Ég tel það vera mikinn misskilning að “menntasnobb sé orðið allt of útbreitt á Íslandi”, eins og segir hér í þessari grein. Það er frekar öfugt. Það er anti-intellectualismi sem er útbreiddur og verulegt vandamál á Íslandi. Fordómar gagnvart háskólamenntuðu fólki eru útbreiddir og ég hef oft orðið var við þá sjálfur (sérstaklega gagnvart fólki sem er menntað í svokölluðum “gagnslausum” fræðum, einkum félagsvísindum eða hugvísindum, eins og bókmenntafræði, tungumálafræði, heimspeki, sagnfræði, mannfræði, þjóðfræði, fornleifafræði o.s.frv.).
Þetta virðist líka vera eitthvað sér-íslenskt fyrirbæri, vegna þess að ég hef aldrei orðið var við þessa fordóma erlendis eða hjá útlendingum, sem eiga til með að bera aðeins meiri virðingu fyrir klassískum fræðum eða hinum svokölluðu “frjálsu menntum” (“liberal arts” eins og það er kallað á ensku). Það virðist vera einhver sér-íslensk hugmynd að “bókvitið verður ekki í askanna látið”.
Ég hef ansi oft heyrt Íslendinga fara með þessa þreyttu tuggu að “heimspeki sé gagnslaus, bara tómt þras”, og margt í þeim dúr. En ég hef aldrei heyrt neinn útlending segja þetta, eða orðið var við þetta viðhorf erlendis. Varðandi það hvort að heimspeki sé “gagnslaus”, þá er það nú þannig að heimspekin er “móðir vísindanna” og án hennar værum við líklegast enn í torfkofunum. Fram á 19. öld var ekki gerður neinn greinarmunur á vísindum og heimspeki, þetta þótti bara vera sami hluturinn: nefnilega þekkingarleit. Þegar Ísak Newton skrifaði sitt grundvallarrit í eðlisfræði (sem kom út árið 1687), þá hét það ekki “Grundarvallar stærðfræðireglur eðlisfræðinnar”, heldur “Grundarvallar stærðfræðireglur náttúruspekinnar (“Philosophiae Naturalis Principia Mathematica” sem myndi þýðast á ensku sem “Mathematical Principles of Natural Philosophy”).
Sem sagt, þegar Newton skrifaði sitt grundvallarrit í eðlisfræði áleit hann sem svo að hann væri að stunda heimspeki. Og síðan voru það nákvæmlega þessar stærðfræðireglur Newtons sem vísindamenn NASA notuðu á 20. öld í sínum útreikningum til að koma geimförum til tunglsins, eins og þekkt er. Þessi viðhorf (anti-intellectualismi og fordómar gagnvart menntafólki) endurspegla sig svo í samfélagsgerðinni. Núna er staðan orðin þannig að það eru engin vel borguð störf í boði fyrir háskólamenntað fólk hér á landi. Eina undantekningin eru mögulega verkfræðingar og læknisvísindamenntað fólk, en framboð á slíkum störfum er frekar takmarkað, og þetta eru mjög afmörkuð svið. Þetta eru einnig svokölluð “praktísk” svið, en ekki fræða- eða vísindasvið. Sem sannar í raun það sem ég er að segja um þessa fordóma gagnvart öllum fræðum sem eru ekki “praktísk”, og þykja þar með vera “gagnslaus”.
Ástandið hér á landi er orðið þannig að það borgar sig ekkert að sækja sér neina háskólamenntun. Þar sem: 1. það eru engin störf í boði fyrir menntað fólk á tilteknum sviðum (einkum hugvísindum og félagsvísindum). 2. Þau störf sem eru í boði fyrir háskólamenntað fólk eru svo illa borguð að þau eru ekkert “skárri” en venjuleg verkavinnustörf. Þá eru iðnaðarstörf hér á landi sérstaklega vel borguð (miðað við önnur störf og í alþjóðlegum samanburði). Iðnaðarmaður getur þénað margfalt hærri laun á mánuði á við einstakling í venjulegu starfi sem krefst háskólamenntunar. Þannig að hvaða hvati er þá eftir til að sækja sér einhverja háskólamenntun? Ekki neinn. Nema bara “ást fyrir þekkingu” (eins og gríska orðið fyrir heimspeki, filo-sofia, þýðir upphaflega).
Við Íslendingar viljum greinilega bara vera handavinnuþjóð, en ekki skila af okkur miklu bókviti eða fræðimennsku. Það er þess vegna bara eintóm mýta að Íslendingar séu “bókaþjóð”. Það að lesa skáldsögur í jólabókaflóðinu, til þess eins að stytta sér stundir á milli anna, er ekki hið sama og að stunda rannsóknir eða fræðimennsku.
Pistillinn birtist upphaflega á Facebook-síðu höfundar, 15. febrúar 2024
Frétt sem vitnað er í birtist á Samstöðinni:
https://samstodin.is/2024/02/an-skituga-folksins-i-vinnugollunum-hefdi-farid-illa/?fbclid=IwAR3azNg-iZPvZ7-RzUPPvuUx3tqp7T5CWzSd4CcAKvQLkA5lS1u1Fge_mvU