Er forsetinn bara upp á punt?

Í aðdraganda kosninga er vert að velta því fyrir sér hver séu helstu hlutverk forseta Íslands. Margir virðast halda að hann eigi fyrst og fremst að vera „sameiningartákn“ fyrir þjóðina, að undirskrift hans við lagafrumvörp sé aðeins formsatriði, og að embættið sé að mestu valdalaust. Sumir telja að það skipti litlu sem engu máli hver sitji á Bessastöðum, og vilja jafnvel leysa upp embættið. Forsetaframbjóðendur hafa skiptar skoðanir um hlutverk forsetans og vilja nýta það með misjöfnum hætti. En hvað er rétt og raunsætt í þessu öllu saman?

Í Silfrinu þann 25. mars sl. var rætt við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta lýðveldisins, um hlutverk embættisins. Hann fræddi okkur um að kosning forseta Íslands sem þjóðhöfðingja hafi verið lýðræðisleg nýjung með stofnun lýðveldisins. Íslendingar voru „fyrsta þjóðin í heiminum þar sem almenningur kaus þjóðhöfðingja. Fram að þeim tíma – frá heimastjórninni – höfðu ráðherrarnir ráðið. Kóngurinn sat bara í Kaupmannahöfn.“ 

Ólafur segir að það sé alveg ljóst þegar maður skoði söguna að við stofnun lýðveldisins hafi forsætisráðherrarnir “ekkert verið ánægðir með það hvaða áhrif og umsvif fyrstu forsetarnir höfðu á gang mála. Smátt og smátt fór sá hópur ráðamanna sem stjórnuðu flokkunum og ríkisstjórnum að stuðla að því að búa til þetta hugtak: ‚sameiningartákn‘.“ Það hugtak eigi hins vegar ekki endilega við um forseta Íslands, en öllu heldur þjóðhöfðingja sem eru kóngar og drottningar. Forseta Íslands er ekki ætlað að gegna sama hlutverki og konungsfólk á Norðurlöndum.

Ólafur vill meina að hugtakið „sameiningartákn“ hafi verið „búið til af ráðandi stjórnmálastétt í landinu til að halda forsetanum í skefjum; til að passa það að forsetinn fari ekki að ganga á rétt Alþingis og ríkisstjórnar – sem hann þarf þó oft að gera – heldur þurfi hann bara að vera ‚sameiningartákn‘.“ Hann útskýrir að „ef þú leggir höfuðáherslu á það að forsetinn sé sameiningartákn þá sértu í raun og veru að segja að hann megi aldrei gera neitt sem brýtur í bága við vilja ráðherra, Alþingis eða ríkisstjórnar.“

Þar sem stór hluti almennings fólks virðist haldinn þessari trú – að forsetinn eigi fyrst og fremst að vera sameiningartákn þjóðarinnar – er ljóst að þessu takmarki hefur að vissu marki verið náð. Það helsta sem almenningur sér af forsetanum eru veisluhöld, punts-athafnir og verðlaunaafhendingar. Það gefur ekki endilega rétta mynd af mikilvægi embættisins, en ýtir öllu heldur undir þá ranghugmynd sem við erum haldin – um að forsetinn sé bara upp á punt.

Í viðtalinu fjallar Ólafur um erfið stjórnmálaleg verkefni sem forsetinn þarf að taka þátt í að leysa. Síðan minnist hann sérstaklega á málskotsréttinn – þegar forseti vísar máli til þjóðaratkvæðagreiðslu, og virkjar þannig beint lýðræði í landinu. Hann segir að “sá sem gegni þessu embætti þarf að vera tilbúinn að veita þjóðinni þennan rétt, jafnvel í andstæðu við ríkisstjórn og Alþingi, og jafnvel í andstöðu við alla sína stuðningsveitur.” Það ætti að vera öllum ljóst að það þarf sérstakan persónuleika í þetta hlutverk, sem krefjist þekkingar, visku, þrautseigju og kjarks.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands má lesa um hlutverk og réttindi forsetans. Auk málskotsréttar hefur forseti Íslands m.a. vald til að rjúfa þing og stofna til nýrra kosninga, rétt til að láta leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga, og gefa jafnvel út bráðabirgðalög við sérstakar aðstæður. Sjaldan eða aldrei hefur reynt á þessi ákvæði stjórnarskrárinnar. Við lestur ritsins er ljóst að forsetinn getur gripið til ýmissa úrræða þegar á reynir, hefur vald til að verja almenning frá ofríki stjórnvalda ef út í slíkt er farið, og er sannarlega ekki bara upp á punt.

Það að ráðandi stjórnmálastétt í landinu kunni að hafa sannfært meirihluta kjósenda – og frambjóðenda – um að meginhlutverk forseta sé að vera eitthvað „sameiningartákn“ fyrir þjóðina, er grafalvarlegt mál. Í raun eru þetta tilburðir til að þagga niður í eina fulltrúa framkvæmdavaldsins sem er kosinn beinni kosningu af almenningi – þjóðhöfðingja Íslands – og halda honum þægum, svo valdastéttin geti náð fram sínum vilja óhindruð og óáreitt. Þetta gæti leitt til þess að á ögurstundu verði alrangur aðili á Bessastöðum. Það er kannski vissara að hafa þessa vitneskju til hliðsjónar í kjörklefanum á kjördag.

Comments

No comments yet. Why don’t you start the discussion?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *