Við erum sagan okkar

„Við erum sagan okkar“ sagði prófessor í bókmenntafræðum eitt sinn á TEDx fyrirlestri árið 2015. Vildi hann með þessum orðum leggja áherslu á að sögur eldriborgara myndu ekki deyja út og að forsaga og söguskráning er dýrmæt fyrir hvert samfélag – en ekki bara það. Hann vildi hvetja áhorfendur til að segja sína eigin sögu, því þær væru ekki síður mikilvægar.

„Ég áttaði mig á að ég er sá maður sem ég er í dag vegna þessara frásagna,“ sagði ræðumaðurinn og vitnaði í frásögn móður sinnar sem lét ekkert stöðva sig í að mæta reglulega í skólann. Hún hafi oft verið í lífshættu á leið sinni þangað, en farið samt. Það hafi orðið til þess að hann kunni sjálfur að meta betur tækifærið sem hann hafði fengið til þess að mennta sig. 

Ræðumaðurinn hét Refaat Alareer og var með meistaragráðu í enskum bókmenntum við háskóla á Gaza, þar sem hann starfaði sem prófessor og kennari í skapandi skrifum. Áður en hann var myrtur þann 7. des sl. skrifaði hann ljóðið „If I must die“ eða „Ef ég verð að deyja“ sem fékk byr undir vængi við hvimleitt og örlagaríkt andlát hans. Ljóðið miðlar hvatningu til lesandans um að segja söguna hans áfram. 

Refaat Alareer var prófessor og kennari í bókmenntafræðum og skrifum.
Refaat Alareer var prófessor og kennari í bókmenntafræðum og skrifum.

Í ódæðinu dó ekki aðeins rithöfundurinn og prófessorinn, heldur einnig bróðir hans og systir ásamt börnum þeirra. Örlög sem eiga nú tengingu við Ísland og Íslendinga. Systir prófessorsins hét Asmaa og átti hún fjögur börn með eiginmanni sínum sem er eini eftirlifandi þeirrar fjölskyldu. Honum tókst að flýja alla leiðina til Íslands í leit að öruggum stað fyrir fjölskylduna sína og er einn af þeim sem biðlaði til yfirvalda um að veita fjölskyldunni hæli áður en það yrði um seinan. 

Maðurinn heitir Ahmed al-Mamlouk og hefur komið fram í íslensku sjónvarpi með sára reynslu sína, sem er svo þung og erfið að varla er hægt að skrifa um hana. Hann átti þrjá syni og eina dóttur, sem langaði að verða stjórnmálakona þegar hún yrði stór. Synirnir ætluðu að gerast fótboltahetjur og sá elsti ætlaði að verða enskukennari eins og fyrirmyndin hann frændi sinn, Refaat Alareer.

Ahmed al-Mamlouk

Ahmed telur að hernámsmennirnir hafi meðvitað gert rithöfundinn og prófessorinn að skotmarki til þess að þagga niður í honum. Hann hafi verið framúrskarandi ræðumaður í upplýsingamiðlun til umheimsins vegna enskukunnáttu sinnar og verið ákveðin ógn þar sem hann gat uppljóstrað um stríðsglæpi Ísraels, á góðri ensku.

Aðeins viku áður en ísraelsher varpaði sprengju á hús fjölskyldunnar hafði Refaat veitt fréttastöðinni BBC viðtal þar sem hann greindi frá að verið væri að fremja þjóðarmorð á fólkinu á Gaza, þótt umheimurinn virtist efast um það. Viðtalið var tekið í lok nóvember. Sprengjuárásin á hús fjölskyldunnar kom síðan eins og sending og virðist hafa verið hefndarverk, að sögn Ahmed. 

Sonur Ahmeds ásamt frænda sínum Refaat Alareer.

Óttinn er mikill hjá fólki í framlínunni sem sinnir upplýsingamiðlun á Gaza, hvort sem það eru blaðamenn, rithöfundar, aktivistar eða bara venjulegt fólk með snjallsíma á lofti. Hingað til hafa um 80 viðurkenndir fréttamenn og blaðaljósmyndarar verið myrtir samkvæmt nýlegri greiningu hjá Washington Post. Þeir sem hafa sig frammi við að miðla upplýsingum til umheimsins, um hvað sé að eiga sér stað í hernumdu borginni, eiga í hættu á að verða drepnir, samkvæmt þessari tölfræði. Skiptir engu um þótt blaðamennirnir séu vel merktir einkennisklæðum, skotheldum vestum og viðeigandi hjálmum ætluðum blaðamönnum. Einnig sé tiplað á tám í kringum stjórnvöld heimafyrir og ljóst er að mikil ritskoðun og skoðanakúgun á sér stað þar líka. Hinn almenni borgari er því í mikilli klemmu og getur hvergi komið sér til bjargar.

Hingað til hafa flestum erlendum blaðamönnum verið meinaður aðgangur inn á Gaza nema undir ströngu eftirliti ísraelshers, sem setur skilyrði um að fá að ritskoða fréttaefnið. Þörfin fyrir að miðla óháðum upplýsingum til umheimsins frá Gaza er því mikil en ekki hættulaust hlutverk, eins og raun ber vitni.

Líklega hefur aldrei verið jafn mikilvægt að segja sögu Palestínumanna og núna, á tímum gjöreyðingarafla og jafnvel sögufalsanna, þar sem ísraelskar fréttaveitur eiga forgang að sögugerðinni í vestrænum fréttaflutningum, jafnvel þótt þeir séu ítrekað missaga í umfjöllunum sínum.

Lítill neisti kviknaði með ljóði Refaat Alareer og tendraði nokkur ljós í heiminum þannig að sagan geti lifað áfram, því saga Palestínumanna er einnig í útrýmingarhættu, rétt eins og landsvæðið og fólkið. Hér neðan fylgir því saga þeirra sem þögnin tók.

Síðasta viðtalið sem Refaat Alareer veitti áður en hann var myrtur.

Síðasta viðtalið sem Refaat Alareer veitti áður en hann féll í árásum ísraelshers.


Börn Ahmeds hér að neðan


Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *