Hversu langt verður bataferlið?

Nýlega var ég spurður að því í útvarpsviðtali hvers vegna ég teldi viðbrögðin við kórónuveirunni hafa verið jafn öfgafull og raun bar vitni. Ég sagði að mín besta ágiskun væri fjöldamóðursýki líkt og Mattias Desmet hefur getið sér til um. Skiljanlega spurði fréttamaðurinn þá hversu líklegt það væri í raun og veru að meira og minna allur heimurinn yrði slíku að bráð; fyrir henni hljómaði það ótrúlegt. Og það er það líka. Ég verð að viðurkenna að þetta er spurning sem ég spyr sjálfan mig líka, hvað eftir annað. Og svarið er ávallt hið sama.

Það ætti að vera orðið öllum ljóst að Covid bóluefni draga ekki úr smiti en auki fremur líkurnar á því, að börn eru í afar lítilli hættu vegna sjúkdómsins og að hættan á alvarlegum aukaverkunum er allt of mikil til að réttlæta bólusetningu þeirra. Sum lönd, til dæmis Danmörk, hafa jafnvel bannað Covid bóluefni fyrir börn yngri en 18 ára, nema í sérstökum undantekningartilfellum.

Tengslin við raunveruleikann rofin

Nýlega sá ég bandaríska könnun á viðhorfum til bólusetningar og ótta fólks við Covid-19. Samkvæmt könnuninni eru 22% foreldra mjög hræddir um að börn þeirra veikist alvarlega eða deyi úr Covid-19, og 25% hafa talsverðar áhyggjur, 47% alls. 42% foreldra 12-17 ára barna hafa annaðhvort nú þegar, eða ætla sér að bólusetja þau með svokölluðum „tvígildum örvunarbóluefnum“ (já, einmitt, þessu sem var prófað á átta músum).

Með öðrum orðum, meira en fimmtungur fullorðinna Bandaríkjamanna telur að sjúkdómur með hverfandi dánarlíkur meðal barna, líklega um einn á móti hálfri milljón, og gríðarlega lága tíðni innlagna, sé þvert á móti mjög líklegur til að skaða börn þeirra alvarlega.

Það er eitthvað alvarlegt að þegar fimmtungur bandarísku þjóðarinnar trúir einhverju jafn fjarstæðukenndu og þessu. Það hljómar vissulega ótrúlega, en hvað annað en fjöldamóðursýki gæti útskýrt að tengslin við veruleikann rofni á jafn afgerandi hátt?

Fjöldamóðursýki myndast hins vegar ekki af sjálfu sér. Það sem hrindir henni af stað er gríðarlegur flaumur áróðurs, markviss mögnun á ótta og rangupplýsingar sem stjórnvöld, fjölmiðlar, tæknirisar hafa dælt út á undanförnum þremur árum. Áróðurinn virkar, á því leikur enginn vafi. Hvað þá þegar gagnrýniraddir eru þaggaðar niður, svo opinbera frásögnin er það eina sem fólk hefur aðgang að í meginstraumsmiðlum.

Hugrekki, heilindi og umfram allt efi

Ávextir áróðurs og ritskoðunar eru rangar skoðanir, ranghugmyndir, jafnvel fjöldamóðursýki, eins og fjölmörg dæmi sýna. Áróður og ritskoðun eru vissulega fræin sem sáð er. En við megum ekki horfa fram hjá öðrum mikilvægum þætti, sem er jarðvegurinn sjálfur. Og jarðvegurinn sem gerir ranghugmyndum og fjöldamóðursýkikleift að vaxa upp af fræum áróðurs og ritskoðunar er gerður af okkur sjálfum; þessi jarðvegur er okkar eigin skortur á gagnrýninni hugsun. Við efumst ekki. Við spyrjum ekki spurninga. Við notum ekki og treystum ekki okkar eigin dómgreind. Við leggjum okkur ekki fram um að sannreyna það sem okkur er sagt, að leita upplýsinga sjálf – og upplýsingarnar eru til staðar ef við leitum þeirra í raun og veru. Þetta er ástæðan fyrir því að við komin á þann stað sem við erum nú á.

Við gætum á endanum losnað úr fári óttans við Covid-19. En svo lengi sem jarðvegurinn er frjór; svo lengi sem við efumst ekki, spyrjum ekki, heldur trúum og hlýðum í blindni, þá hangir sverð fjöldamóðursýkinnar, og allt tjónið sem hún getur valdið, áfram yfir höfðum okkar. Við verðum að losna við þessa ógn. Það eru frelsið og lýðræðið sem eru í húfi.

Bataferlið verður langt og þyrnum stráð. En við eigum ekkert val; við verðum að leggja af stað í þessa vegferð, og að leiðarljósi verðum við að hafa hugrekki og heilindi, og efa; ávallt efa. Þessa ferð verðum við að fara vegna okkar sjálfra, og vegna barnanna okkar.


Greinin birtist fyrst á vef Brownstone Institute þann 24. desember 2022

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *