Hvað er vekni?

Nýleg könnun meðal bresks almennings leiddi í ljós að yfir 50% aðspurðra sögðust ekki vita hvað orðið „wokeness“ merkti. Þetta kom blaðamönnum í opna skjöldu þar sem það eru orðin almælt tíðindi í fjölmiðlaheiminum að afstaðan til „wokeness“ skipti fólki í tvær fylkingar í „menningarstríði“ sem ráði kosningahegðun meir en afstaða til jarðbundnari málefna, svo sem efnahagslífs. Það var að vísu vitað að hugtak þetta hafi til skamms tíma verið dálæti kjaftastéttanna („the chattering classes“) í háskólum og fjölmiðlum fremur en múgamannsins. En „múgamaðurinn“ svokallaði er nú orðinn svo virkur á samfélagsmiðlum að ætla hefði mátt að skilningur á þessu margnotaða hugtaki hefði síast inn í hann. Sú er ekki raunin í Bretlandi; og gildi hið sama á Íslandi gæti örlítið hugmyndasöguleg yfirlit verið nytsamt.

Fyrsti vandinn við slíkt yfirlit á íslensku er málfarslegur. Ég hef séð ýmsar uppástungur um þýðingar á „wokeness“ (eða „wokery“ í niðrandi merkingu) en engin er þjál og áferðarfalleg. „Vökull“ er að vísu prýðileg þýðing á lýsingarorðinu „woke“; en orðin „vökulleiki“ eða „vökuleiki“ eru stirðbusaleg og minna um of á orðið „flökurleiki“, sem myndi skapa neikvæða tengingu frá upphafi. „Árvekni“ er ef til vill besta tillagan, en það orð er óþarflega langt – og ég held mig því að neðan við styttri útgáfu þess, „vekni“. Ég er hins vegar opinn fyrir betri tillögum. Rétt er að taka fram í upphafi að tilgangur minn er að skýra „vekni“ og segja kost og löst á henni fremur en að fella einhvern heildardóm, neikvæðan eða jákvæðan. Tilgáta mín er sú að vekni tjái mjög síðbúin og langdræg viðbrögð við hugmyndasögulegum hræringum sem áttu sér stað fyrir öldum síðan en hafa tekið mjög langan tíma að greipast inn í hugarheima fólks.

Upplýsingin – og hin hæggengu viðbrögð við henni

Mestu vatnaskil mannkynssögunnar – a.m.k. hugmyndasögunnar – áttu sér stað í lok miðalda og upphafi nýaldar, samfara vísindabyltingunni svokölluðu, þegar endurreisnin og síðar upplýsingin (á 18. öld) tóku við af skólaspeki miðalda sem opinber hugmyndafræði hins menntaða minnihluta á Vesturlöndum. Sögubækur útmála jákvæðar afleiðingar þessara vatnaskila: hvernig vísindaleg raunhyggja leysti af hólmi kreddufestu, og áhersla á sjálfræði og réttindi einstaklingsins ruddu í burt úrvals- og forræðishyggju af ýmsu tagi. Frelsiskenning Mills er ef til vill besta birtingarmynd þessara tímamóta. En hrun hinnar trúarlegu, skipulegu heimsmyndar miðalda og uppgangur veraldarhyggju skapaði líka grundvöll fyrir valdahyggju í skilningi Nietzsches og tómhyggju sem rússneskir rithöfundar fönguðu manna best í verkum sínum á 19. öld.

Það sem sjaldan er minnst á í hugmyndasögubókum er hve hægt þessar róttæku breytingar seytluðu inn í heimsmynd almennings. Einhverjir lesendur minnast ef til vill orða Páls Skúlasonar fyrrverandi háskólarektors um hvernig öld upplýsinganna hélt innreið sína áður en við höfðum náð að vinna úr öld upplýsingarinnar. Hann hefði einnig getað orðað það svo að við yrðum póstmódernísk áður en við urðum nokkurn tíma módernísk. Í einhverjum skilningi má líta á fræðilegar sviptingar á 20. öldinni sem hægfara úrvinnslu vatnaskila sem áttu sér stað tveimur öldum fyrr. Kenning Webers um gildisfirrt félagsvísindi og Allports um persónuleika fólks sem kæmi siðferðilegri manngerð („character“) þess ekkert við voru í raun lítið annað en minni háttar neðanmálsgreinar við heimspeki Davids Hume (sem lést 1776). Tölvuöldin, geimferðabyltingin og léttúðugur póstmódernismi Andy Warhols voru óhugsandi án vatnaskila upplýsingarinnar, en engin þessara umsvifa hafði í upphafi veruleg áhrif á hugsunarhátt almennings á Vesturlöndum eða það sem kalla mætti ríkjandi tíðaranda.

Innreið nútímans

Til stuðings síðustu staðhæfingunni bið ég lesendur, sem eru jafngamlir mér eða eldri, að hugsa aftur til viðreisnaráratugarins á Íslandi og ekki síður áratugarins á undan (þó að ég muni sjálfur ekki svo langt). Íslenskt samfélag á 6.-7. áratugnum var ævintýralega hefðbundið og hreyfingarvana, njörvað niður í viðjar hafta og hægagangs. Kaup á jeppabíl voru háð frændhygli. Karlmenn tóku ofan hatta og konur ýttu barnavögnum. Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að Íslendingar árið 1960 hafi hugsað eins og Íslendingar í byrjun 19. aldar. Margt hafði breyst í tækni, menningu, samfélagsháttum og smekk. En yfirgnæfandi einkenni var samt kyrrstaða og andvaraleysi gagnvart afleiðingum upplýsingarinnar. Þetta á sér langar sögulegar rætur sem að sumu leyti eru sérstakar fyrir Ísland. Hér var engin borgarastétt fyrr en á 20. öld; yfirvöld komu skipulega í veg fyrir myndun þéttbýlis og bæja frá því seint á 15. öld; og vistarbandið var ekki afnumið fyrr en upp úr 1920.

Í brigðulu barnsminni mínu hélst innreið nútímans á Íslandi í hendur við tilkomu vinstri stjórnarinnar 1971. En það er vitaskuld barnaleg söguskoðun. Nútíminn á Íslandi, og annars staðar í hinum vestræna heimi, spratt fram sem afurð húmanísku sálfræðinnar, hippahreyfingarinnar og bítlatímans sem aftur voru endurkast af hugmyndasögulegum hræringum er áttu sér stað öldum áður en höfðu tekið ævintýranlega langan tíma að gerjast. 

Einhverjir lesendur munu amast við þessari söguskoðun og benda á að öll saga 20. aldarinnar sé saga úrvinnslu upplýsingaraldarhugmynda, sem ekki hafi aðeins byrjað í lok hennar. Dæmin sem oft eru tekin eru kvenfrelsisbaráttan og hrun nýlendustefnunnar. Vissulega má færa rök fyrir því að hugmyndir í anda Mills (sem skrifaði m.a. fræga bók um Kúgun kvenna) hafi hleypt blóði í hugmyndir um jafnrétti kvenna, í upphafi 20. aldar, og haft einhver áhrif á frelsun ríkja undan nýlendukúgun. En sem mótvægi má minna á túlkun ýmissa marxískra sagnfræðinga sem hafa fært rök að því að það hafi einfaldlega ekki lengur borgað sig efnahagslega að njörva konur við eldhúsvaskinn eða halda uppi dýrri yfirbyggingu (í löndum eins og Indlandi) til að viðhalda nýlendukerfinu. Það hafi því verið efnahagslegar forsendur í þróun kapítalískra framleiðsluhátta fremur en hugmyndafræði mannréttinda og lýðfrelsis frá 18. öld sem stuðluðu að félagslegum umbótum á öndverðri 20. öld. 

Hvað sem lesendur segja um þessar söguskýringar bið ég þá að taka alvarlega þá tilgátu að meðal almennings hafi alvarleg úrvinnsla upplýsingarinnar ekki hafist fyrr en á ofanverðri 20. öld. Skilgreining Kants á upplýsingunni sem brotthvarfi mannkyns frá sjálfskaparvíti eigin ómyndugleika átti kannski við úrvalshóp fræðimanna á 18. öld, en varla við múgamanninn fyrr en tveimur öldum síðar. Fyrsta skeið þessarar úrvinnslu, sem ef til vill mætti kenna við „óbærilegan léttleika tilverunnar“ og kristallaðist í hinni nýju poppmenningu áranna frá 1968, var sú síðbúna niðurstaða af þekkingarfræði Humes og siðfræði Mills að einstaklingnum væri frjálst að „finna sjálfan sig“ og skapa lífi sínu farveg. Orðin „autonomy“ og „authenticity“, sem urðu til á öld upplýsingarinnar en voru lítið notuð í almennri umræðu fram yfir miðja 20. öld, urðu skyndilega almenningseign, og þúsundir sjálfshjálparbóka áttu að efla sjálfsálit („self-esteem“) einstaklingsins. Það má lýsa þessu skeiði sem byltingu tíðaranda: mjög síðbúinni vorleysingu eftir aldalangan frostavetur. 

