Við stöndum á krossgötum

Lýðræði á Íslandi, eins og ann­ars staðar á Vest­ur­lönd­um, er á fallanda fæti. Eins og ég hef rakið í fyrri grein­um er lýðræðinu nú ógnað bæði inn­an frá og utan frá. Engu virðist skipta hvaða flokka við kjós­um á þing, því niðurstaðan verður alltaf sú sama: Að fram­fylgja stefnu­mörk­un sem kem­ur frá alþjóðleg­um stofn­un­um án lýðræðis­legr­ar umræðu inn­an­lands, hömlu­laust inn­streymi er­lendra reglna, auk­in áhrif ESB og stofn­ana SÞ, auk­in miðstýr­ing, hærri skatt­heimta, meira eft­ir­lit, þrengri skorður utan um at­vinnu­líf og einka­líf. Upp­taln­ing­in gæti þakið heila blaðsíðu.

Þessa þróun verður að ræða út frá mörg­um hliðum og leita skýr­inga. Einn þátt­ur­inn í þessu er hvort við það verði unað að for­sæt­is­ráðherra lands­ins gegni sendi­herra­hlut­verki í þágu SÞ og sinni þar er­ind­rekstri sem mögu­lega er ósam­ræm­an­leg­ur hlut­verki henn­ar sem for­sæt­is­ráðherra. Á síðasta kjör­tíma­bili lagði ut­an­rík­is­ráðherra fram frum­varp um bók­un 35 sem frem­ur þjónaði hags­mun­um ESB en Íslands. Frammi fyr­ir öllu fram­an­greindu verður að gera þá kröfu að stjórn­mála­menn – sem og kjós­end­ur – séu vak­andi fyr­ir þeim hags­muna­árekstr­um sem upp kunna að koma. Eng­inn get­ur þjónað tveim­ur herr­um.

Við búum í raun orðið við ein­hvers kon­ar stofn­anaræði, þar sem stór­um og smá­um ákvörðunum er út­vistað til skrif­stofu­manna í Brus­sel, Dúbaí og víðar, sem starfa und­ir áhrif­um þrýsti­hópa, und­ir merkj­um alþjóðlegra stofn­ana sem ekki bera hag Íslands sér­stak­lega fyr­ir brjósti. Yfir vötn­um stjórn­mál­anna svíf­ur nú stöðugt ágeng­ari andi sam­eign­ar­stefnu, sem leyf­ir að hags­mun­um ein­stak­linga og þjóða sé fórnað til að „bæta hag heild­ar­inn­ar“ (e. the grea­ter good). Saga 20. ald­ar sýn­ir skýr­lega hví­lík­ar hörm­ung­ar slík stefna get­ur leitt yfir ein­stak­linga og þjóðir.

Með hverju ár­inu sem líður er verið að festa lýðveldið okk­ar í stöðugt þétt­ara neti alþjóðlegra sátt­mála og alþjóðaskuld­bind­inga, sem í fram­kvæmd valda því að valdið verður stöðugt fjar­læg­ara hinum al­menna kjós­anda. Þráður­inn milli valds­ins og al­menn­ings er að slitna. Þetta er að ger­ast fyr­ir til­stilli ESB og SÞ, sem þvert gegn sögu­leg­um, menn­ing­ar­leg­um, trú­ar­leg­um og laga­leg­um hefðum byggja á því að valdið komi ofan frá og niður, m.ö.o. ekki að allt vald rík­is­ins stafi frá þjóðinni eins og lagt hef­ur verið til grund­vall­ar í ís­lensk­um stjórn­skip­un­ar­rétti alla lýðveld­is­sög­una og mótaði raun­ar af­stöðu Ísland­inga á þjóðveldis­öld og senni­lega lengst af í rétt­ar­sögu Íslands.

Við erum að nálg­ast krí­tísk­an tíma­punkt, sem er svo stór og háska­leg­ur að okk­ur leyf­ist ekki leng­ur að skoða málið í hinu smáa sam­hengi eða halda að lausn­ir fyrri tíma dugi til varn­ar. Stóra mynd­in er vissu­lega ekki glæsi­leg, en fram hjá henni verður ekki leng­ur litið.

Sem fá­mennt ríki með merka lýðræðis­sögu eru Íslend­ing­ar í betri stöðu en marg­ar aðrar þjóðir til að veita þessu viðnám. Besti ör­ygg­is­ventill okk­ar er lýðveld­is­stjórn­ar­formið, sbr. 1. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar, sem miðar að því að tryggja nauðsyn­legt jafn­vægi milli al­menn­ings og stjórn­ar­stofn­ana. Í þess­um anda voru sett í stjórn­ar­skrá ákvæði um borg­ara­legt frelsi sem í raun er upp­taln­ing á því sem ríkið má ekki skerða. Lýðveldið, með neit­un­ar­valdi for­seta og end­ur­skoðun­ar­valdi dóm­stóla, á að tryggja að Alþingi setji eng­in lög sem svipta minni­hlut­ann frelsi til tján­ing­ar, til funda o.s.frv.

Að þessu hef­ur verið vegið mjög al­var­lega á síðustu árum og sú þróun er enn í full­um gangi, sbr. stöðugt ágeng­ara reglu­verk ESB, SÞ og WHO. Örygg­is­ventl­ar stjórn­ar­skrár­inn­ar hafa brugðist í þessu sam­hengi. Þá þarf að virkja að nýju. Sterk­asta viðnámið væri í því fólgið að for­seti lýðveld­is­ins beiti valdi sínu sam­kvæmt 26. gr. stjskr. í hvert sinn sem Alþingi læt­ur frá sér fara lög er sam­ræm­ast ekki skyld­um þings­ins við þjóðina, við lýðveldið og fram­an­greind­ar und­ir­stöður lýðræðis og frels­is, sem Íslend­ing­ar vilja búa við.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. desember 2023

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *