Hræðsla, þöggun og grundvöllur lýðræðisins

Nú þegar svo virðist komið að ritskoðun og þöggun sé í huga margra að verða eðlilegt ástand, bæði fyrir tilstilli stjórnvalda ýmissa ríkja og ekki síður samfélagsmiðlarisa er kannski vert að huga að grundvelli og inntaki tjáningarfrelsisins. Það er kannski kaldhæðnislegt að samfélagsmiðlarisinn Meta skuli minna mig á þessa færslu sem skrifuð var fyrir tveimur árum og fjallar einmitt um þetta efni.


Ein af betri bókum sem ég hef lesið er Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason, sem nú vill að blaðamenn Morgunblaðsins fari í verkfall vegna þess að Staksteinar vitnuðu í grein Páls Vilhjálmssonar þar sem hann lýsir efasemdum um hamfarahlýnun. Af einhverjum ástæðum minntist ég þessarar bókar áðan þegar ég fór út í garð að sækja graslauk í beðið fyrir framan stofugluggann og fann fyrir einhverju loðnu á handarbakinu þegar ég ætlaði að grípa um stráin, leit niður og horfði beint í tvö forvitin augu, eða kannski fremur tortryggin augu kóngulóarinnar sem þarna hafði komið sér fyrir, og hvarf því frá og leitaði fanga annars staðar. Enda eiga kóngulær ekki skilið að vera truflaðar við sín mikilvægu störf. Svo sótti ég tómata, sem mig hafði raunar aldrei dreymt um að hægt væri að rækta utandyra hérlendis, hvað þá í þessum einkar kalda júlímánuði samkvæmt vini okkar Páli Vilhjálmssyni.

Kóngulóin er ein hundruða slíkra sem hafa komið sér fyrir í þessum skjólsæla garði hér í austurbænum og una hag sínum vel, ásamt þröstum, hunangsflugum, geitungum og öðrum smádýrum, enda lítið um tilraunir til skipulagningar hér fyrir utan hálfsmánaðarlegan skyldubundinn garðslátt. Lífinu er einfaldlega treyst, og það sér um sig sjálft. Kannski var það þess vegna sem Draumalandið kom upp í hugann.

Þegar ég skrifaði ritdóm um Draumalandið á sínum tíma, fyrir tímaritið Þjóðmál, sem oft er gagnrýnið á meginstraumsskoðanir, titlaði ég hann „Virkjanasálfræði“, því þessi bók er um sálfræði, hún er um óttann, óttann við frelsið, við hið óþekkta og óvænta, og hvernig hann þvingar okkur til að reyna að skipuleggja veröldina, koma á einhvers konar fyrirsjáanleika – gjarna með frekar ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Páll Vilhjálmsson er ákaflega pirrandi maður. Hann skrifar stundum tóma vitleysu og af einhverjum ástæðum endurbirtir Mogginn hana oft. Einhvern tíma var ég að myndast við að rífast við hann á Moggablogginu, en er löngu hættur því. En stundum ratast honum satt orð á munn. Þess vegna myndi ég aldrei láta mér til hugar koma að krefjast þess að skrif hans yrðu bönnuð, og jafnvel þótt svo væri ekki. Eða skrif, eða orð neins annars, ef því er að skipta.

Á undanförnum 30 mánuðum höfum við upplifað tilhneigingu til þöggunar og ritskoðunar sem er fordæmalaus á okkar tímum. Og þessi þöggun og ritskoðun á sér rætur í ótta – röklausum ótta, og hún á sér rætur í sjúklegri trú á getu mannsins til að skipuleggja og betrumbæta náttúruna. Með öðrum orðum erum við að fást við ástand sem er af nákvæmlega sama toga og óttinn sem virkjanaæðið grundvallast á.

Barátta mín, og Andra Snæs, gegn Kárahnjúkavirkjun bar ekki árangur, því miður. Hræðslan hafði yfirhöndina. Og nú munum við væntanlega sjá afganginum af náttúruperlum landsins fórnað á altari ótta við loftslagsbreytingar. Horfumst í augu við það.

Nú má vel vera að kenningin um loftslagsbreytingar af manna völdum sé rétt. Og það má vel vera að engin leið sé til að aðlagast slíkum breytingum, þótt ég efist samt um það: Holland er að mestu neðan sjávarmáls; þar brugðust menn við og byggðu varnargarða.

Ég man að þegar styrinn stóð sem hæst um Kárahnjúkavirkjun vildu margir þagga niður í gagnrýnisröddum. Vísindin lágu fyrir. Allar vangaveltur um neikvæð umhverfisáhrif og neikvæð efnahagsáhrif áttu helst ekki að heyrast. Sérhverri gagnrýnisrödd var mætt með samstilltum kór virkjanasinna. Þetta man ég vel. Og þeir sem efuðust voru tortryggðir, útilokaðir. Ég deildi oft um þessi mál við Styrmi Gunnarsson heitinn, ritstjóra Morgunblaðsins. En ávallt birti samt Styrmir greinar mínar um málið, undanbragðalaust.

Hið merka ár 1984 skrifaði Milan Kundera grein í Granta, „A Kidnapped West, or Culture Bows Out“. Það er ein fullyrðing í þessari grein sem er mér ávallt minnisstæð, að vestræn menning nútímans grundvallist á ákvörðunarvaldi hins hugsandi einstakling sem efast.

Þetta held ég að sé alveg rétt hjá Kundera. Og þess vegna held ég, nei, ég er sannfærður um, og fullyrði: Það er sama hversu rangar, pirrandi og óþarfar okkur þykja gagnrýnisraddirnar; þöggun er aldrei svarið. Því um leið og við samþykkjum þöggun og ritskoðun höfum við afneitað grundvelli menningar okkar, grundvelli mannréttindanna, og þar með hafnað okkar eigin tilverurétti sem samfélag.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *