Samhengi og plaströrin

Einn mjög mikilvægur angi góðrar umfjöllunar er sá að setja hluti í samhengi. Þetta getur verið sögulegt samhengi, umræða um kosti og galla, fórnarkostnað miðað við ávinning, þróun tækni og ýmislegt annað. Samhengi hjálpar neytanda frétta að skilja frekar en bara vita. Hann kemst ekki bara yfir efni heldur líka í dýptina á því – inn í kjarna málsins. Mögulega dregur fjölmiðlamaður ekki réttar ályktanir (t.d. af því of lítið er vitað, of skammt liðið frá viðburði eða of margt enn á huldu) en með réttu samhengi er a.m.k. búið að skapa grundvöll til umræðu.

Samhengi vantar því miður oft í efni fjölmiðla. Ástæðurnar fyrir slíku geta verið margar, t.d. að um æsifrétt sé að ræða, að blaðamaður er latur eða að hann sé einfaldlega að reyna selja ákveðna sögu. Veirutímar kenndu okkur allt um almennan skort margra blaðamanna – og á þá sérstaklega þeirra með hæstu launin – á gagnrýninni hugsun, sjálfstæðri heimildavinnu og samhengi almennt og þarf ekki að eyða mörgum orðum í það. Hérna skal í staðinn tekið annað dæmi um skort á samhengi í allri umfjöllun: Plaströrið.

40 kíló af plaströrum á mann?

Síðan plastið var fundið upp hefur það fundið nánast óendanlega notkunarmöguleika. Einn slíkur er rörið – plaströrið. Þessi litli hlutur sem er stungið ofan í fernur eða brúsa til að sjúga innihaldið upp í munninn. Plaströrið er létt, ódýrt, stundum sveigjanlegt og endist nægilega lengi til að sinna hlutverki sínu. Því er að lokum hent í ruslið og komið í farveg sorphirðu. 

En plaströrið er komið á svarta listann. Hvernig stendur á því? Í frétt á mbl.is í júlí 2020 er sagt frá þessu, og segir meðal annars:

„Bannað verður að selja eða afhenda án endurgjalds einnota plastvörur á borð við plaströr og einnota hnífapör frá 3. júlí á næsta ári. Þetta er meðal þess sem kveðið er á um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem samþykkt voru á Alþingi fyrr í vikunni og byggjast á tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins frá því í fyrrasumar.“

Einnig:

„Samkvæmt tölum frá árinu 2016 nota Íslendingar um 15.029 tonn af plastumbúðum á ári hverju, og jafngildir það rúmum 40 kílógrömmum á hvert mannsbarn. Aðeins um 42% þess plasts skilaði sér til endurvinnslu árið 2016, en 4,4% í brennslu til orkunýtingar. Áratugi, ef ekki aldir, getur tekið fyrir plast að brotna niður í náttúrunni.“

Ekki fylgir sögunni hvort umbúðirnar utan um pappírsrörin þurfi líka að vera úr einhverju öðru en plasti. Svo virðist ekki vera. 

Þá vitum við það. Tilskipun frá Evrópusambandinu og plast er lengi að brotna niður í náttúrunni. Þar með átti lesandinn væntanlega að skilja rökin að baki banninu og af hverju bann á plaströrum er sniðug aðgerð fyrir umhverfið.

Blaðamenn eða ritarar?

Þessi frétt er fullkomlega án samhengis og kannski var það ætlunin. Kannski var ætlunin bara að endurbirta fréttatilkynningu yfirvalda um nýjasta bannið á nothæfum hlut. Það væri dæmigert fyrir vinnubrögð margra blaðamanna. En hvaða samhengi vantar?

Til dæmis er ekki nefnd sú augljósa afleiðing að í stað plaströra (sem leiðréttingarforritið mitt vildi kalla platrör, og er erfitt að andmæla því) komi pappírsrör sem endast ekki nógu lengi til að sinna hlutverki sínu eða rör úr varanlegum efnum, eins og stáli, sem krefjast mikilla auðlinda til að framleiða (og þarft hvort eð er að eyða heitu vatni og sápu í að þrífa reglulega svo ekki myndist bakteríuskógur í þeim). Nothæf vara – rörið – varð nánast ónothæf. Lítil börn geta ekki lengur opnað eigin fernur og verða fyrir vonbrigðum. Fullorðið fólk þarf að draga fram skæri eða hníf og skera gat fyrir rörið. 

Ekki batnar umhverfið við bannið. Plaströr nota sáralítið hráefni enda segir fréttin að ofan ekkert um það heldur talar um „plastumbúðir“ – algjörlega óskyldur hlutur (vernd á matvælum og varningi gegn skemmdum og hnjaski, og nægir að benda á þykkar plastumbúðir utan um einföldustu raftæki í því samhengi). Plaströr eru væntanlega bara brotabrot af samanlögðu plastmagni í umferð og hreinlega villandi að reyna gefa annað til kynna. Þau enda ekki í sjónum þar sem sorp er hirt og meðhöndlað á skipulagðan hátt. Plaströr hafa einfaldlega fáa og litla ókosti og marga og stóra kosti. Bann við þeim skilar engu nema vandræðum, veseni og vonbrigðum.

En áfram verða þau bönnuð. Einhverjir njóta þess eflaust að hirða af okkur þægindi og notagildi og sofa vel á nóttunni – þar til þeim dettur eitthvað enn verra í hug. Blaðamenn halda áfram að umorða fréttatilkynningar yfirvalda til að halda okkur á beinu brautinni – forðast hið stærra samhengi, gagnrýni og málefnalegt aðhald. Stundum væri hreinlega mest við hæfi að gera grín að hugmyndum yfirvalda okkar. En bíðum ekki eftir því að fjölmiðlar komi að notum þar. Sjálfstæð hugsun er mun vænlegra verkfæri. 

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *