Munnkeflið META – þöggun samfélagsmiðlarisans

Sífellt fleiri munnkeflum er skellt á notendur samfélagsmiðla. Ef prófílar eru ekki beinlínis hakkaðir og þeim rænt með þeim afleiðingum að eigandi reikningsins fær aldrei aftur aðgang, þrátt fyrir að hafa samband við Facebook, þá lætur fjölmiðlasamsteypan META stundum loka heilu reikningunum í nafni „falsupplýsinga“, „hatursáróðurs“ eða annarra sambærilegra yfirskrifta undir því yfirskini að verið sé að verja aðra notendur. 

Gæti verið að tilgangurinn með þögguninni sé annar? Að stýra pólitískri og hagsmunatengdri orðræðu með því að fela óþægilegan sannleika sem er á skjön við ákveðna hagsmuni?

Á tímum æsifrétta kóvidveirunnar fyrir nokkrum árum, sem virðist vera að ganga í endurnýjun lífdaga um þessar mundir, var mörgum áhrifaríkum reikningum eytt af samfélagsmiðlum META. Forsetaframbjóðandinn Robert F Kennedy Jr var sem dæmi með yfir 800.000 fylgjendur á Instagram þegar reikningnum var lokað fyrirvaralaust vegna meintra falsupplýsinga eða „vaccine misinformation“ árið 2021. RFK Jr, sem er sonur Robert F Kennedy heitins (bróður John F Kennedy fyrrum Bandaríkjaforseta, en þeir voru báðir myrtir) hafði meðal annars varað við hættunni á aukaverkunum af völdum covid-sprautunnar. Tveimur árum seinna endurheimti hann Instagram-reikninginn sinn en þá var búið að fjarlægja allar færslur og yfir 30.000 notendur sem áður höfðu fylgt honum.

Búið er að þróa síur sem skanna innihald færslna á Facebook og Instagram og þær merktar sérstaklega sem falsupplýsingar eða faldar með gráum borða sem gefur til kynna að um gróft myndefni sé að ræða sem fólk veigrar sér líklega við að smella á. 

Reikningar eru settir í skuggabann og leitarniðurstöðum er hagrætt til að útiloka að ákveðnir einstaklingar, hópar eða eyrnarmerktar færslur birtist í niðurstöðum. 

Hópum á Facebook er stundum lokað ef of mikið af eyrnarmerktu efni er í dreifingu þar. Nýjasti fítusinn fyrir hópa á Facebook er „Spam filter“ sem er ekki lengur valkvæður möguleiki fyrir stjórnendur. Það felur í sér að færslum og athugasemdum sem Facebook hugnast ekki er sjálfkrafa skellt í spam-hólf án þess að stjórnendur fái neina tilkynningu. Útkoman er þöggun og skortur á upplýstri umræðu.

Sjálf tilkynnti ég um daginn óheflað klámmyndband sem birtist allt í einu í fréttaveitunni minni á Facebook í „sponsored“ færslu. Viku seinna barst úrskurðurinn. Facebook sá ekki ástæðu til þess að taka efnið niður. Hinsvegar virðast engin takmörk fyrir því hversu mikið efni hverfur daglega sem notendur deila frá þjóðarmorðinu á Gaza. 

Undirrituð var sett í skuggabann í vetur fyrir að hafa deilt efni, sem var í mikilli dreifingu, því það var eyrnarmerkt sem „Hamas-áróður“ jafnvel þótt orðið „Hamas“ væri hvergi til staðar. Banninu er í dag, 10 mánuðum seinna, enn ekki aflétt og ég hef ekki lengur heimild fyrir því að kaupa „boost“ á færslur eða að nýta mér „Community chats“. 

Nýjasta viðleitni teknókratanna var á dögunum að fá leyfi til að mega ritskoða efni sem inniheldur orðið „zionist“ eða síónisti. Ný lög munu framvegis heimila META að fjarlægja efni sem fjallar um síónista á gagnrýninn hátt eða í neikvæðu ljósi. Til dæmis má ekki lengur halda því fram á miðlum META að síónistar hafi ítök í heiminum; „Examples of content violating community standards may include claims about Zionists controlling the world or media“, segir meðal annars í rökstuðningnum fyrir aukinni ritskoðun.

Síónistar í nýlenduríkinu Ísrael standa fyrir blóðbaði á óbreyttum borgurum í flóttamannatjöldum um þessar mundir og því er enginn skortur á bæði efni sem sýnir viðbjóðinn beint eða fordæmingu og gagnrýni á vinnubrögðum Ísraelshers. Það verður því af nógu af taka fyrir META. Margir blaðamenn á Gaza hafa greint frá ritskoðuninni sem þeir sæta af hendi fjölmiðlarisans. Þeirra á meðal einn þekktasti fréttaljósmyndari á Gaza; Motaz Azaiza, sem tókst að flýja árásirnar með naumindum og koma sér út fyrir landsteinana. 

Samkvæmt nýföllnum dómum ber ísraelskum yfirvöldum að stöðva þjóðarmorðið tafarlaust, en þeir hafa virt þá að vettugi. Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels og Yoav Gallant, varnarmálaráðherra, samkvæmt nýföllnum dómi ICJ, sem enn á eftir að staðfesta. Þá hefur ICC, Alþjóðlegi glæpadómstóllinn fellt dóm í vikunni í öðru dómsmáli gagnvart ísraelskum yfirvöldum um að hertaka Ísraels á Palestínskum landsvæðum sé ólögleg og að óheimilt sé að hertaka meira af landi Palestínumanna. Þá er ísraelskum yfirvöldum skipað að sjá til þess að ólögleg búsetusvæði „settlements“ verði tæmd og hernámsmönnum gert að yfirgefa ólögleg landtökusvæði og skila þeim aftur. 

Í ljósi þessara alvarlegu staðfestra glæpa og dómsmála er heldur undarlegt að samfélagsmiðlasteypan META vilji ritskoða gagnrýni á framferði síónista undir því yfirskini að verið sé að koma í veg fyrir útbreiðslu á „hatursorðræðu“.

Lengi hefur samsteypan komist upp með að halda einhliða áróðri á lofti með því að útiloka gagnrýnisraddir. Þeim tókst það í Covid og þeir halda sömu uppskrift áfram í flestum stórum málum er varða hagsmuni Bandaríkjanna og bandamanna þeirra, hvort sem það snýst um Úkraínustríðið, þjóðarmorðið á Gaza eða forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum.


Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *