Er meiri ritskoðun á Vesturlöndum í dag en í Sovétríkjunum á sínum tíma?

Ég er sjaldan sammála Noam Chomsky, en hann kom með djarfa yfirlýsingu í viðtali við Russell Brand sem vakti athygli mína. Hann hélt því fram að við byggjum nú í eins konar alræðiskerfi sem er verra en það sem var í fyrrum Sovétríkjunum. Chomsky nefnir sem dæmi umfjöllun um stríðið í Úkraínu. Það má ekki láta út úr sér stakt orð sem víkur frá hinni ríkjandi frásögn (e. narrative) ellegar má sá sem hinn sami eiga von á að farið verði í ófrægingarherferð gegn honum og honum verði jafnvel slaufað (e. cancelled). En sú frásögn sem ríkir á hverri stundu um stríðið er iðulega röng. (Trúum við því enn að Rússar hafi sprengt Nord Stream gasleiðsluna? Kannski ekki lengur. En það mun örugglega reynast rétt að Rússar hafi eyðilagt Kachovka stífluna.)

Það er kannski ekki svo slæmt að heyra andrófsraddir um Úkraínu. Ekki vegna þess að ég vilji að fólk styðji Pútín, heldur vegna þess að það yrðu fá stríð ef allir gerðu tilraun til að hlusta reglulega á meintan óvin. Það er einmitt þetta sem er gert ómögulegt með þeirri ritskoðun sem er í gangi. Chomsky hefur til dæmis sagt að það hafi verið auðveldara að hlusta á vestrænar útvarpsrásir í Sovétríkjunum undir kommúnisma heldur en að hlusta á rússneskar rásir í Bandaríkjunum í dag.

Chomsky veit eitt og annað um ritskoðun. Hann hefur skrifað fágaða kenningu um hana. Ritskoðun verður til með samspili margra sálfræðilegra, efnahagslegra og félagsfræðilegra þátta. Það er mikilvægt að geta greint hvernig ritskoðun eykst. Þannig er hægt að forðast þá trú að öll ritskoðun eigi rót sína í einu miðstýrðu stóru samsæri. Þannig forðast maður líka hið gagnstæða: algjöra afneitun þess að miðstýrð ritskoðun sé til. Sálfræðilega eru þessi tvö sjónarmið nátengd. Svo lengi sem það er fólk sem sér ekki samsæri neins staðar, þá verður til fólk sem sér samsæri alls staðar.

Ritskoðun birtist fyrst og fremst sem sjálfsritskoðun. Maðurinn er sjálfsritskoðandi vera. Hann vill vera elskaður, dáður og þráður; hann vegur orð sín vegna þess að hann skelfur og titrar við tilhugsunina um höfnun og að vera yfirgefinn. Þessi ótti einn og sér saumar fyrir munninn á honum.

Hins vegar er „raunveruleg“ ritskoðun líka mikil í samfélagi okkar. Forstjóri flæmska ríkisútvarpsins setti á umræðubann (e. gag order) í byrjun þessa árs — starfsmenn mega ekki lengur gagnrýna útvarpsstöðina opinberlega, ellegar verður þeim sagt upp í refsingarskyni. Og nokkrum mánuðum síðar setti forsætisráðherra Belgíu svipað umræðubann: ráðherrar sem gagnrýna ríkisstjórnina opinberlega verða neyddir til að segja af sér.

Alþjóðlegar stofnanir ganga á undan innlendum stofnunum með góðu fordæmi. Auk hers staðreyndaskoðunarmanna (e. fact-checkers) skipuðu SÞ meira en 100.000 stafræna “fyrstu viðbragðsaðila”. Starf þeirra felst í því að vinna á skjótan hátt gegn andófsröddum á samfélagsmiðlum með „nákvæmum og áreiðanlegum upplýsingum“. Og þeir leyna ekki samstarfi sínu við samfélagsmiðlana. Í kórónuveirufaraldrinum hafði Facebook allt að 35.000 manns á launaskrá, sem ritskoðuðu með hjálp gervigreindar meira en 12 milljónir skilaboða sem dreifðu svokölluðum „röngum upplýsingum“ um COVID-19 og bóluefni. Bandarísk stjórnvöld stunda einnig virka ritskoðun. Embættismenn Bidens og ríkisstofnanir vinna með stórum tæknifyrirtækjum við að ritskoða skilaboð á samfélagsmiðlum. Sem betur fer stöðvaði alríkisdómari nýlega þessa samvinnu. Takið eftir: þetta sýnir að það eru enn takmörk fyrir alræðistilhneigingum í samfélagi okkar.