Hin óbærilega þyngd tilverunnar

En byltingar hafa tilhneigingu til að eta börnin sín. Vorleysingin í lok 20. aldar var andsvar við því sem kalla mætti hinar „jákvæðu“ hliðar upplýsingarinnar: hugmyndir um frelsi (og frelsun), sjálfræði og einstaklingsréttindi. Horft var framhjá hinum dekkri hliðum sem höfundar eins og Nietzsche og Dostovesky höfðu bent á strax á 19. öld. Það tók að slá í bakseglin strax undir lok 20. aldinnar þegar svokallaður „gagnrýninn póstmódernismi“ (sem ég meðhöndlaði all-kaldranalega í umdeildum greinaflokki í Lesbók Morgunblaðsins á sínum tíma) tók við af ógagnrýnum, léttúðugum popplistar-póstmódernisma. En gagnrýni póstmódernisminn var aðeins blábyrjunin á úrvinnslu hugmynda Nietzsches um hinar dekkri hliðar upplýsingarinnar og „mannúðarstefnunnar“ sem átti að vera óhjákvæmilegur fylginautur hennar. Það sem Nietzsche benti á (og höfundar á borð við Foucault og Bourdieu bergmáluðu síðar) var að þótt formlegum hömlum á mannréttindi yrði útrýmt stæði eftir djúpstæð tilhneiging mannsandans – fremur samfélagslega skilyrt á ýmsan hátt en erfðafræðileg – til að drottna yfir öðrum í krafti orðræðuvalds og annarra óformlegra valdavensla. 

Þetta fráhvarf frá bernskum hugmyndum um frelsun mannkynsins og aukinn frið og bræðralag má kenna við hugmyndina um „óbærilega þyngd tilverunnar“. Friðartíminn um aldamótin síðustu var, í þessum skilningi, tálsýn sem sópaði ýmsum ósýnilegum formum ofbeldis undir teppið, í anda einhvers konar Hálsaskógarheimspeki. Heimspekingurinn Habermas og stjórnmálaskörungurinn Mandela urðu birtingarmyndir þessarar heimspeki, velviljaðir en firrtir sýn á dýpri sál-félagslegar átakalínur menningarheima, kyngerva, stétta og þjóðerna. Habermas vill, á gamals aldri, enn nota Hálsaskógarheimspeki gagnvart innrás Rússa í Úkraínu og Mandela er lánsamur að hafa ekki lifað hnignun lýðræðis í S.-Afríku.

Skilgreining á vekni

Í ljósi þessarar greiningar vil ég varpa fram skilgreiningartillögu um vekni sem afar síðbúnum viðbrögðum við valdahyggjuhugmynd Nietzsches um eðli mannlegra tengsla. Nánar tiltekið skil ég vekni sem róttæka túlkun á tveimur hliðum þessarar dökku (en ef til vill raunsæju) heimssýnar.

Í fyrra lagi felur vekni í sér kröfu um að hugmynd upplýsingarinnar um einstaklingsfrelsi sé tekin miklu lengra en heimspekinga á borð við Mill dreymdi um. Hún feli ekki aðeins í sér „frelsi til að fá að vera það sem maður er“ heldur „frelsi til að ákveða hver maður er“. Þetta er eðlis-, ekki aðeins áherslubreyting, sem stundum er kennd við hugmyndafræði sjálfsmyndar („identity politics“). Gamla gríska hugmyndin um mannssjálfið, sem upplýsingin hróflaði ekki við í reynd þrátt fyrir fræg hálfkæringsrök Humes fyrir því að ekkert „sjálf“ sé til, var að sjálfsþekking vísi til samræmis milli sjálfs og sjálfsmyndar en sjálfblekking til ósamræmis milli þessa tvenns. Hin nýja hugmynd, sem veknin gengur út frá, er hins vegar sú að hverri manneskju sé frjálst að skilgreina eigið sjálf í anda þess sem henni finnst hún vera á hverjum tíma, t.d. varðandi kyn sem karl, kona, „non-binary“ eða hvaða annað form kyngervis sem er, því að það sem henni finnst hún vera er það sem hún raunverulega er. Aðeins með því að gangast við þessari niðurstöðu sé hugmynd Kants um brotthvarf frá ómyndugleika raungerð, þ.e. brotthvarf frá skilgreiningum sem aðrir þröngva upp á einstaklinginn.

Í síðara lagi felur vekni í sér ofurnæmi gagnvart öllum tilraunum til að afneita eða amast við þessari róttæku kröfu. Þetta næmi skapar tíðaranda ásakana („mood of grievance“) og afhjúpana á ýmsum leyndum valdavenslum og földu misrétti. Í þessum skilningi er hin svokallaða „slaufunarmenning“ („no-platforming“, „cancelling“) og ófrjálslynda frjálslyndi („illiberal liberalism“) ekki röklega sjálfstæð einkenni vekninnar heldur rökrétt birtingarmynd þessa ofurnæmis. Á sama hátt er „skautunarmenning“ („polarization“) ekki heldur sjálfstætt kennimark vekni; miklu fremur afleiðing þess sem gerist þegar forsendum vekninnar og andvekninnar lýstur saman.

Kostir, gallar og möguleg framvinda

Mat á vekni sem hugmyndafræði og tíðaranda er miklu flóknara en skilgreining á því hvað vekni er. Það er langt í frá að ég telji mig bæran um slíkt mat í stuttri blaðagrein. En minna má á algeng rök varðandi kosti og galla vekni. Meðal kostanna er iðulega nefnt uppgjör við ósýnilega valdastrúktúra sem halda aftur af hópum og einstaklingum. Einnig uppgjör við ofbeldi fortíðarinnar sem ríkjandi hugmyndafræði nútímans hafði reynt að fegra eða gleyma. Þá er oft kölluð til sögunnar aflétting á sjálfgerðum og samfélagslegum fjötrum sem bælt hafa óendanleg lit- og lífbrigði tilverunnar. Meðal gallanna má telja afneitun á náttúrulegu eðli mannsins sem dýrategundar með hlutlægt tilfinninga- og siðferðislíf sem býður sjálfdæmishyggju birginn. Ýmsir óttast einnig ósættanleikann sem skautunarmenningin virðist bera í sér og kvíðann og gremjuna sem hún vekur upp, ekki síst á samfélagsmiðlum sem fitna eins og púki á fjósbita við hvert nýtt samfélagslegt kvíðakast.

Hversu flókin hugmyndafræði og tíðarandi vekninnar er má best sjá með því hvernig mat á vekni virðist ganga þvert á hefðbundnar pólitískar átakalínur. Þó að algengasta gagnrýnin í stjórnmálaumræðu dagsins í dag á Vesturlöndum komi frá hinu íhaldssama hægri, sem óttast að veknin splundri öllum hefðgrónum hugmyndum um siði, venjur, reglu, þjóðerni, kyn og náttúrulegt eðli mannsins, þá er jafnhatramma gagnrýni, en ekki eins háværa, að finna í röðum gamalgróinna vinstri manna með rætur í marxisma. Marx sjálfur myndi snúa sér við í gröfinni ef hann hlustaði á helstu talsmenn vekninnar. Fyrir honum væri hún aðeins enn ein birtingarmynd sjálfhverfrar hughyggju („subjective idealism“) sem afneitar forgangi efnahagslífsins og samfélagslegu eðli sjálfsmyndar sem hefur ekkert að gera með huglægt val eða „tilfinningu fyrir því hve maður er“ sem er oftast ekkert annað en „fölsk vitund“. Það sem Marx kallaði „meðvitund“ (um stéttareðli tilverunnar) er eins langt frá merkingu „vekni“ og hugsast getur. Það er því ögn grátbroslegt að sjá hægri leiðtoga í Evrópu tala um vekni sem afturgenginn marxisma. Hún er allt annað en það. Hún er miklu fremur ydduð upplýsing, ydduð svo mjög að broddurinn stingur. 

Frasinn um að erfitt sé að spá, einkum um framtíðina, er þreyttur en á vel við hér. Það er hægt að sjá fyrir sér margs kyns mögulega framvindu. Öfgakenndasta afleiðingin, en jafnframt sú ólíklegasta, af óheftum framgangi vekninnar væri einhvers konar þekkingafræðilegur atómismi þar sem einstaklingar gætu skilgreint sig sem ketti eða kóngulær að vild og samfélagslímið gliðnaði fullkomlega. Öfgakennd afleiðing í hina áttina, en því miður ekki eins ólíkleg, er að andstæðingar vekninnar nái að magna upp slíkan ótta við hana hjá almenningi að leiðtogar á borð við Trump og Orbán nái völdum um allan hinn vestræna heim. Margir sjá Meloni á Ítalíu t.d. sem árgala andvekni í Evrópu. Sögulega séð er pólitík hins vegar miðjusækin og, þegar til lengri tíma er litið, er ekki ólíklegt að einhvers konar jafnvægi náist milli vekni og andvekni, a.m.k. á hinu pólitíska sviði. Við sjáum mögulega forskrift að því hér í Bretlandi, þar sem líklegur næsti forsætisráðherra, Starmer, er í orði mun vökulli en núverandi forsætisráðherra, Sunak, en þar sem bitamunur en ekki fjár er á raunverulegum pólitískum stefnumálum þeirra. 

Það hjálpar hins vegar ekki skynsamlegri pólitískri úrvinnslu á hugmyndafræði vekni og andvekni ef helmingur kjósenda skilur ekki einu sinni hvað orðið merkir. Það er a.m.k. í anda upplýsingar að reyna að átta sig á merkingu hugtaksins – þó að hugtakið sjálft hafi um leið sýnt okkur hve upplýsingin sjálf er tvíeggjað sverð.

Greinin birtist fyrst í Heimildinni 22. ágúst 2023. Endurbirt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *