Frétt með fyrirsögninni „Rugludallurinn Robert Kennedy” birtist á RÚV 22. ágúst sl. Höfundur fréttarinnar er Bogi Ágústsson fréttamaður stöðvarinnar til fjölda ára.
Þrátt fyrir að flestir bandarískir fjölmiðlar hafi nánast algjörlega hunsað Robert F. Kennedy Jr. á meðan hann var í eigin kosningabaráttu til forseta, hefði enginn af helstu fréttamönnum vestanhafs vogað sér að setja upp fyrirsögn sem þessa, þori ég að fullyrða. Mögulega var fréttamaður RÚV í tilfinningalegu uppnámi þegar hann skrifaði fréttina, þar sem þá var ljóst að Kennedy ætlaði að hætta við framboð sitt og styðja Trump.
Í fréttaumfjöllun Boga Ágústssonar segir að Kennedy, sem er umhverfislögfræðingur með meiru, tryði á allar samsæriskenningar, eða orðrétt:
„Sagt hefur verið um Robert Kennedy yngri að hann trúi öllum samsæriskenningum sem hann heyri. Meðal annars trúir hann því að flúor í vatni lækki greindarvísitölu fólks og sé krabbameinsvaldandi.”
Skömmu síðar birtist eftirfarandi leiðrétting frá lækni undir fréttagreininni:
„Una Emilsdóttir, sérnámslæknir í atvinnu- og umhverfislæknisfræði, sendi leiðréttingu við greinina og segir að samband flúors og greindarvísitölu hafi verið rannsakað í talsvert langan tíma og staðfest í byrjun árs 2024. Því hærra sem flúorgildi mælist í mæðrum, því lægri sé greindarvísitala hjá börnum þeirra.”
Vandræðalegt fyrir Boga, ekki satt?
Hvers vegna ákvað Kennedy að styðja Trump?
Kennedy flutti langa ræðu 23. ágúst sl. þar sem hann útskýrði ákvörðun sína um að draga framboð sitt til baka og styðja Trump. Meðal annar sagði hann:
„Eins og þið vitið hætti ég í Demókrataflokknum í október vegna þess að flokkurinn hafði í verulegum mæli horfið frá þeim grunngildum sem ég ólst upp við. Hann var orðinn flokkur styrjalda, ritskoðunar, spillingar, stóru lyfja-og tæknirisanna, annarra stórfyrirtækja og stór-kapítals.
Flokksþing Demókrata (DNC) hefur verið í stöðugri lagalegri herferð gegn bæði Trump forseta og mér. Í hvert sinn sem sjálfboðaliðarnir okkar skiluðu inn þeim gríðarlega fjölda undirskrifta sem þarf til að komast á kjörseðilinn, dró DNC okkur fyrir dómstóla, ríki eftir ríki, til að reyna að eyðileggja vinnu sjálfboðaliðanna og hnekkja á vilja kjósenda sem höfðu stutt framboðið. Flokksþingið kallaði til dómara sem voru hliðhollir DNC til að koma mér og öðrum frambjóðendum af kjörseðlinum og koma Trump fyrir í fangelsi.
Þingið stóð síðan fyrir gjörspilltu sýndarprófkjöri til að koma í veg fyrir alvöru samkeppni gegn Biden forseta.”
Úkraína fórnarlamb Vesturlanda?
Þessi hluti úr ræðu Kennedy´s var ekki sýndur í meginstraumsfjölmiðlum.
„Í apríl 2022 vildum við stríð. Þá sendi Biden forseti Boris Johnson til Úkraínu til að þvinga Zelensky forseta til að rífa í sundur friðarsamning sem hann og Rússar höfðu þegar undirritað og Rússar voru að draga herlið sín frá Kyiv og Donbas og Luhansk.
Og það friðarsamkomulag hefði komið á friði á svæðinu og gert Donbas og Luhansk kleift að vera áfram hluti af Úkraínu. Biden forseti lýsti því yfir í þessum mánuði að markmið hans í stríðinu væri stjórnarskipti í Rússlandi, útskýrði varnarmálaráðherra hans, Lloyd Austin. Og að samhliða þessu væri markmið Bandaríkjanna með þessu stríði að þreyta rússneska herinn, draga úr getu hans til að berjast annars staðar í heiminum.
Þessi markmið eiga auðvitað ekkert skylt við það sem Bandaríkjamönnum var sagt um stríðið, að verið væri að vernda fullveldi Úkraínu. Úkraína er fórnarlamb í þessu stríði og hún er fórnarlamb Vesturlanda…“
Er hægri orðið vinstri?
Í nýlegum þætti hjá Tucker Carlson sagði Kennedy:
„Það hefur orðið viðsnúningur í (bandarískri) pólitík, Repúblikanaflokkurinn er nú orðinn flokkur hins almenna borgara, vinnandi fólks, millistéttarinnar og Demókrataflokkurinn flokkur Wall Street, hergagnaiðnaðar, lyfja-og tæknirisa, hins stóra bankakerfis og allt það sem Donald J. Trump kallar Djúpríkið.”
Öll ræða Kennedy er þess virði að hlusta á, og kjörið tækifæri fyrir RÚV og aðra íslenska miðla að velta fyrir sér og ræða. Í þættinum varaði Kennedy einnig við „tilkomu alræðis í öllum vestrænum lýðræðisríkjum.“ Hann segist hafa áhyggjur af aðförðum gegn tjáningarfrelsinu og lýðræðislegum starfsháttum.
„Ég hefði ekki getað ímyndað mér að þetta yrði svona. Evrópa býr ekki lengur við málfrelsi. Evrópusambandið ritskoðar nú opinberlega upplýsingar á netinu. Yfirmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, maður að nafni Thierry Breton, sendi Elon Musk nýlega bréf þar sem hann sagði að ef Musk myndi sýna beina útsendingu af viðtali við Trump á 𝕏 (Twitter) yrði hann sektaður um allt að 6% af verðmæti samfélagsmiðilsins. Og viku síðar handtóku Frakkar Pavel Durov, stofnanda Telegram, sem stoppaði í Frakklandi til að taka eldsneyti. Þetta er afar ógnvekjandi, því Frakkland hefur ástríðu og hefð fyrir málfrelsi eins og við höfum hér á landi,“ sagði Kennedy.
Miðað við skrif Boga Ágústssonar er ástæða til að hafa áhyggjur af skorti á alhliða upplýsingamiðlun á Íslandi einnig, sem gerir helstu áherslumálum forsetaframbjóðenda réttmæt skil í fréttaflutningi blaðamanna.
Ræðu Kennedy má hlusta á hér að neðan.