Gangandi bergmálshellar

Við lif­um í heimi þar sem flest­ir geta ekki rök­stutt staðhæf­ing­arn­ar sem þeir láta frá sér því þeir vita ekki hvaðan þær koma. Þannig virka berg­máls­hell­ar; þeir mata mann á ein­hverj­um upp­lýs­ing­um og síðan staðfest­ing­um á þeim upp­lýs­ing­um og síðan staðfest­ing­um á því að þess­ar staðfest­ing­ar séu nógu áreiðan­leg­ar til að maður þurfi ekki að velta þeim fyr­ir sér. Þess­ir al­gór­it­mar eru bein­lín­is hannaðir til að út­rýma gagn­rýnni hugs­un, og án gagn­rýnn­ar hugs­un­ar erum við ekki ein­stak­ling­ar held­ur skrúf­ur í vél sem við köll­um lýðræðis­legt sam­fé­lag af ein­skærri ósk­hyggju, þegar við búum í raun við tækn­iræði sem mun á end­an­um þró­ast í sta­f­rænt alræði.

Þess vegna á maður ekki að taka mark á fólki með óhagg­andi skoðanir og fast­mótuð viðhorf, því þeir sem bera svart­hvíta heims­mynd í höfði sér eru ekki menn held­ur gang­andi berg­máls­hell­ar. Vinstri­menn sem halda að hægri­menn séu vond­ir eru gang­andi berg­máls­hell­ar. Hægri­menn sem halda að vinstri­menn séu vit­laus­ir eru gang­andi berg­máls­hell­ar. Eldri kyn­slóðir sem halda að yngri kyn­slóðir eigi sér eng­in gildi eru gang­andi berg­máls­hell­ar. Frjáls­lynd­ir vinstri­menn sem halda að kristi­leg­ir demó­krat­ar séu ras­ist­ar eru gang­andi berg­máls­hell­ar. Góða fólkið sem held­ur að aðrir séu vonda fólkið er gang­andi berg­máls­hell­ar.

Því dýpra sem maður flyt­ur inn í eig­in berg­máls­helli því ólík­legri er maður til að geta átt sam­ræður við ein­hvern ann­an en sjálf­an sig, og því sann­færðari sem maður er um eig­in sjón­ar­mið því lík­legri er maður til að af­greiða skoðanir sem stang­ast á við manns eig­in sem „rang­ar skoðanir“ og fólkið sem legg­ur þær fram sem „vont fólk“. Því þegar gagn­rýn­in hugs­un er horf­in úr heil­an­um verður svo erfitt að ímynda sér að heim­ur­inn sé flókn­ari og marg­víðari en maður held­ur að hann sé. Þess vegna verður maður að ef­ast um eig­in sjón­ar­mið, ef­ast um eig­in sann­fær­ingu. Án ef­ans er maður fangi hug­mynda­fræðinn­ar, fast­mótaður eft­ir sta­f­rænni upp­skrift að fyr­ir­sjá­an­leg­um per­sónu­leika.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. september 2023.

Mynd með grein: Erna Mist

2 Comments

  1. Óskar

    Rétt hjá þér ❤️‍🔥

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *