Hlustum á nasistann

Auðvelt er að telja upp fjölda skoðana sem óhætt er að kalla óumdeildar í okkar samfélagi. Almennt er til dæmis viðurkennt að náttúran sé verðmæt í sjálfu sér og eigi að fá pláss og næði. Fáir missa svefn yfir því að tveir einstaklingar af sama kyni felli saman hugi og stofni heimili, gangi í hjónaband og haldist í hendur á almannafæri. Og auðvitað eru nánast allir sammála því að nasismi er vond hugmyndafræði.

En hvað er til ráða þegar einhver er ósammála skoðun sem almennt er óumdeild í samfélaginu? Sjái engin verðmæti í óspilltri náttúru – vilji jafnvel eyða henni, hafi sterka andúð á samkynhneigð og boði nasisma?

Eigum við að loka á skoðanir viðkomandi á samfélagsmiðlum? Neita honum aðgangi að umræðuþráðum og samfélagsmiðlum? Öskra á hann til að reyna þagga niður í óvinsælum skoðunum?

Já, segja margir. Vondar skoðanir! Bannaðar skoðanir! Ljótar skoðanir! Til hvers að veita þeim hljómgrunn? Hvað tapast á því að þagga niður í þeim? En sú tímasóun að þurfa láta svona skoðanir flækjast fyrir okkur!

En hérna gleyma menn því hvað málfrelsi er. Málfrelsið er ekki frelsi til að segja það sem allir vilja heyra eða eru sammála. Málfrelsið snýst um að verja tjáningu þeirra með óvinsælar skoðanir, þar á meðal skoðanir nasistans. Þær skoðanir eiga að fá að heyrast og berast. Þetta þýðir að þeim má mæta í málefnalegri umræðu, andmæla og mögulega sigrast á.

Myglusveppur sem fær að vaxa á bak við rakan vegg í myrkri er líklegri til að vaxa en deyja. Myglusveppur í súrefnisríku og björtu umhverfi á sér ekki viðreisnar von.

Ef skoðanir nasistans eru myglusveppur þá á hann að fá sólarljós og súrefni en ekki myrkur og raka. Skoðanir hans eiga að fá að heyrast. Pistlar hans eiga að sjást. Skoðanir hans eiga að geta fundið sér vettvang, og geta sætt andmælum.

Svipaða sögu má segja um þær raddir sem gagnrýndu aðgerðir á tímum heimsfaraldurs og sprauturnar sem otað var að fólki til að enda hann. Þær raddir mættu ritskoðun og útilokun. En ólíkt myglusveppnum þá voru þær raddir hreinsandi og læknandi. Þeim hefði átt að mæta í opinberri umræðu, og þær hefðu lifað það af og sigrast á andmælunum.

Málfrelsið á að vera hlutlaust. Það á að ná til allra skoðana sem eiga að fá að takast á við aðrar skoðanir.

Við eigum að leyfa nasistanum að skýra mál sitt, og þurfum á því að halda.

Hlustum á nasistann.

2 Comments

  1. Pétur Ari Markússon

    Málfrelsið er mikilvægt, vel mælt. Ég skora á lesendur að vera virkari í athugasemdum .. hér er óháður miðill og eflaust margir sem gætu skapað frjóa umræðu og deilt visku sinni.

  2. Ragnar Thorisson

    Kanski rétt að minna á að minnsta kosti helmingurinn af Nasismanum er ekki ritskoðaður heldur dásamaður í fjölmiðlum, það er að segja sósíal hlutinn. Ljóti hlutinn hlítur að vera “Þjóðernis” hlutinn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *