Bandarískir embættismenn hafa notað dauða Alexei Navalny til að tala fyrir auknum vopnasendingum til Úkraínu. Fyrir þeim og mörgum leiðtogum vestursins var Navalny í raun aldrei neitt meira en vopn í hinu nýja kaldastríði. Öfgafulla fortíð Navalnys og þjóðernissinnaðar skoðanir samræmast á engan hátt gildum velunnara hans á vesturlöndum.
Í vikunni mun koma í ljós hvort Julian Assange verði framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann verður settur í einangrun í svokölluðu Supermax fangelsi. Sérfræðingar hafa sagt að miklar líkur séu á því að Assange lifa einangrunina ekki af.
Assange er ekki sekur um neitt annað en að stunda fjölmiðlun og afhjúpa stríðsglæpi og spillingu vestrænna ríkja og heimsvaldastefnu. En það er auðvitað akkúrat ástæðan fyrir því að hann hefur orðið að dúsa í einangrun í öll þessi ár og í stofufangelsi mörg ár þar á undan. Bandaríkin vilja senda skýr skilaboð til að koma í veg fyrir að fleiri blaðamenn líkt og Assange komi fram á sjónarsviðið í framtíðinni. Samkvæmt Chris Hedges, sem starfaði lengi sem stríðsfréttamaður hjá New York Times, komast fáir ef einhverjir með tærnar þar sem Assange hefur hælana þegar kemur að mikilvægum uppljóstrunum.
Fordæmið sem verið er að setja er að Bandarísk yfirvöld geti fangelsað og fengið framselda blaðamenn frá öðrum löndum eftir hentugleika. Jafnvel þó þeir séu ekki einu sinni Bandarískir ríkisborgara en Assange er Ástrali og því ætti það ekki að koma Bandarískum yfirvöldum við hvað hann taki sér fyrir hendur. En ef þú afhjúpar stríðsglæpi Bandaríkjanna verður þú hundeltur og látinn dúsa í einu versta og harðasta fangelsiskerfis heims um aldur og ævi. Blaðamenn um allan heim hafa lýst yfir miklum áhyggjum ef Assange verður framseldur. Það geti einfaldlega leitt til endaloka rannsóknarblaðamennsku sem leitist eftir að afhjúpa vald og innri málefni ríkja.
Þó mál þeirra Assange og Alexei Navalny séu ekki að öllu leiti samanburðarhæf þá á enginn skilið þá meðferð sem þeir tveir hafa mátt þola. Bandarísk yfirvöld geta heldur á engan hátt gagnrýnt Rússa þegar þau sjálf eru blóðug upp fyrir haus. Við getum ekki leyft heimsvaldaþjóðunum að hvítþvo sig með gjörðum Rússa og Pútíns. En það er einmitt það sem við erum að sjá í dag en Joe Biden var fljótur að lýsa því yfir að Pútín bæri ábyrgð á dauða Navalny þrátt fyrir að engar sannanir hafi komið fram eða staðreyndir um hvernig hann hafi látist. Þá eru Bandarískir embættismenn að nota dauða Navalny sem rök fyrir því að framlengja enn frekar stríðið í Úkraínu og senda fleiri vopn til að “veikja Rússa” án þess að þurfa að senda Bandaríska hermenn á stríðsvöllinn.
Daginn eftir dauða Navalny var eiginkona hans, Yulia Navalnaya, mætt á Öryggisráðstefnuna í Munchen þar sem hún fór með ræðu og sást knúsa Nancy Pelosi fyrrverandi forseta bandaríska þingsins. Samkvæmt fréttum snérist umræðan á ráðstefnunni um að vesturlönd verði að senda fleiri vopn til Úkraínu og Ísrael og vísuðu sumir fundarmenn til dauða Navalnys til að undirstrika mál sitt. Þó ekki sé allt vitað um tengsl Navalny við Bandarísk yfirvöld er nokkuð víst að hann hafi starfað með þeim og var fjármagnaður af Bandarískum stofnunum. Gögn frá Wikileaks sýna að stjórnmálahreyfing hans (DA!) var að hluta fjörmögnuð með peningum frá NED (National Endowment for Democracy) sem er stofnun með djúp tengsl við CIA.
Navalny átti sér líka öfgafulla fortíð sem samræmist á engan hátt skoðunum velunnara hans á vesturlöndum, fortíð sem hann hafði ekki gert upp við þegar hann lést. Í myndbandi þar sem Navalny talaði fyrir auknum skotvopnaréttindum talaði hann um að útrýma “flugum og kakkalökkum” á meðan skeggjaðir múslimar birtust á skjánum. Fortíð hans sem þjóðernissinna varð líka til þess að Amnesty International tók hann af lista yfir samviskufanga um tíma. Þá er vel skrásett að Navalny tók þátt mótmælagöngum þjóðernissinna sem beindust fyrst og gremst gegn innflytjendum í Rússlandi en á þeim tíma var mikið útlendingahatur sem kraumaði í landinu. Talið er að rúmlega 100 innflytjendur hafi verið drepnir á árunum í kringum 2008 og hundruðir til viðbótar slasast þegar hópar þjóðernissinna eltu uppi fólk af erlendum uppruna. Þegar Navalny bauð sig fram til borgarstjóra Moskvu árið 2013 gerði hann það með stefnu sem gekk út á andstöðu við innflytjendur.
Navalny var fyrst og fremst vinsæll á vesturlöndum og í Washington DC, en hann náði aldrei miklum vinsældum heima fyrir öfugt við það sem haldið er fram. Yfirlýsingar um að Navalny hafi verið leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi koma ekki heim og saman við vinsælir hans í heimalandinu sem voru af skornum skammti. Samkvæmt skoðanakönnunum studdu aðeins um 19% Rússa Navalny þegar best lét en stuðningurinn var kominn niðir í 9% í fyrra. Þessar staðreyndir, og skoðanir hans á innflytjendum, sína okkur kannski að helsta ástæðan fyrir því að við erum að tala um Navalny yfir höfuð er vegna andstöðu hans gegn Pútín sem var nytsamleg fyrir vesturlönd sem gátu notað hann og baráttu hans til að koma höggi á Rússnesk yfirvöld og til að bæta eigin ímynd í leiðinni.
Assange var aldrei fjármagnaður af ríkisstjórnum eða stofnunum með tengsl við leyniþjónustur og var ekki þekktur fyrir þjóðernissinnaðar skoðanir eða skoðanir andsnúnar flóttafólki eða innflytjendum. Þvert á móti. Vestrænir leiðtogar og almenningur ættu mikið frekar að styðja Assange sem fórnaði sér raunverulega fyrir mikilvægar hugsjónir og afhjúpaði stríðsglæpi Bandaríkjanna og vesturlanda. En einmitt þess vegna var hann úthrópaður og skrímslavæddur í vestrænum fjölmiðlum svo hægt væri að framleiða samþykki við aðgerðir Bandarískra yfirvalda gegn honum. Aðgerðir sem við á vesturlöndum viljum helst trúa upp á svokallaða einræðisherra. Mál Assange sýnir okkur að vesturlönd eru kannski síst skárri þegar kemur að mannréttindum. Hvað eigum við annars að kalla lönd sem styðja þjóðarmorð á saklausu fólki á Gaza og lönd sem styðja aðför gegn blaðamönnum og rannsóknarblaðamennsku í heild sinni?
Höfundur: Andri Sigurðsson
Greinin birtist upphaflega á Neistum 21.02.2024
Bookmarked, so I can continuously check on new posts! If you need some details about Thai-Massage, you might want to take a look at QH8 Keep on posting!