Að horfast í augu við eigin djöfla

Stórmyndin Sound of Freedom er í sýningu í Sambíóunum þessa dagana og nýlega fékk ég þann heiður að sjá loksins myndina sem ég hef fjallað mikið um hér á Krossgötum. Má segja að hún hafi staðist allar væntingar. Myndin er listilega vel leikin með flottri myndatöku og afbragðsgóðri tónlist. Uppsetning myndarinnar er ekki eins og í hefðbundnum Hollywood myndum, enda er þetta sjálfstæð alþjóðleg mynd búin til að mestu af fólki frá Mið- og Suður-Ameríku. Sagan skiptist í þrjá kafla og hefði allt eins geta verið þriggja þátta syrpa. Þótt sagan sé grípandi frá upphafi til enda gæti sumum þótt hún byrja heldur rólega, en fyrsti kaflinn setur upp senuna fyrir þá næstu. Spennan eykst síðan umtalsvert rétt fyrir hlé og helst óbreytt út myndina. Eins byrjar hún nokkuð þungt en verður eilítið léttari þegar á hana líður.

Eins og flestum er kunnugt fjallar myndin um frelsun barna úr kynlífsþrælkun og er ætlað að vekja athygli á þessari illsku í von um að fólk sameinist í baráttu gegn henni. Í myndinni er sett fram ýmis tölfræði um mansal, eins og að milljónir barna séu hneppt í ánauð í heiminum í dag og að um tvær milljónir barna séu nauðbeygð til að athafna sig í kynlífsþrælkunariðnaðinum á ári hverju. Samtökin OUR, sem aðalpersóna myndarinnar stofnaði, hafa bjargað þúsundum barna úr höndum mannræningja, og þó svo að verk þeirra sé göfugt og hvert líf dýrmætt, er þetta aðeins dropi í hafið þegar horft er á tölfræðina í heild sinni. Fáir yfirgefa kvikmyndahúsið haldandi það að kynlífsþrælkun barna verði upprætt með björgunaraðgerðum eins og þeim sem sýndar eru í myndinni. Önnur samtök og stofnanir vinna jafnvel mikilvægari störf, en engu að síður heldur mansalsiðnaðurinn áfram að stækka. Sumir hafa því lýst mikilli sorg og vonleysi í kjölfar þess að horfa á myndina. Hafa þeir jafnvel kvartað yfir því að myndin bjóði ekki upp á neinar lausnir við þessum vanda. Það er hins vegar varla hlutverk kvikmyndaframleiðenda að bjóða upp á lausnir við vandamálum sem þessum. Allt sem listamenn geta gert er að vekja athygli á vandamálinu og vekja fólk til umhugsunar í von um að það hugi sjálft að lausnum og hrindi þeim í framkvæmd.

Með þessar hugsjónir í fararbroddi fann ég sjálfur vonarneista í kjölfar þess að horfa á myndina. Vona ég að fólk hugi að því hvað það geti gert til að berjast við þessa illsku, og afli sér upplýsinga frá sérfræðingum í þessum málum. Ég er enginn slíkur sérfræðingur, en það fyrsta sem hvarflaði að mér er að rót vandans hljóti að vera barnagirnd sem skapar eftirspurn eftir barnaklámi og -vændi. Velti ég því fyrir mér hvað við sem samfélag getum gert til að draga úr barnagirnd, og hvað einstaklingar geti gert til að minnka líkur á að þeir og þeirra nánustu þrói með sér barnagirnd og misnoti börn. Leit á veraldarvefnum skilaði hins vegar engum góðum lausnum, enda virðast sálfræðingar vera óvissir um hvað valdi þessu.