Meðal þeirra sem voru ritskoðaðir voru heilbrigðissérfræðingar á heimsmælikvarða, eins og Dr. Peter McCullough, Dr. Robert Malone, Dr. Jay Bhattacharya og Dr. Aseem Malhotra. Nýleg skoðanagrein í Wall Street Journal heldur því fram að með hverjum degi komi betur í ljós að þessir ritskoðuðu sérfræðingar hafi haft meira og minna rétt fyrir sér í gagnrýni sinni á viðbrögðunum við heimsfaraldrinum, og að það að leyfa röddum þeirra að heyrast hefði dregið verulega úr óþarfa skaða, þjáningu og tapi á trausti almennings á opinberum stofnunum. En þetta hefur ekki komið í veg fyrir að SÞ og aðrar alþjóðlegar stofnanir hafi aukið tilþrif sín til ritskoðunar.

Stjórnmálamenn sogast inn í þetta líka. Í Hollandi eru tilraunir í gangi til að banna stjórnmálaflokkinn Forum for Democracy; myndbönd með bandaríska forsetaframbjóðandanum Robert F. Kennedy Jr. eru fjarlægð af YouTube sem „falsfréttir“; og Biden-stjórnin vill koma Trump á bak við lás og slá – með öllum ráðum sem duga. Snúast tilraunir til að fangelsa Trump eingöngu um um refsiverð brot? Ef það er raunin, hvers vegna eru Obama-hjónin og Clinton-hjónin ekki undir samskonar eftirliti vegna tengsla þeirra við Jeffrey Epstein? Og hvers vegna fór aldrei fram nein rannsókn þegar George W. Bush hóf hrikalegt stríð á grunni fullyrðingar sinnar um íröksk gereyðingarvopn?

Það er í rauninni einfalt. Umburðarleysi beinist ekki að þeim sem brjóta lög. Umburðarleysi beinist að þeim sem fara á svig við ríkjandi hugmyndafræði. Og það fer vaxandi í öllu kerfinu – á vettvangi alþjóðlegra og innlendra stofnana, og einnig á vettvangi einstaklinga.

Chomsky segir hreint út sagt að á Vesturlöndum í dag búum við í alræðiskerfi. Það segir sitt. Herbert Marcuse segir það sama í bók sinni The One-Dimensional Man sem út kom 1964. Hann sagði að þótt Þýskaland nasista hefði að vísu fallið væri Evrópa í rauninni enn alræðissamfélag. CIA bjó í kjölfarið til 500 blaðsíðna skrá um hann. Því er ekki alltaf vel tekið að skrifa bækur þar sem varað er við alræði. Treystið mér, ég veit það af eigin raun.

Hin nýja alræðisstefna er ekki endilega svo fasísk eða kommúnísk í eðli sínu. Hún er tæknikratísk. Það sem er að koma fram er alræði undir forystu „sérfræðinga“, sem er framfylgt með tæknilegum aðferðum, af tegund sem við höfum aldrei séð – fyrr en nú.

Í byrjun snýst þetta um eins konar „flauelshanska“-alræðishyggju, sem reynir að ræna íbúana (andlegu) frelsi sínu með meira og minna ofbeldislausum aðferðum eins og að “ýta” þeim í “rétta átt” (e. nudging), ráðningu áhrifavalda og blaðamanna til að planta og kynna æskilegar frásagnir, bæla niður mikilvæg skilaboð á samfélagsmiðlum með aðstoð reiknirita og svo framvegis. Að halda að slíkar aðferðir séu skaðlausar er sálfræðilega barnalegt. Þær enda alltaf með þvingandi samskiptum. Sá sem afskræmir tungumálið afskræmir mannleg samskipti; sá sem afskræmir mannleg samskipti afskræmir tilveruna. Fyrst í orði, síðan í verki.

Ég er varkárari en Chomsky og Marcuse. Ég vara við því að við eigum á hættu að lenda í alræðissamfélagi — ekki að við séum þar enn. En blæbrigði eru stundum til einskis. Samkennari einn lýsti mér nýlega sem „hugmyndafræðingi öfgastefnu gegn stjórnvöldum“ á degi sem í háskólanum var tileinkaður hægriöfgastefnu. Við venjulegar aðstæður hefði ég sprungið úr hlátri. En bros mitt var dauft. Ég get ekki útilokað að kollegi minn trúi þessu í einlægni.

Greinin birtist fyrst á Substack síðu Dr. Mattias Desmet

Erling Óskar Kristjánsson þýddi.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *