Frelsið er ekki – og hefur aldrei verið – ókeypis eða fyrirhafnarlaust. Málfrelsið er kjarni alls annars frelsis og þar með sennilega mikilvægasti hornsteinn sérhvers lýðræðisríkis.
Lýðræðið lifir ekki án málfrelsis. Án málfrelsis víkur lýðræðið fyrir annars konar og verra stjórnarfari. Þessu til skýringar má beina athyglinni að mismunandi afstöðu ólíks stjórnarfars:
Í lýðræði eru menn ekki krafðir um fyrirvaralausa undirgefni og hlýðni. Í lýðræðisríkum leyfist mönnum að efast og setja fram spurningar. Í harðstjórnarríkjum er þessu öfugt farið.
Í lýðræðisríkjum er fólk ekki þvingað til að ganga í takt við opinbera hugmyndafræði.
Í lýðræðisríkjum eru stjórnarskrárákvæði ekki afnumin án réttlætanlegs rökstuðnings eða með almennri vísan til hættuástands. Í lýðræðisríkjum framfylgja stjórnvöld ekki aðskilnaðarstefnu því þar eru borgararnir jafnir fyrir lögunum. Í harðstjórnarríkjum er fólki mismunað eftir stétt, stöðu, flokkshollustu, uppruna o.fl.
Í lýðræðisríkjum eru andmæli ekki ritskoðuð; þar eru efasemdaraddir ekki kæfðar niður. Í lýðræðisríkjum eru mótmæli leyfð, ekki bönnuð. Í lýðræðisríkjum er almenningur ekki kaffærður í áróðri og ósannindum sem miða að því að hræða fólk til umhugsunarlausrar hlýðni. Í lýðræði er fólk ekki svipt atvinnu fyrir skort á hollustu við stefnu stjórnvalda. Í lýðræðisríkjum er ekki ýtt undir óvild eða alið á hatri í garð þeirra sem viðra efasemdir eða andæfa stjórnvöldum. Í lýðræðisríkjum er fólki ekki refsað fyrir að vera ósammála stjórnvöldum og þar er fólk ekki fælt frá því að tjá skoðanir sínar. Í lýðræðisríkjum leyfist mönnum að gagnrýna stjórnvöld og fletta ofan af þeim sem setja fram ósannindi, beita blekkingum, afneita staðreyndum, innleiða reglur í hugsunarleysi, beita valdi til að verja eigið skinn og framfylgja fyrirskipunum af samviskuleysi.
En tjáningarfrelsið er ekki aðeins takmarkað lóðrétt, með boðum og bönnum yfirvalda, heldur einnig lárétt, manna á milli, með persónuníði, skítkasti o.fl. Með skráðum siðareglum og í ráðningarsamningum eru sett höft á það hvernig menn mega tala út á við, t.d. með ákvæðum þess efnis að menn tjái sig með tilteknum hætti með „ásýnd“ fyrirtækisins eða fagstéttarinnar í huga. Í samfélagi þar sem menn halda að þeir séu starfið sitt eru slík ákvæði til þess fallin að hefta frjálsa tjáningu, því í stað þess að einstaklingurinn njóti frelsis til að tjá sig í eigin nafni er það hópurinn, fyrirtækið, félagið eða flokkurinn sem afmarkar ramma leyfilegrar tjáningar og hver sem stígur út fyrir þann ramma má vænta þess að falla í ónáð fyrir að láta ekki að stjórn. Hér birtist dapurlegur öfugsnúningur þar sem félög, fyrirtæki, flokkar og þrýstihópar grafa undan málfrelsi og lýðræði í stað þess að standa því til varnar.
Samantekt
Málfrelsið er ekki auðvelt í framkvæmd og skapar alls konar óþægindi, bæði fyrir þann sem talar og þann sem heyrir. Málfrelsið grundvallast á því að sá sem hlustar þarf að búa sig undir það að þurfa að breyta um skoðun. Sá sem talar þarf að vera tilbúinn til þess að verða gagnrýndur og jafnvel hæddur. Allt getur þetta verið erfitt í framkvæmd, en ef pólitískir andstæðingar hætta að tala saman þá fjarlægjast menn hver annan og stöðugt erfiðara verður að byggja brýr milli manna. Þá fyrst verður staðan erfið, því í leit að svörum, skýringum og skilningi verðum við að skoða málin frá fleiri hliðum en einni.
Við lifum nú á tímum óróa, ósættis og vaxandi ófriðar, þar sem þjóðfélög virðast sundruð í sífellt fleiri hópa. Í slíku umhverfi sjá sumir sér hag í að ala á ótta, þagga niður í efasemdamönnum, hvetja til ritskoðunar, útilokunar o.s.frv. Frammi fyrir öllu þessu verður aldrei of oft á það minnt, að lýðræðið grundvallast á virðingu fyrir samborgurum okkar, þar sem við ekki aðeins virðum og verjum rétt hvers annars til tjáningar, heldur hlustum – með opnum huga – á það sem aðrir hafa fram að færa.
What fabulous ideas you have concerning this subject! By the way, check out my website at QN7 for content about Car Purchase.