Ég fann hins vegar heimildarmynd með Tim Ballard, aðalpersónu Sound of Freedom, þar sem hann setti fram áhugaverða kenningu. Frásögn hans var svohljóðandi:

“Svarið við þessari spurningu er óvinsælt. Fólk vill ekki ræða þetta og vill ekki að ég tali um þetta: Bandaríkin eru heimsins stærsti neytandi barnakláms – eða barnanauðgunarmyndbanda eins og ég kalla þau – því það er það sem þau eru. Restin af hinum vestræna heimi tekur einnig þátt. Hugur þeirra sem girnast börn er rangsnúinn og sjúkur. Ég hef yfirheyrt marga tugi þessara gaura á síðustu 16 árum sem ég hef unnið á þessu sviði. Enginn vill sætta sig við hvað það er. Þeir vilja ekki trúa því. 

Hvernig komstu hingað? Af hverju viltu þetta? Af hverju girnist þú börn?

Allir hafa þeir sömu söguna að segja:

‘Ég opnaði klám tímarit þegar ég var 12 ára. Og svo fór ég í grófara og síðan enn grófara efni. Svo kom internetið þegar ég var á þrítugsaldri, og guð minn góður, með því að smella á músina gat ég skyndilega séð allt sem ég vildi. Og svo fór mér að leiðast efnið sem ég naut þegar ég var unglingur – ég fékk ekki skammtinn minn. Ég hætti að fá þá tilfinningu sem ég hafði áður fengið þegar ég horfði á fullorðinn karl og fullorðna konu stunda kynlíf á formi sem var varla löglegt. Það var þá sem ég fór að endurskoða leitarskilyrðin.’

‘Jæja… þetta er ekki að gera sig fyrir mig lengur… allt í lagi: 16 ára. Ég ætla að hætta þar. Ég hætti. Ég ætla að hætta við 16 ára aldur,’ sagði ég sjálfum mér.

En það sem gerist er að skyndilega eru þau orðin 14 ára, og svo 12 og svo 10, 8 og 7.

Og það er þetta sem skapar þessa eftirspurn. Og þetta er upphafið, og ástæða þess að menn hoppa upp í flugvélar til Haiti, Kólumbíu og Taílands – fyrr eða síðar hættir klámið að gera sig fyrir þá. Þetta er ástæða þess að tvær milljónir barna eru nauðbeygð til að athafna sig í kynlífsþrælkunariðnaðinum.“

Tim Ballard, fyrrverandi leyniþjónustumaður

Það má vera að Tim Ballard hafi rangt fyrir sér, og að klámneyslan hafi hvorki orsakað né örvað barnagirndina, heldur hafi hún alltaf verið til staðar. En þar til sýnt verður fram á að klámið sé ekki orsakavaldurinn gæti fólk viljað taka þessum möguleika alvarlega.

Ein ástæða þess að skoðun hans Ballard er óvinsæl og fólk vill ekki ræða þetta er sennilega sú að mikill meirihluti fólks horfir á klám og er ekki tilbúið að horfast í augu við skaðsemi þess og hættuna sem því fylgir. Samkvæmt kanadískri könnun sögðust 80% karla og 26% kvenna á fullorðinsaldri horfa á klám a.m.k. einu sinni í viku, en 98% og 73% sögðust hafa horft á klám á síðastliðnum 6 mánuðum. Samkvæmt skýrslu Fjölmiðlanefndar hafði rúmlega helmingur íslenskra drengja í unglingadeild grunnskóla séð klám og mörgum þeirra líkað það vel. Það er því ljóst að klámáhorfið hefst snemma og að neysla þess er orðin ansi normaliseruð í okkar samfélagi.

Hvenær hættir “löglegt” klám að duga þessum drengjum og hvenær fara þeir að leita í grófara efni? Hvaða áhrif mun það hafa að þeir byrji svona snemma, með nær óheftan aðgang að allskonar efni? Hver mun vara þá við og fræða um möguleg örlög eins og þeim sem lýst er hér að ofan, eða alls konar aðrar slæmar afleiðingar? Munu foreldrar þeirra, sem horfa sjálfir á klám, vernda þá? Munu þeir þá gerast hræsnarar, eða nýta tækifærið til að horfast í augu við eigin djöfla?

Stikla fyrir kvikmyndina Sound of Freedom
Hægt er að nálgast miða á Sambio.is

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *