía vill ekki veita þeim ríkisborgararétt því það veikir stöðu Palestínu og þar með er ómögulegt fyrir fólkið að bæta stöðu sína án utanaðkomandi aðstoðar. Fólkið hefur varla rennandi vatn og enga aðstöðu til að hita hýbýli sín. Húsin eru lek og nýbúið að malbika mjóar göturnar á milli húsalengjanna, eftir fimmtíu ára svað.  

Að mínu mati eru Palestínumenn gestrisnasta fólk í heimi því þeir vita hvað það er að vera heimilislaus og hef ég hitt fjölmarga Palestínumenn. Þetta er venjulegt fólk sem vill fá landið sitt aftur á friðsamlegan máta. Það er enginn að tala um alla Palestínu eins og hún var fyrir tilkomu Ísraels 1947 heldur að þeir séu ekki lengur fangar í ríki Ísraels og ráði sér sjálfir. 

Hér að ofan má sjá kort af Palestínu og hvernig Ísrael hefur sífellt tekið meira land. Lengst til vinstri má sjá landið sem Ísraelar fengu úthlutað af Sameinuðu þjóðunum árið 1947 svo fjöldi fólks þurfti að yfirgefa heimili sín og flýja til annarra landa. Lengst til hægri er kort frá 2009 sem sýnir hvernig Ísraelsmenn og landnemarnir hafa tekið yfir nær allt svæðið og líklega hafa þeir tekið meira á Vesturbakkanum síðan þá. Nú er verið að þurrka Gaza svæðið út svo hægt sé að byggja ný hverfi handa landnemunum. 

Að halda því fram að Ísraelar séu í tómri sjálfsvörn að drepa Palestínumenn er afskaplega mikil fáfræði. Ísraelar eru að gera það sama og þeir saka aðra um að hafa gert sér. Að murka lífið úr heilli þjóð. Alþjóðasamfélagið fordæmir árás Palestínumanna á Ísraelum en fagnar hefndarárásum þeirra síðarnefndu á Gaza svæðið. Nú er búið að ákveða að allir íbúar Gaza svæðisins séu hryðjuverkamenn og þar með réttlætanlegt að útrýma þeim með öllu. Er það svona sem við viljum leysa málin?

Andúð á hegðun Ísraelsmanna hefur ekkert með gyðingahatur að gera. Það er fullt af góðhjörtuðum gyðingum um allan heim, en það sem Ísraelsmenn gera er hrein og bein mannvonska. 

Á meðan fólk trúir öllu því sem fjölmiðlar skrifa eru engar líkur á að Ísraelsmenn verði stöðvaðir. Hér skiptir engu hvort fólk sé á móti ofbeldi eða ekki. Hér er um að ræða svo mikið óréttlæti að hver sá sem lítur í hina áttina og segir að þetta komi sér ekki við, er alveg jafn mikill þáttakandi í ofbeldinu og Ísraelsmenn. Við leyfum þessu að gerast með því að gera ekkert.     

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *